Æviágrip
Hilmar Örn Óskarsson er fæddur 14. júní 1975 í Reykjavík. Hann ólst upp í Breiðholti, fyrst í Bökkunum en síðan Seljahverfi. Grunnskólanámi lauk hann í Breiðholtsskóla og stúdentsprófi í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti. B.A. gráðu í almennri bókmenntafræði lauk hann við HÍ árið 2008 - námi sem hann hóf 1997 og er hann því holdi klædd sönnun þess að sumir eiga ekki að taka „smá frí“ að lokinni allri námskeiðavinnu og fyrir skil á lokaverkefni.
Hilmar hefur starfað ýmislegt um ævina og má þar nefna færibandavinnu í gosverksmiðju, eldsneytisafgreiðslu, leikskólastörf, öryggisvörslu, ýmis störf á pósthúsi og Taekwondo þjálfun.
Auk barna- og unglingabóka hefur Hilmar gefið út smásögur og lent í öðru og þriðja sæti í Gaddakylfunni - glæpasagnasamkeppni. Hann hefur fengist við þýðingar og stýrt ritsmiðjum og er á heiðurslista hinna alþjóðlegu IBBY samtaka vegna þýðingar á The Tapper Twins Go to War / Tvíburar takast á (stríðið er hafið!).
Um þessar mundir starfar hann við bókhald og annað tilfallandi hjá MS Ármann skipamiðlun ásamt ritstörfunum auk þess sem hann sinnir Taekwondo þjálfuninni eftir megni.
Frá höfundi
Fyrsta bókin sem ég lærði sjálfur að lesa var Selur kemur í heimsókn eftir Gene Dietch með teikningum eftir Vratislav Hlavaty. Ég las hana í litlar tætlur enda olli hún litlum sprengingum í huga mínum hvað eftir annað. Söguþráðurinn er ekki sérlega flókinn og persónusköpunin engin en bókin rífur samt veröldina í sundur og raðar henni síðan blindandi saman aftur.
Strákur er ekki selur og sirkus er ekki fiskibolluverksmiðja en þessi bók heldur því blygðunarlaust fram og dregur aldrei þær staðhæfingar til baka. Ekki nema hálfa leið, nei, þriðjung í besta falli. Teikningarnar eru með þeim flottustu sem ég hef séð og drógu mig að bókinni löngu áður en litli textinn í henni sprengdi barnshuga minn sundur og saman. Geta bækur gert þetta? Flott, hvar skrái ég mig?
Ég leit ekki um öxl eftir að Selur kom í heimsókn. Ég las allt sem á vegi mínum varð og fékk mjög snemma þá flugu í höfuðið að kannski gæti ég skrifað mínar eigin sögur. Og svo gerði ég einmitt það, ég skrifaði hræðilegar sögur. Ekki hræðilegar eins og IT eða Cabal. Bara hræðilegar. En sem betur fer skapar æfingin meistarann, eða betri sögur að minnsta kosti. Framför er stundum svo latt fyrirbæri að maður gæti svarið að hún væri kyrrstaða í dulargervi.
„Að skrifa er eins og að lesa innan frá og öfugt,“ er setning sem hefur lengi hringlað í höfðinu á mér. Mér finnst hún sniðug.
Um höfund
Tryllt tækni og vélar í vígahug
umfjöllun um verk Hilmars Arnar Óskarssonar
Hvað ef einhverjum tækist að smíða vél sem gæti breytt hugsunum fólks? Eða jafnvel vél sem hefði áhrif á tímann og breytti gangi hans? Og ef viðkomandi dytti nú í hug að nýta þessar vélar í eigin þágu, gegn öðru fólki? Hvernig fólk myndi gera það og hvers vegna? Þessar spurningar og fleiri eru til umræðu í skáldsögum Hilmars Arnar Óskarssonar fyrir börn og ungmenni. Hilmar hefur skrifað bækur fyrir allan aldur, allt frá léttlestrarbókinni Funi og Alda falda (2014), til fjögurra bóka flokks fyrir lesendur á miðstigi um hina úrræðagóðu Kamillu vindmyllu. Í fyrra kom svo Húsið í September sem er fantasía ætluð ungmennum.
Bækurnar eru afar ólíkar, ekki bara hvað varðar lengd og leturstærð, heldur einnig umfjöllunarefni. Funi og Alda falda segir frá strák sem er rekinn út að leika sér þegar hann vill frekar vera í tölvunni, bækurnar um Kamillu vindmyllu lýsa ævintýralegri baráttu Kamillu og vina hennar við brjálaða vísindamenn og ýmsa aðra óþokka, og fantasíuhrollvekjan Húsið í september fjallar um baráttu unglingsstúlkunnar Áróru fyrir tilverurétti sínum og frelsi. Þrátt fyrir ólíkindi eiga bækurnar það sameiginlegt að hafa allar í mismiklum mæli ákveðin einkenni fantasíu, en auk þess hverfast þær allar um aðalpersónur sem fara sínar eigin leiðir, treysta á eigið innsæi og láta ekki segja sér fyrir verkum.
Ímyndunaraflið virkjað
Funi og Alda Falda kom út árið 2014 og er eftir Hilmar Örn og Helgu Ármann. Sagan er rétt innan við 50 blaðsíður, myndskreytt og með hæfilega stóru letri fyrir nýlega læs börn. Aðalpersónan er Funi, sjö ára gamall strákur sem er frekar pirraður því mamma hans vill að hann fari út að leika sér en hann langar bara til að hanga inni í tölvunni. Þrátt fyrir kröftug mótmæli af hans hálfu rekur mamma hans hann út og hann endar niðri í fjöru. Þar opnast nýr heimur þegar hann kynnist hinni skrítnu og skemmtilegu Öldu földu en saman lenda þau í stórmerkilegum og ótrúlegum ævintýrum.
Funi er skapstór og ákveðinn, eldrautt hárið virðist lifna við þegar hann æsist og það gerir hann þó nokkuð reglulega. Alda falda er alger andstæða hans, létt í lund og glaðvær. Hún tekur skapsveiflur hans ekki nærri sér og á einhvern hátt verður það til þess að honum rennur fljótt reiðin, sem kemur honum sjálfum reyndar mest á óvart. Með þeim Funa og Öldu földu tekst óvænt vinátta þennan eftirmiðdag, enda sýnir Alda Funa að það er vel hægt að skemmta sér án þess að vera í tölvunni, þó hann eigi frekar erfitt með að trúa því í fyrstu. Fjaran er töfrandi staður og þrátt fyrir efasemdir Funa tekst Öldu að fá hann til að safna með sér skeljum sem hún ætlar að nota sem eldsneyti fyrir kofann sinn í fjörunni. Funi spyr sig til hvers kofi þurfi eldsneyti og það kemur í ljós að þetta er enginn venjulegur kofi heldur líka kafbátur með fjársjóði innanborðs. Þau skella sér í neðansjávarför í kofakafbátnum, sjá stórmerkilega hluti og eru elt af forljótum fiskum sem vilja ræna fjársjóðinum. Funi veit ekki hvaðan á sig stendur veðrið en verður að viðurkenna að það er alls ekki eins slæmt og hann hélt að leika sér úti. Þegar ímyndunaraflið er virkjað flýgur tíminn og ævintýri leynast á ólíklegustu stöðum.
Sumir kalla ekki allt ömmu sína
Bækurnar um Kamillu vindmyllu eru fjórar talsins og komu út á jafn mörgum árum. Kamilla vindmylla og bullorðna fólkið kom út árið 2012, Kamilla vindmylla og leiðinn úr Esjunni árið 2013, Kamilla vindmylla og svikamyllurnar árið 2014 og Kamilla vindmylla og unglingarnir í iðunni árið 2015. Aðalpersónan í öllum fjórum bókum er eins og titlarnir gefa til kynna Kamilla vindmylla sjálf en hún er 11 ára gömul, málglöð og frökk stelpa sem lætur ekki margt á sig fá. Uppnefnið hefur hún hlotið fyrir þær sakir að hún á það til að tala afskaplega mikið, sem fer í taugarnar á mörgum en kemur í ljós að er alls ekki svo slæmt þegar þarf að takast á við óþokka því eins og allir vita eiga skúrkar af öllum gerðum einstaklega erfitt með stelpur sem tala mikið. Sögusvið bókanna fjögurra er Reykjavík og svæðið í nágrenni höfuðborgarinnar. Esjan, Tjörnin og Hveragerði koma við sögu og umhverfið er kunnuglegt og hversdagslegt þangað til að brjálaðir vísindamenn og óþokkar taka sér bólfestu í því. Í fyrstu bókinni eru allar helstu persónur bókanna kynntar til leiks og grunnurinn lagður að samspili þeirra í gegnum bækurnar fjórar.
Þegar Kamilla Vindmylla og bullorðna fólkið hefst er stutt í sumarfrí hjá Kamillu og hún verður þess skyndilega vör að fullorðna fólkið í kringum hana fer að haga sér eitthvað undarlega. Upp úr bæði mömmu hennar og kennurum rennur endalaus vitleysa, orðin ruglast öll saman og það sem fólkið segir er alveg úr samhengi við allt. Kamilla og besti vinur hennar Jakob ákveða að komast til botns í málinu en til þess að verða eitthvað ágengt þurfa þau að fá sem flesta með sér í lið, því vandamálið heldur áfram að breiða úr sér og virðist verða alvarlega með hverjum deginum. Þau láta sig hafa það að taka höndum saman við erkióvini sína í bekknum, þau Kötlu og Anton, til að reyna að finna lausn á málinu. Enn einn bekkjarfélagi þeirra, gáfnaljósið Felix, bætist svo í hópinn.
Vísindamaðurinn Elías Emil býr í risastóru húsi sem minnir helst á kastala. Hann er ekki hrifinn af gestum og vill helst fá að vera í friði og borða súkkulaðikex og drekka mjólk. Elías er þeirrar skoðunar að allt í heiminum væri betra ef fólk sleppti því að verða fullorðið, því fullorðið fólk er bæði fúlt og leiðinlegt. Það kemur í ljós að það er Elías sem á sökina á bullinu í fullorðna fólkinu, hann hefur fundið upp vél sem sendir frá sér geisla sem ruglar hugsanir í fullorðnu fólki, en lætur börn alveg ósnortin.
Orðaruglið og öfugmælin sem vélin framkallar hjá fullorðna fólkinu eru oft og tíðum bráðfyndin og vekja kátínu hjá Kamillu og félögum hennar í fyrstu. Þegar líður á má hins vegar greina alvarlegri undirtón þegar Kamilla kemst að þeirri niðurstöðu að ef enginn sinnir þeim leiðindaverkum sem yfirleitt dæmast á fullorðna verði börnin að gera það og þá hafi þau engan tíma til að njóta þess að vera börn. Jafnvægi er öllu fyrir bestu og fullorðnir geta verið ágætir til síns brúks.
Næsta bók, Kamilla Vindmylla og leiðinn úr Esjunni hefst að sumri til þegar hlutirnir eru rétt að verða eðlilegir aftur eftir bullið í fullorðna fólkinu. Elías Emil virðist hafa snúið við blaðinu og með honum og krökkunum fimm hefur tekist ágætis vinátta. Þau vinna nú öll saman að því að byggja skemmtigarð á risastórri lóðinni umhverfis húsið hans og skemmta sér prýðilega við það. Þessi áform þeirra falla þó ekkert sérlega í kramið hjá óþokkanum Júlíusi Janusi, leiðtoga hinnar svo kölluðu óþokkareglu, sem finnst Elías heldur betur hafa svikið lit með því að vingast við krakkaskara. Honum finnast krakkar nefnilega óþolandi því þeir eru svo hressir. Júlíus Janus þolir ekki hresst og hamingjusamt fólk og ákveður að sjá til þess að allir verði eins fúlir og hægt er. Ef honum tekst að stela tækninni hans Elíasar sem framkallaði bullið í fullorðna fólkinu ætti það ekki að vera neitt mál.
Krakkarnir og allir í kringum þau fara að fyllast af ólund og þegar meira að segja Kamilla, sem er alltaf frekar hress, fer að finna fyrir almennum leiðindum verður ljóst að eitthvað er ekki eins og það á að vera. Krakkarnir og Elías fara að kanna málið en fúlheitin breiða úr sér á ógnarhraða og þau þurfa að vinna hratt ef þau ætla að stöðva Júlíus Janus og allt fúla fólkið sem sogast á einhvern skuggalegan hátt að Esjunni.
Í þriðju bókinni, Kamilla og svikamyllurnar, er langt liðið á haustið og myrkur og kuldi úti. Sagan hefst á því að Kamillu vindmyllu er rænt þegar hún er á leiðinni heim til sín. Júlíus Janus er þá mættur aftur til leiks og hefur holað sér niður í leynilegu fylgsni undir Tjörninni í Reykjavík. Hann ætlar að ná sér niður á Kamillu og vinum hennar með því að halda henni fanginni og nota nýja tækni til að fá hana til að framkvæma alls konar óþokkalega hluti. Vinir Kamillu verða áhyggjufullir þegar hún mætir ekki í skólann en þegar hún snýr aftur finna þau fljótt að hún er ekki eins og hún á að sér að vera. Það er reyndar eitthvað mjög skrítið við hana og þegar hún fer að birtast á mörgum stöðum á sama tíma verður ljóst að eitthvað þarf að gera. Í ljósi þess að Kamilla er svona undarleg þurfa vinirnir fjórir sem eftir standa að leysa ráðgátuna upp á sitt einsdæmi, en hingað til hafa þau getað treyst á að hún fari fyrir hópnum og komist til botns í málunum. Þau fá aðstoð hjá vini sínum Elíasi Emil og sjá fljótt að þau geta ýmislegt þó að Kamilla sé ekki með.
Í fjórðu bókinni, Kamilla vindmylla og unglingarnir í iðunni, halda Kamilla og vinir hennar eftir langan og þungan vetur að nú sé loksins að fara að birta til hjá þeim og allir óþokkar úr sögunni. Það reynist hins vegar full mikil bjartsýni og þegar Felix segir þeim frá nýlegum rannsóknum sínum á hegðun unglinga komast vinirnir að því að það er eitthvað meira en venjuleg unglingaveiki á ferðinni hjá unglingunum í kringum þau. Systir Kötlu, sem er vissulega yfirleitt frekar undarleg, er allt í einu orðin eins og uppvakningur og farin að haga sér ennþá undarlegar en venjulega. Krakkarnir ákveða að skipta liði til að reyna að átta sig á því hvað er að gerast, stelpurnar ætla að njósna um systurina heima hjá Kötlu og strákarnir ætla að fylgjast með í gegnum myndavélarbúnað. Dularfullt, iðandi grænt ljós úr tölvu systurinnar virðist hafa eitthvað með málið að gera, en allt í einu standa þeir Jakob og Anton einir uppi þegar græna ljósið hefur náð tökum á Felix og Kamilla og Katla eru horfnar. Jakob og Anton þurfa nú aldeilis að sanna sig og bjarga vinum sínum frá hræðilegum unglingum sem eru algerlega dáleiddir af símunum sínum og virðast þar að auki vera undir stjórn illgjarns óþokka.
Þó að sögurnar séu hver um sig nokkuð sjálfstæðar má líta á þær sem eina heild þar sem þær gerast á frekar stuttum tíma, innan við ári í heild, og taka hver við af annarri í beinni tímaröð. Vitnað er í atburði fyrri bókanna í þeim seinni og atburðir í þeim fyrri skipta oft máli fyrir framvinduna síðar. Tækni og vísindi ásamt alls konar klikkuðum og hugmyndaríkum uppfinningum koma mikið við sögu og það eru ekki bara óþokkar sem finna upp ýmsar hættulegar vélar heldur eru Elías og Felix engir eftirbátar þeirra í þeim málum, þó að þeirra vélar séu kannski aðeins skárri og hafi meira almennt skemmtanagildi í flestum tilvikum. Orðaleikir og orðagrín er líka stór partur af sögunum, allt frá titlunum sem hafa flestir tvöfalda merkingu til nafna á uppfinningunum og öllu mögulegu öðru.
Sögumaður bókanna er alvitur, hann lýsir aðstæðum og getur skýrt ýmislegt fyrir lesandanum sem persónurnar vita ekkert um. Í fyrstu bókinni upplýsir sögumaður þannig til dæmis um það hvers vegna Kamilla og Jakob eru vinir og þola ekki Kötlu og Anton, og öfugt, en þau muna sjálf ekkert hver upphaflega ástæðan fyrir ósættinu var. Þó að Kamilla sé aðaldrifkrafturinn í hópnum fá vinir hennar hvert og eitt að njóta sín og láta ljós sitt skína í gegnum bókaflokkinn enda hafa þau margt ólíkt fram að færa. Samspil persónanna er mikilvægt í gegnum allar bækurnar og vinátta þeirra þróast eftir því sem á líður. Þannig eru það í fyrstu Kamilla og Jakob sem eru vinir og Katla og Anton, en hvort um sig þola þau ekki hitt tvíeykið, og svo Felix sem er einn á báti og telur sig ekki þurfa neinn. Í Unglingarnir í iðunni sést glögglega hvernig vináttan hefur þróast þegar hópurinn skiptir sér upp í stelpur og stráka og allir skemmta sér konunglega. Það er deginum ljósara að vinátta og samvinna er eina vitið ef maður ætlar að sigrast á óþokkum.
Vélar sem lifna við
Í Húsinu í september sem kom út árið 2019 er ýmsum hugmyndum um tímann og gang hans velt upp. Spurningum um áhrif tímans, hvað gerist ef tíminn er stöðvaður og hverju þarf að gjalda eilíft líf sem hlýtur að fylgja slíku tímaleysi. Sagan gerist á ónefndri eyju og hefst í bænum Gálga, sem er staður sem ber nafn með rentu. Það er eitthvað við bæinn sem er ekki eins og það á að vera og þar gerast hlutir sem enginn kann skýringu á.
Sögusvið bókarinnar er fantasíuheimur þar sem umhverfið og lifnaðarhættir fólks minna helst á miðaldir. Tækni er til staðar en ekki í hefðbundnum skilningi, heldur frekar í formi eins konar líftækni þar sem tækni og vélar eru notuð í misjöfnum tilgangi til að betrumbæta einstaka manneskjur, svo sem aðalpersónuna Áróru og ungan mann sem við kynnumst síðar í bókinni.
Áróra er unglingsstúlka sem býr í útjaðri bæjarins með föður sínum. Hún er öðruvísi en aðrir unglingar því utan um aðra höndina ber hún málmhólk, sem faðir hennar hefur smíðað. Áróra veit ekki sjálf hvað amar að höndinni en hólkurinn gegnir bæði því hlutverki að vernda höndina og að verja Áróru sjálfa fyrir því sem hann felur. Höndin með málmhólknum vekur ugg hjá öðrum íbúum bæjarins, sem útskúfa Áróru og vilja sem minnst af henni vita. Allir nema Nói, jafnaldri hennar og eini vinur. Áróra þráir að komast burt af eyjunni og er sannfærð um að hennar bíði eitthvað betra annars staðar. Þó að Nói sé ekki jafn áfjáður og hún að fara út í heim ákveða þau að smíða saman fleka sem á að bera þau á framandi slóðir. Á meðan þau vinna við smíðina fylgist skrítin kona með þeim úr skuggunum og bíður færis. Hún þarf að fá Áróru til að koma með sér, með góðu eða illu, því Áróra geymir lykilinn að frelsi konunnar. Þegar konan nær Nóa og hefur hann á brott með sér neyðist Áróra til að elta og upp hefst háskaför sem leiðir þau þvert yfir eyjuna á ókunnan stað sem er umlukinn þoku. Inni í þokunni leynast bæði ókennilegar verur og drungalegt hús sem virðist fylgjast með þeim og vilja þeim illt.
Í húsinu dvelja kona og sonur hennar; konan Agata er stórundarleg og með óþægilega nærveru en sonurinn fjarrænn og skiptir sér lítið af lífinu. Sonurinn er veikur og í blindri þrá eftir að lengja líf hans hefur Agata smíðað vél í kjallara hússins. Vélin er gerð úr torkennilegu efni sem Agata finnur skóginum en þegar búið er að setja hana saman öðlast vélin fljótt eigið líf og tekur yfir allt, bæði hugsanir Agötu og húsið sjálft. Húsið verður lifandi vera, með hjarta í vélinni sjálfri og rætur sem ná djúpt niður í jörðina. Það skynjar umhverfi sitt og er engin leið til að komast nálægt því án þess að gera því viðvart. Umhverfis húsið verður til einskonar tíma-tómarúm sem vélin heldur gangandi með stöðugum fórnum Agötu. Vélin þarf unga líkama til að halda sér gangandi og stækka og gegn því að færa vélinni það sem hún gefur vélin syninum lengri líftíma.
Húsið og vélin kalla Áróru til sín og hún finnur að þau tengjast einhvernveginn því sem málmhólkurinn felur. Hún áttar sig á því að ætli hún að lifa frjáls verði hún að gera allt sem í hennar valdi stendur til að losa húsið og fólkið sem býr í því undan valdi vélarinnar. Þó að saga Agötu sé raunaleg er samúðin í sögunni ekki hjá henni, ekki frekar en hjá þeim hálfskrímslum sem hún heldur föngnum þar og sem eru afleiðingar af hræðilegum tilraunum hennar til að fóðra vélina. Öðru máli gegnir um skrítnu konuna, sem rænir Nóa en reynist vera allt önnur en þau halda í fyrstu, Áróru sjálfa og svo veika soninn, en öll eru þau fórnarlömb bæði Agötu og vélarinnar. Til þess að öðlast frelsi þurfa þau öll að færa óeigingjarna fórn og bjarga þannig ekki bara sér heldur öllum framtíðarfórnarlömbum vélarinnar.
Tæknin upp á gott og illt
Í öllum bókum Hilmars leikur tæknin hlutverk, hvort sem það er í bakgrunninum eins og hjá Loga og Öldu földu eða í aðalhlutverki eins og í bókunum um Kamillu vindmyllu. Samband aðalpersónanna við tæknina er flókið og skoðað er frá mismunandi sjónarhornum hvaða áhrif hún hefur á líf þeirra, góð og slæm. Í tilfelli Funa er hann algerlega límdur við tölvuna og reiðist þegar hann má ekki vera í henni, en lærir að virkja ímyndunaraflið og skemmta sér án hennar. Líf Kamillu og vina hennar snýst beint og óbeint um alls konar tækni og hún er ekki öll slæm þó að uppfinningar brjáluðu vísindamannana séu oft frekar hættulegar. Uppfinningamennirnir finna líka upp alls konar skemmtileg og gagnleg tæki, sem geta auðveldað lífið og eru bara frekar töff, eins og risastóra vélkönguló sem vaktar skjalasafnið hans Elíasar, snjóboltakastara sem Felix finnur upp til að ná yfirhöndinni í snjóboltastríði vinanna, eða örflögu sem er hægt að græða í sig til að skilja hugsanir dýra. Tæknin hér getur samt auðveldlega farið úr böndunum komist hún í rangar hendur, líkt og þegar Júlíus Janus stelur græjunni sem Elías notaði til að rugla fullorðið fólk og aðlagar hana til að nota til annarra illverka, eða þegar óþokkinn Iðunn tekur yfir símaskjái og tölvur til að dáleiða unglinga og fá þau þannig til að hlýða sér. Tækni sem fer úr böndunum er svo aftur til umfjöllunar í Húsinu í september þar sem hún heltekur hugsanir uppfinningakonunnar Agötu. Agata samlagast vélinni sem hún smíðar og verður eins og framlenging á henni, verkfæri fyrir vélina til að koma vilja sínum í gegn. Vélin ruglar svo náttúrulögmálið tímann og það hefur skelfilegar afleiðingar.
Lifandi hús eru þekkt úr hrollvekjum og jafnvel vélar sem taka yfir hús og hér er á ferðinni blanda á þessum tveimur tegundum, vél sem verður lífræn vera en gengur ennþá í grunninn fyrir einhverskonar vélbúnaði. Í heimi eins og okkar, sem reiðir sig í miklum mæli á tækni og vélar af ýmsu tagi, er umhugsunarvert að velta fyrir sér hvað myndi gerast ef fólk fengi að gera það sem það vildi og nýta tækni á eigingjarnan hátt, jafnvel í vafasömum tilgangi. Niðurstaðan í bókum Hilmars er sú að hagsmunum heildarinnar verði ekki fórnað fyrir einn einstakling, það er ekki í lagi að rugla fullorðið fólk þó að það sé leiðinlegt svo dæmi sé tekið, og það má ekki fórna mörgum til að lengja líf eins manns.
Funi, Kamilla og Áróra eru óralangt hvert frá öðru á flestan hátt en eiga það öll sameiginlegt að vera svo sjálfstæð að þau vilja ráða förinni og gera allt sjálf og án aðstoðar, en átta sig svo á því að það er alger óþarfi. Þegar öllu er á botninn hvolft er það vinátta og samvinna sem hjálpar aðalpersónunum að takast á við bæði vandamál sín og andstæðinga, því með því standa saman og hjálpast að er hægt að vinna bug á flestu, hvort sem það eru almenn leiðindi, brjálaðir vísindamenn eða lifandi hús.
María Bjarkadóttir, ágúst 2020
Til þessara greinaskrifa hlaut Bókmenntavefurinn styrk frá
Verðlaun
2007 - Annað sæti í Gaddakylfunni - glæpasagnasamkeppni fyrir smásöguna „Brúður“
2008 - Þriðja sæti í Gaddakylfunni fyrir smásöguna „Eldur“
2015 - Vorvindaviðurkenning IBBY á Íslandi veitt fyrir framlag til barnamenningar
2018 - Á heiðurslista hinna alþjóðlegu IBBY samtaka vegna þýðingar á The Tapper Twins Go to War / Tvíburar takast á (stríðið er hafið!)
Holupotvoríur alls staðar!
Lesa meiraHúsið í september
Lesa meiraKamilla Vindmylla og unglingarnir í iðunni
Lesa meiraFuni og Alda falda
Lesa meiraKamilla Vindmylla og leiðinn úr Esjunni
Lesa meiraKamilla Vindmylla og bullorðna fólkið
Lesa meira"Brúður"
Lesa meira"Uppvakningar"
Lesa meira"Einu sinni"
Lesa meira
Tvíburar : Sturlun í stórborg
Lesa meiraTvíburar takast á (stríðið er hafið)
Lesa meira