Æviágrip
Didda fæddist á Selfossi 29. nóvember 1964. Eftir tveggja vikna dvöl þar fluttist hún til Reykjavíkur þar sem hún ólst upp. Hún kannaði fjölmarga grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu og lá leið hennar síðan í Fjölbraut Suðurlands á Selfossi og svo í Menntaskólann v/Hamrahlíð. Árin 1987-1989 stundaði Didda nám í Cordwainers Technical College í London og útskrifaðist þaðan með próf í tösku- og veskjagerð og ber að nefna að hún er ein á Íslandi með þetta próf.
Á níunda áratugnum samdi Didda texta fyrir ýmsar hljómsveitir. Frægastur er vafalaust textinn við lagið Ó, Reykjavík, ó, Reykjavík sem hljómsveitin Vonbrigði flutti. Hún hefur einnig komið fram sem söngkona við örfá tækifæri og lék aðalhlutverkið í kvikmynd Sólveigar Anspach, Stormviðri, sem var frumsýnd 2003. Fyrir það hlutverk hlaut Didda Edduverðlaunin sama ár sem leikkona ársins. Fyrsta bók Diddu kom út árið 1995 en það var ljóðabókin Lastafans og lausar skrúfur og næstu ár sendi hún frá sér skáldsögurnar Erta og Gullið í höfðinu.
Didda hefur fengist við margvísleg störf meðfram ritstörfum.
Um höfund
Um verk Diddu
Árið 1995 sendi Didda frá sér ljóðabókina Lastafans og lausar skrúfur og vakti með henni talsverða athygli. Bókin er samsafn óbundinna ljóða og prósa í lífsreynslustíl og má taka eftirfarandi ljóð sem dæmi um ýmis megineinkenni bókarinnar:
Byrjun
Ég stoppaði einu sinni mann á Njálsgötunni og við vorum bæði blindfull, og af því að hann var svo lágvaxinn þá skipaði ég honum að ríða mér, standandi upp við vegg. Og hann var til í tuskið, stóð þarna lítill og boginn og hjólbeinóttur og ég sá einhvern veginn bara beint ofan á ennið á honum.
Svellbunkarnir sindruðu í stjörnuskininu og það var svo dásamlega íslenskt að finna frostið narta í ber lærin. Og svo fyrir kraftaverk eitt fékk hann það og ég ýtti honum frá mér, hysjaði upp um mig buxurnar og sagði bless.
Þetta var sá þriðji þetta kvöld og mér leið eins og ég væri rétt að byrja.
Ljóðmælandinn tekur sjálfan sig engum vettlingatökum né veigrar sér við að lýsa atburðum og reynslu sem sumum gæti þótt óviðurkvæmileg. Endaþarmssamfarir, dóptripp, vændi og nauðganir eru ekki óalgeng efnistök bókarinnar. Á heildina litið er sjónunum sterkast beint að lífstíl, reynslu og menningu sem stendur utan við reynsluheim „venjulegs fólks“. Hér er ekki spólað í hjólfari þjóðskáldanna eða tekist á við ljóðhefðina með áberandi hætti heldur fyrst og fremst reynt að bregða upp umbúðalausum svipmyndum óöfundsverðrar lífsreynslu (skáldaðrar eða sannrar). Það er ekkert ofsagt að frásagnirnar séu oft og tíðum dramatískar. Eitt helsta einkenni stílsins er samt sem áður beittur húmorinn sem blandast sársaukafullri reynslu. Ekki er laust við að manni stökkvi napurt bros við þá mynd sem dregin er upp í ljóðinu hér að ofan. Það er að vísu ekki sérstakt aðhlátursefni að kona sé svo á vegi stödd að hún reiki um göturnar og girði niðrum sig fyrir hverjum sem er. Áherslan á dvergvöxt mannsins og fáránleiki aðstæðnanna verða þó á einhvern hátt til þess að draga athyglina frá því sem gæti talist hryggilegt og skerpa það sem spaugilegt er án þess að áhrifamátturinn glatist. Áherslan beinist að hinu hlálega en stemning hins afbrigðilega liggur aðeins í loftinu. Ljóðmælandinn lýsir því einnig á lýrískan hátt hvernig „svellbunkarnir sindruðu í tunglskininu“ og gefur talsverðan gaum að umhverfinu á meðan raunverulegt umfjöllunarefni ljóðsins er allt annað og dapurlegra. Þessi stílbrögð mætti jafnvel kenna við rómantíska íróníu með öfugum formerkjum, spenna ljóðsins byggist upp á háði sem síðan er mætt af heldur dapurlegum veruleika.
Á líkan hátt vegur háðið salt við napran raunveruleikann bókina í gegn. Fyrir vikið verður sársaukinn ekki væminn og klámið ekki tilgerðarlegt. Bókin hefur á sér ferskan veruleikablæ og tekst að koma ýmsu til leiðar sem fágaðari aðferð hefði ekki endilega skilað. Ljóðin eru hrá og óslípuð að efni og ytri gerð. Ef eitt af markmiðum Diddu er að „ögra lesandanum“ má segja að henni takist það fyrst og fremst með því að hafa húmor fyrir viðfangsefnum sínum. Þetta sambland húmors og nepurðar einkennir höfundarverkið í heild. Í Ertu, „frásögn í dagbókarformi“, heldur Didda áfram á svipaðri braut og fyrr.
miðvikudagur
dreymdi að verið væri að nauðga mér. allir nauðgararnir eru frægir grínarar svo að ég hló og hló allan tímann. hlýtur að vera ömurlegt að vera aldrei tekin alvarlega. (15)
Eins og ljóðmælandinn í Lastafansi og lausum skrúfum þá gengur Erta í gegnum ýmislegt misfagurt án þess að taka það alltaf sérstaklega nærri sér. Dæmið hér að ofan sýnir hvernig áhrif háðsins gnæfa yfir áhrifum harmsins, bæði í huga persónunnar sem frá segir og lesandans sem á hlýðir. Ertu þykir meira til fyndni grínaranna koma en þeirrar staðreyndar að þeir nauðgi henni. Þetta er að vísu bara draumur, eins og ef til vill margt annað sem sagt er frá í bókinni, en ekkert síðra dæmi um hugarheim persónunnar fyrir vikið. Í skáldsögunum tveimur, Ertu og Gullið í höfðinu, sindrar frásögnin öll hálfvegis í hugskoti aðalpersónanna og erfitt að greina á milli ímyndunar þeirra og raunverulegra aðstæðna. Þótt eitthvað sé ef til vill til í því að „þekkt umhverfið ljái frásögninni veruleikablæ“, eins og stendur á kápu, þá virðist oftast nær sem dagbók Ertu beri fremur vitni um hugarástand hennar og fantasíur en raunverulega atburði. Eftirfarandi brot lýsir þessu hugarástandi nokkuð vel og sýnir að það er að öllum líkindum mótað af öðru en raunverulegri reynslu:
tvær löggur, mótorhjólalöggur í búningum og með hjálma. sólgleraugu. stórir, sterklegir, með leðurhanska. taka mig. annar aftan frá á meðan hinn sleikir á mér snípinn og ég er með stórt tippið á honum uppí mér. byggingaverkamenn, sement á vinnuhönskunum, rafsuðulykt, olía, ryk, berir að ofan, einn er á hækjum sér og étur mig, skeggbroddar, stinga innan lærin, ég stend og sýg þann sem hangir á stillansanum. (48)
Það liggur á milli hluta hvort hér sé um að ræða fantasíu eða martröð. Lýsingin er eins og tekin upp úr svæsnu klámblaði og líklega spunnin upp í huga Ertu fremur en hún beri vott um raunverulega reynslu hennar. Hins vegar má velta fyrir sér hvers vegna Erta lýsir slíkum aðstæðum svo ítrekað í bók sinni. Er hún pervert, fórnarlamb, geðklofi eða „venjuleg manneskja“ með gálgalegan húmor? Við getum ekki treyst því að nokkuð af því sem hún lýsir hafi „gerst“ en þó virðist það henda hana stöðugt allan ársins hring; sömu hugsanirnar, fantasíurnar, kokhreystin og hræðslan blandast veruleikanum og móta þá mynd sem hún dregur upp af lífi sínu. Á einum stað í dagbókinni segir Erta: „gengur bara ekki að pukrast um með eigin ævi í einni klessu í hausnum á sér. ekki nema að ævin sé svona járnbrautarslys sem fólk á svo að komast yfir án áfallahjálpar.“ (22) Það má gera því skóna að ævi Ertu sé nokkurs konar járnbrautarslys sem hún gengur um með í hausnum á sér, og að dagbókarskrifin séu sú áfallahjálp sem hún sækir sér sjálfri. Því birtist líf hennar með svo óreiðukenndum hætti í bókinni, hún tínir upp úr rústunum svipmyndir frá slysinu og inn í það blandast atburðir sem hefðu getað orðið, urðu kannski og eiga kannski eftir að verða. Dagbókin greinir ekki frá atburðunum í lífi Ertu, heldur klessunni sem það er í hausnum á henni. Til þess að umflýja óreiðuna leitar hún ítrekað huggunar í hinu líkamlega og er alla daga upptekin af kynfærum sínum.
og sólin vermir á mér bakið og ég nýrökuð að neðan og hef verið að hlusta á diamöndu calás í tvo daga. […] ólíkt betri tilfinning að vera rökuð að neðan heldur en undir höndunum. og eitthvað svo prakkaralegt að sitja eða standa eða ganga eða hvað sem er, tala við fólk, horfa á fólk, brosa, kinka kolli, hvað sem er, með rakaða mjúka nýja píku. setur einhvern veginn daginn og veröldina í nýjan gír. (23)
Skynjun Ertu á umhverfinu virðist ekki mótuð af ólíkum blæbrigðum þess heldur fyrst og fremst því hvernig henni líður. Hún öðlast algjörlega nýja sýn á tilveruna með því að raka á sér píkuna en aðrir dagar eru litlausir og gráir, fólkið viðbjóðslegt og heimurinn fullur af hatri. Þessi ofursjálfsmiðjaða tilverusýn virðist benda til þess að Erta sé engin hversdagsmanneskja, ekki eins og fólk er flest, og ef til vill eru gangverk líkama og sálar á skjön við það sem gerist hjá flestum. Áherslan á hið líkamlega og holdlega og áhrif þess á andlega líðan vísar að nokkru veginn inn í næstu bók Diddu, skáldsöguna Gullið í höfðinu, þar sem hún verður að aðalviðfangsefni.
Gullið í höfðinu kom út árið 1999. Í henni greinir ung, geðsjúk kona að nafni Katla frá ýmsum misblíðum atburðum og upplifunum ævi sinnar, allt frá einstæðingsskap sínum í bernsku til einstæðingsskaps síns á fullorðinsárum. Í þessari bók líkt og hinum fyrri er enginn tepruskapur viðhafður þegar kemur að lýsingum á reynslu sögupersóna. Eins og Erta virðist Katla hafa sopið ýmsan sjó og lætur sér fátt fyrir brjósti brenna – að minnsta kosti við fyrstu sýn. Algjör skortur hennar á tilfinningalegri viðkvæmni og samsinnið við ýmsum afbrigðilegum aðstæðum verða þó fljótt til þess að vekja upp efasemdir um að hún taki hlutskipti sínu með jafnaðargeði. Það sem virðist henni leikur er að öllum líkindum harmleikur, og vafasamt að treysta þeirri stilltu og hlutlægu afstöðu sem frásögn hennar virðist tjá gagnvart margs konar groddaskap. Þessi frásagnaraðferð er nokkuð tvíbent. Annað hvort spinnur Katla atburðina úr höfði sér án þess þeir eigi sér stoð í raunveruleik-anum eða þeir hafa gerst og mótað hana svo að hún lýsir þeim eins og hverjum öðrum hversdagsleika. Hér er í raun það sama uppi á teningnum og í Ertu þegar kemur að trúverðugleika sögumannsins. Maður veltir því ósjálfrátt fyrir sér hvort hún færi undarlega ævisögu sína í stílinn, hafi jafnvel breytt öllum aðstæðum í huga sér og mótað þær eftir þeirri sýn sem hún hefur á tilveruna. Katla er vistmaður á geðdeild og því auðvelt að draga þá ályktun að hún ímyndi sér ýmislegt sem aldrei hefur gerst, eins og þegar móðir vinkonu hennar misnotar hana sem barn. En manni kemur hér líka í hug að sá geðveiki sé einmitt sá sem mælir fram sannleikann, svipað og gjarna er í leikritum Shakespears, þ.e. að Katla sé í rauninni alls ekki geðveik en hafi lent í margs konar vafasömum og hræðilegum aðstæðum sem etja henni að lokum út í þögnina og loka hana af í eigin hugarheimi. Sögumennirnir í verkum Diddu eru sérstaklega lúmskir að þessu leyti; maður grípur ekki frásögn þeirra án efasemda en getur heldur ekki afskrifað þá sem dæmalausa rugludalla. Það á líka eftir að koma á daginn að reynsla Kötlu er ekkert grín, klúrar lýsingarnar ekki allar úr lausu lofti gripnar eða til þess eins að hneyksla. Eftir því sem frásögninni vindur fram vex þeim skilningi ásmegin að Katla hafi raunverulega verið misnotuð, ef ekki af lesbískri móður vinkonunnar þá alltént af föðurbróður sínum. Þráhyggjuna við að lýsa grófum senum, líkamlegu ofbeldi og klámi má skilja sem viðbrögð Kötlu við eigin reynslu. Út á við birtist þetta í doða hennar og samúðarleysi gagnvart tilverunni en togstreitan og óttinn búa samt sem áður innra með henni. Þegar hún verður í lok bókarinnar vör mannlegrar tengingar við sínar eigin upplifanir þá losnar um stíflurnar, hún fær málið að nýju og tekur að rekja sögu sína.
Þetta er kannski einn skilningur á bókinni. Það er að minnsta kosti ljóst að geðræn vandamál Kötlu eru nátengd líkama hennar. Þegar þau byrja að koma fram verður hún til dæmis hugfangin af eggjum og kjúklingi. Brenglun hennar á sér næstum alltaf líkamlegar forsendur og einkennin brjótast oftast fram með líkamlegum hætti. Hún hættir að tala, heldur sig að vísu oftast til hlés en ræðst líka á vaktkonu og nauðgar henni. Hún skýrir þetta sjálf með því að hún „falli fyrir konum“ en lýsingarnar af kynlífsupplifunum hennar gefa þó vart til kynna að þar sé um venjulega samkynhneigða reynslu að ræða heldur virðist hún bundin afbrigðilegu hugarástandi hennar á einn eða annan hátt. Lýsingar Kötlu af öðrum sjúklingum tengjast einatt einhvers konar líkamlegri brenglun. Ein kvennanna hefur skorið sig síðan hún var fjórtán ára en önnur er ófullnægjandi fullnægingafíkill sem öllum er frjálst að njóta: „Hún virtist sú áhyggjulausasta mannvera sem ég hef hitt, og að sama skapi fullkomlega dauð vegna fullnæginganna sem hún virtist háð, og um leið og hún virtist svo ósnertanleg þá var hún aðgengileg hverjum sem var.“ (98) Eins og lýsingar Kötlu á öðrum vistmönnum eru nær eingöngu bundnar við konurnar og líkamleg einkenni þeirra þá eru líkams- og kynlífslýsingarnar nær alltaf tengdar við dauðann: „… ég vissi hversvegna fólk deyr örlítið þegar það er að ríða […] vissi að það er hættulegt að fá fullnægingu, meira en hættulegt, það er hálfur dauði.“ (75) Á sama hátt gerir Katla sér í hugarlund að starfsfólk sjúkrahússins komi vaktkonunni sem hún nauðgar til bjargar „áður en hún nái því að deyja svolítið.“ (89) Þessi sítenging kynlífs og dauða hlýtur að styrkja þá skoðun að Kötlu hafi raunverulega verið nauðgað og að bókin fjalli á ýmsan hátt um fórnarlömb kynferðislegs ofbeldis. Þegar hún verður vitni að nauðgun unglingsstelpu í bekkjarpartíi (bls. 58-63) þá eru viðbrögðin einhvers konar djúprætt samúðarleysi sem virðist fela í sér raunverulegan skilning. Í Ertu birtist þetta samúðarleysi gjarna í mjög svörtum húmor: „það var einu sinni dragdrottning í new york sem tók inn rottueitur, skar sig á púls og henti sér svo út um gluggann á fjórðu hæð, dó ekki, en var að reyna að segja eitthvað.“ (42) Það væri ef til vill nær að tala um samsömun en samúð, sljóleiki persónanna gagnvart válegum atburðum benda til þess að þeir séu þeim daglegt brauð. Á þennan hátt tekst Kötlu, Ertu og höfundi bókanna að fjalla um mál sem á vissan hátt eru algjört tabú, án þess að verða ofurdramatík eða væmni að bráð.
Frá bókmenntalegu sjónarmiði á skáldskapur Diddu rætur sínar í pönkinu. Pönkið er líklega miklu fremur lífsviðhorf eða ákveðin tegund heimspeki heldur en fastskorðuð tónlistarstefna þótt sem listform hafi það kannski fyrst mótast þar. „Bjakkið og bræðin“ (e. The Filth and the Fury) gæti þó allt eins verið yfirskrift eldri bókmenntastefnu og hugmyndafræði, eins og þeirrar sem franska skáldið Arthur Rimbaud mótaði rúmlega hundrað árum áður en Sex Pistols ruddi pönkinu til rúms. Sameiginleg með Rimbaud og Sid Vicious er greinileg upphafning Diddu á ljótleikanum (ef til vill fegurð ljótleikans?), ögrunin við fastmótað siðakerfi sem ekki rúmar klám, perversjónir og afbrigðilega hegðun, sjálfseyðingarhvötin sem listin ýmist lýsir eða ber hreinlega vitni um. Hjá Rimbaud var þessi lífsskoðun heimatilbúin, fyrst og fremst sprottin af miklum lestri margvíslegra borgaralegra og byltingarsinnaðra rita sem skópu honum andúð á velsæminu og fengu hann til þess að velta sér upp úr skítnum, sækja sér sjálfum reynslu af ógeðinu, „reyna á sér allar tegundir, ástar, vímu og brjálæðis.“ Það verður ekki annað sagt en að pönk Rimbauds hafi verið algjörlega rómantískt. Ég er alls ekki viss um að það sama gildi um Diddu. Skáldskapur Rimbauds er þegar öllu er á botninn hvolft mjög „intelektúal“ andstætt skáldskap Diddu sem er hrár, flaumósa, óreiðukenndur og uppfullur af ómeðhöndluðu klámi. Maður fær það ekki á tilfinninguna við lestur hans að höfundurinn hafi meðvitað sótt sér ógeðfellda reynslu til þess að geta skrifað andborgaralegar bækur og ögrað freðísum heimsins. Það ber í raun og veru lítið á nokkurs konar hugleiðingum um hvað sé frásagnarvert, hvert sé hlutskipti og hlutverk skálda. Pönkið hennar Diddu, ef við viljum kalla það svo, er með öðrum orðum ekki sérstaklega meðvitað og fyrir vikið verður gróteskan og áherslan á viðbjóðinn ekki absúrd en býr yfir raunveruleikablæ sem skilar sér til lesandans. Það er nærtækast að líta á ljóðabókina sem persónulegasta verk hennar og það sem stendur næst hennar eigin reynslu, að minnsta kosti ef marka má það sem stendur á bókarkápunni, að ljóðin séu „enginn skáldskapur heldur sannleiksbrot og svipmyndir úr lífi hennar.“ Þeirrar viðleitni gætir mjög í bókmenntafræði síðustu áratuga að reyna að ræna höfundinn verkum sínum og hver stefnan á fætur annarri hefur haft það að sínu helsta markmiði að sýna fram á að verk lifa og eru sprottin úr nánast öllu öðru en hjarta og hugarheimi höfundarins. Nægir í þessu samhengi að nefna viðtökufræðina, afbygginguna og nýsöguhyggjuna en mikið lengur mætti telja, enda flest með svipuðu sniði. Sú yfirlýsing á bókarkápu Lastafans og lausra skrúfa að innihald bókarinnar takist á við raunverulega reynslu höfundarins hlýtur að koma í veg fyrir að annað sé talið víst, jafnvel þótt hún geti einnig verið skáldskapur. Það skiptir í sjálfu sér ekki máli í öðru samhengi en því að tvær síðari bækur Diddu takast á við mjög svipaðan reynsluheim og væri því nærtakast fyrir gagnrýnanda sem neitar að kasta öllum ævisögulegum nálgunaraðferðum fyrir róða að lýsa því yfir að skáldskapur Diddu sé „í eðli sínu“ gróteskur eða pönkaður. Diddu er fátt heilagt. Efnistökin í verkum hennar og aðferðirnar sem beitt er við að koma þeim til skila eru sennilega of lík til þess að hægt sé að segja að ögrunin sé tjáð með fjölbreyttum hætti. Sömu stefin birtast aftur og aftur og lesandi sem ekki er algjör tepra venst furðu fljótt þeim óheflaða stíl sem einkennir þau. Þeir sem lesið hafa bítskáld, klámblöð og geðklofabókmenntir, hlustað á pönk og liðið útundan, fyllst reiði út í heiminn en hlegið að honum um leið, þeim skilst sjálfsagt að áhrifin á skáldskap Diddu liggja víða en grunar þó jafnvel sterkt að á bak við „háðið og harminn“ glitti í einlægni sem er höfundarins sjálfs.
Nú er spurningin hvort Didda hætti að pönka, beini einlægni sinni inn á brautir sem liggja að sátt við tilveruna og hljóti að lokum Fálkaorðuna fyrir störf sín í þágu íslenskra bókmennta. Kannski er það ólíklegt og má frekar við því búast að hún verði áfram jaðarhöfundur með þau skáldskaparmarkmið helst að greina frá reynslu sem vonandi fæstum fellur í skaut. Það er hægt að taka verkum Diddu sem miklu gríni, og sannarlega má finna í þeim mikinn húmor og háð, en það er einnig hægt að taka þau alvarlega og velta því fyrir sér að öll erum við „venjulegt fólk“ með mismunandi „brenglaða sýn“ á tilveruna, að normin eru mótuð af sýn fjöldans en ekki greipt í stein eins og einhver ævarandi sannleikur. Ljóðskáldið Didda og sögupersónur skáldsagna hennar sýna okkur þessi norm kannski öllu öðru fremur með því að leita gegn þeim og reyna að finna eitthvað satt þar sem svo margt er falskt og brotið.
© Sölvi Björn Sigurðsson, 2003
Greinar
Um einstök verk
Gullið í höfðinu
Soffía Auður Birgisdóttir: „Ekki er allt gull sem glóir“
Tímarit Máls og menningar, 61 árg. ; 3.tbl., 2000, s.114-118
Friðrika Benónýsdóttir: „Geðveikin veitir frelsi“
Vera, 18. árg. ; 6. tbl., 1999, s. 55
Erta
Dagný Kristjánsdóttir: „Du er hvað du gør“ / „You are what you do“
Nordisk Litteratur, 1998, s. 70-71
Ragna Garðarsdóttir: „Hann sagði að ég væri vont fólk“
Tímarit Máls og menningar, 59. árg. ; 1.tbl., 1998, s.114-119
Guðrún Eva Mínervudóttir: „Didda skrifar um Ertu“ (viðtal)
Vera, 16. árg. ; 5. tbl., 1997, s. 24-25
Lastafans og lausar skrúfur
Sigríður Albertsdóttir: „Lastafans og lausar skrúfur“
Vera, 14. árg. ; 4. tbl., 1995, s. 44
Ljóð í The Other Side of Landscape
Lesa meiraLjóð í Wortlaut Island
Lesa meiraGullið í höfðinu : hetjusaga
Lesa meiraErta
Lesa meiraDie Farben unserer Visagen im Winter 1 Gedichte & 2 Texte
Lesa meiraDagbók ; Didda
Lesa meiraLastafans og lausar skrúfur
Lesa meira