Æviágrip
Óttar Martin Norðfjörð fæddist í Reykjavík þann 29. janúar 1980. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð árið 2000 og var einingadúx, B.A.-gráðu í heimpeki frá Háskóla Íslands 2003 og M.A.-gráðu, einnig í heimspeki frá sama skóla 2005 en stundaði einnig nám í faginu við University of Aberdeen í Skotlandi haustið 2004. Óttar var í spænskunámi við Universidad de Sevilla á Spáni vorið 2006 og hefur þar að auki numið þýsku í Heidelberg og frönsku í Nice, hvorutveggja um mánaðarskeið auk þess að hafa kynnt sér arabísku. Hann sótti námskeið í módel- og fríhandsteikningu í Myndlistarskólanum í Reykjavík 1998-1999.
Óttar hefur aðallega fengist við störf sem tengjast skrifum, meðal annars var hann ritstjóri menningarblaðs DV 2006 og jóla-og gamlársblaðs sama blaðs sama ár auk þess sem hann sá um kvikmyndaopnu blaðsins um skeið og skrifaði fyrir Sirkus. Hann hefur einnig bakað pizzur, unnið í bókaverslun og verið aðstoðarkennari í inngangsnámskeiðum í siðfræði og stjórnmálaheimspeki í Háskóla Íslands auk ýmissa starfa fyrir Vilhjálm Árnason heimspekiprófessor við H.Í. frá 2003 - 2006. Hann skrifaði bókmenntagagnrýni og þýddi greinar eftir Paulo Coelho fyrir DV haustið 2006 og hefur birt pistla um heimspeki í blöðum og á vefsíðum. Frá 2004 hefur Óttar helgað sig eigin skáldskaparskrifum að mestu leyti, en einnig fengist við prófarkalestur og yfirlestur. Hann sýndi myndverk í Gallerí Tukt vorið 2004, götulist hans má sjá í bókinni Icepick (2007) og hann hefur einnig hannað stuttermaboli undir vörumerkinu „Alive“.
Fyrsta útgefna verk Óttars er ljóðabókin Í Reykjavík sem hann gaf út sjálfur árið 2002. Fyrsta skáldsaga hans, Barnagælur, kom út árið 2005. Síðan hefur Óttar sent frá sér fleiri ljóðabækur, sumar hverjar með teikningum eða klippiverkum eftir hann sjálfan, birt ljóð í tímaritum, safnritum og á netinu, gefið út þrjú bindi af ævisögu Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar á fjórblöðungum, teiknimyndasögu, og fjölda skáldsagna. Meðal annarra verka hans má nefna minningabók um föður hans, Sverri Norðfjörð, Arkítektinn með alpahúfuna, sem Óttar gaf út í 18 eintökum 2009.
Óttar Martin Norðfjörð býr í Barcelona á Spáni.
Forlög: Sögur útgáfa og Nýhil.
Frá höfundi
Frá Óttari M. Norðfjörð
Orð eru eins og skordýr. Skríðandi um í myrkrinu. Ég man þegar ég orti fyrsta ljóðið mitt. Ég hafði ekki hugmynd um hvað ég var að gera. Drullugur upp fyrir haus. Tíndi skordýr hér og annað þar og límdi saman. Reif fálmarana af þeim eða hausinn og vonaði að þau myndu límast saman. Bara einhvern veginn. Hvers vegna að velja þetta orð frekar en eitthvað annað? Hvers vegna að skrifa um þetta frekar en hitt?
Hérna niðri iðar allt af lífi. Þetta er ekki geðslegt. Frekar ógeðslegt, satt best að segja, en heimilislegt. Get ekki útskýrt af hverju. Bleikir ormar, járnsmiðir, köngulær og jafnvel kakkalakkar ef þú vilt. Öllu ægir saman og þú í miðjunni með opinn munn, japlar á öllu og spýtir út úr þér og vonar að það eigi við. Þannig leið mér með fyrstu ljóðabókina mína. Algerlega týndur í flæmi hugmynda og orða. Búinn að tapa öllum áttum. Er þetta fyndið? Ætti þetta að vera fyndið? Er þetta kannski of væmið? Skiptir það einhverju máli?
Og áður en ég veit af er komin nótt. Ég set þess vegna á mig hjálminn með luktinni sem mamma gaf mér og bíð eftir rigningunni. Er reiðubúinn með handskófluna og bláu fötuna. Bíð. Svo heyri ég í fyrstu dropunum falla. Heyri þetta kunnuglega hljóð þegar rigningin lendir á laufblöðunum og grassverðinum. Ég hleyp út í garð og byrja að grafa og grafa. Brosi af eftirvæntingu. Skordýrin hlaupa eins og tryllt þegar skjólið hverfur. Skyndilega berskjölduð á grasfletinum. Blautir fingurnir á mér tína þau varlega upp af jörðinni og setja ofan í bláu fötuna. Þannig eyði ég nóttinni. Safna saman spriklandi skordýrum. Slímugum. Krem óvart sum og þau deyja á staðnum. Næ öðrum. Þegar fatan er full fer ég aftur inn. Hundblautur og þreyttur en sáttur. Með nóg í sarpinum fyrir næsta dag.
Óttar M. Norðfjörð, 2007.
Um höfund
Grillað um fimbulvetur
Árið 2005 kom út ástarljóðabók Nýhils, Ást æða varps. Óttar Martin Norðfjörð á í henni nokkur ljóð, þar sem hann lýsir yfir og margítrekar ást sína á heitkonu sinni. Í einu ljóðanna er lýsing á andartaki ástarinnar, þessu ákveðna augnabliki þegar ástin brýst fram í brjósti mannsins, eins og hefðin leyfir og krefst:
Þegar þú
settir typpið mitt
uppí munninn þinn
gastu sett það
dýpra
og lengra
en allar hinar.Miklu dýpra
en ég hafði áður séð.Miklu dýpra
en ég gat ímyndað mér
að hægt væri.Ég vildi vera þarna alla ævi.
Þú horfðir í augun mín.
Ég horfði í augun þín.Ég varð ástfanginn.
Tveir elskendur horfast í augu og ástin kviknar á milli þeirra. Vart er hægt að ímynda sér rómantískara mótíf, en blossinn kviknar út frá einhverskonar metframmistöðu í munngælum, afreki sem er eins og klippt út úr klámmynd frekar en sonnettusveig. Hin ljóðin eru í sama dúr: skáldið ítrekar ást sína með því að hóta að berja gömlu bólfélagana hennar, rannsaka blóðkekkina í klósettinu þegar hún er á túr og stinga upp á því að þau „prófi allskyns nýja hluti“ tengda rassi hvors annars. Þetta eru ástarljóð þar sem ástin er framlenging á sjálfselsku og rómantíkin er spunnin úr klámi og ofbeldi. Á hinn bóginn eru þau hvort í senn launfyndin og einlæg. Það er líkt og lesandinn liggi á hleri þar sem annarlegur kauði stendur og hrópar mansöngva upp á næstu svalir, hann er klúr og rásandi og meira en lítið hlægilegur, en maður efast ekki um að hann meini hvert einasta orð.
Í skrifum sínum fetar Óttar oft og tíðum einstigi milli einlægni og háðungar, þar sem írónían er illgreinanleg og húmorinn ansi svartur. Þetta kemur hvergi betur fram en í Grillveðri í október, annarri ljóðabók hans, þar sem nóg er af andstyggilegum bröndurum en sorinn og volæðið eru stundum svo yfirþyrmandi að lesandinn veit varla hvort það er yfirhöfuð í lagi að hlæja að þessu. Í einu ljóðanna er tekið niður í fréttatíma:
Á sjöttu hæð háhýsisins, í bás 120-C, fékk
viðskiptafræðingur að nafni Böðvar loks meira
en nóg og skaut þrjá samstarfsfélaga sína til
bana og svo sjálfan sig í hausinn. Eiginkona
Böðvars, hún Klara, fylgdist með manninum
sínum í beinni útsendingu á stöð 2. Aldraðir
foreldrar Böðvars sáu svo son sinn í
endursýningum kvöldfréttanna, rétt áður en
fréttamaðurinn tilkynnti að úti væri fyrirtaks
grillveður og það í október, góðir Íslendingar!
Þar er kominn titill bókarinnar og rauði þráðurinn sem liggur í gegnum ádeiluna: Allt í kringum okkur eru hörmungasögur og taumlaus æsifréttamennska, og það nær eins langt og það nær, en að lokum virðist alltaf skipta meira máli hvort grillveðrið haldist yfir helgina. Lýsingar á hópnauðgunum standa jafnfætis sms-leikjum bílaumboða og á meðan tvíburaturnarnir falla getur ljóðmælandi ekki hætt að hugsa um horið sem hann borðar úr sjálfum sér. Þetta stef er margendurtekið í bókinni og þess á milli eru stuttar stemmningar um nauðgara, rasista, morðingja og barnaníðinga, eins og til að undirstrika það hve heimurinn er óskaplega slæmur, og hvernig sjálfselskan og sinnuleysið í smáborgurunum viðheldur ástandinu. Stíllinn er látlaus og kaldur og umfjöllunarefnið grípandi, en skáldið kemst þó ekki á flug fyrr en á síðustu síðunum.
Undir lok bókarinnar hendir ljóðmælandi sér í fimmta gírinn svo úr verður hrynjandi romsa sem dregur bókina saman, og setur auk þess spurningamerki við það að yrkja svona „athyglisverða og ögrandi ljóðabók sem enginn ætti að láta framhjá sér fara“. Auk þess sé deginum ljósara að hún komi ekki til með að breyta neinu, þar sem „ekkert breytist, hlutir fá eingöngu nýtt form og nýjan búning“. Bókin sjálf er þar með tekin til umræðu, en höfundurinn vill helst sverja hana af sér: hann biður lesandann afsökunar, biður hann um að brenna hana til kaldra kola og svo framvegis, en áréttar að hann beri enga ábyrgð á innihaldinu þegar allt komi til alls: „Það er ekki ég sem skrifa hana heldur heimurinn sem nærir höfuð mitt“. Ljóðið er áhrifalaus þjóðarspegill, skáldið er milliliður sem yrkir eingöngu til að „hössla meira“ og tilgangurinn með lestrinum er þá væntanlega að kaupa bókina og vona að grillveðrið haldist út október, allra helst fram á vor. Bölsýnin er yfirgengileg og henni er fleygt fram af vandlætingu og kæruleysi jöfnum höndum, svo úr verða þær óþægilegustu skemmtivísur sem hægt er að voga sér að mæla með, sama hvað skáldið þykist mótfallið því.
Þrátt fyrir alla kaldhæðni og sinnuleysi í Grillveðrinu er sterk tilfinning fyrir því að þar sé verið að bregðast við ákveðnu ástandi sem ljóðskáldið skynjar í þjóðfélaginu. Í Sirkus er þetta ástand fært í búning heimsendapestar sem ræðst á mannfólkið. Gróft á litið má skipta bókinni í tvo hluta: Annars vegar eru svipmyndir héðan og þaðan af fólki sem dettur annað hvort í sundur eða ærist og vinnur sjálfu sér mein á furðu frumlegan hátt. Hins vegar fylgjum við augum ljóðmælanda þar sem hann stendur inni á skemmtistaðnum Sirkus og horfir í kringum sig. Úti fyrir kroppa mávar í lík hinna sigruðu en inni drekkur pöpullinn og dansar,
[...] sirkusdýrin svitna
og sprikla og klifra upp um alla veggi
garga eins og apar eða villikettir
glöð en hrædd sum detta niður dauð
afgangurinn dansar áfram
líkt og ekkert hafi í skorist
líkt og heilalaus zombí
blóðið spreyjast á borðið.
Þetta er heimsendapartí þar sem allir deyja fyrr eða síðar en í millitíðinni er líf og fjör á barnum. Þeir sem ekki mæta á Sirkus deyja hins vegar hver í sínu horni: Margrét sem étur sig í hel fyrir framan sjónvarpið, smáborgarakellingin með Marimekko-sjalið sem missir kjálkann á gólfið, biskupinn sem stingur úr sér augun, vanar sig og fremur síðan sjálfsmorð til að komast til himna, forsætisráðherrann sem sturlast og fróar sér í beinni sjónvarpsútsendingu, og svo má lengi telja. Hér fer nánast ekkert fyrir íróníunni sem einkennir Grillveður í október, heldur ræðst Óttar á umbúðalausan hátt á ýmiskonar flottræfla, hræsnara og neyslusjúklinga og finnur þeim dauðdaga við hæfi.
Með þessum mjög svo grótesku sjúkdóms- og dauðalýsingum fylgja teikningar sem gefa orðunum lítið eftir. Það er hinsvegar misjafnt hversu vel myndirnar eru nýttar. Í sumum tilfellum bæta þær einhverju við textann eða koma í beinu framhaldi hans, og mynda sterkari heild á opnunni fyrir vikið. En oftar en ekki eru teikningarnar eintóm myndlýsing á því sem kemur fram í ljóðunum, og kunna að gleðja (eða hrella) augað, en gera lítið fyrir heildarsvip bókarinnar. Þetta er er sérstaklega áberandi í ljóðum eins og „Djúpt ofan í Atlantshafi” og „Þegar allt verður eitt og meikar fullkomið sense”, þar sem ljóðlínurnar rúlla viðstöðulaust áfram í beinu hugarflæði, og sýnast betur fallnar til standandi upplestrar en sitjandi íhugunar.
Í Sirkus deyr fólk ekki skyndilega heldur hægt og gjarnan við miklar kvalir. Heimsendirinn sem hinir og þessir hafa spáð mannkyni í gegnum aldirnar hefur loksins skollið á og þótt persónur bókarinnar fari misjafnlega að því að grotna í sundur og geispa golunni þá virðist engum detta í hug að það sé hægt að vinna bug á plágunni. Þeir sem eiga flottasta dótið og þeir sem trúa á besta guðinn eru jafn dauðadæmdir og við hin. Sirkusdýrin sem drepast við fætur ljóðmælanda virðast því hafa hitt naglann á höfuðið: Fyrst endalokin eru óumflýjanleg er allt eins hægt að taka sporið og djöflast djammandi út í eilífðina. Þessu þema er haldið áfram í Gleði og glötun, en á ögn yfirvegaðri hátt.
Gælur og gleði og gamalt er nýtt
Gleði og glötun er ef til vill best heppnaða ljóðabók Óttars, vegna þess hvernig hún er unnin. Eins og Ingi Björn Guðnason snertir á í umfjöllun sinni, hér á Bókmenntavefnum, um bókina þegar hún kom út, þá ríma dagblaðaúrklippurnar sérstaklega vel við tafarleysið sem einkennir kveðskapinn: Hér er rætt um og við samfélag sem við þekkjum akkúrat núna þegar bókin kemur út. Á hinn bóginn sýnir skáldið einnig dæmi úr eldri blöðum, til að mynda auglýsingu fyrir húðkrem sem myndi þykja kjánaleg í dag, og sumir myndu líta á sem dæmi um „einfaldari tíma“ í auglýsingum og fjölmiðlun. En þverstæðan er þessi: Annarsvegar sýnir þetta fram á að það sem við prentum fyrir daginn í dag endist varla út vikuna, hvað þá lengur. Hinsvegar gerum við okkur grein fyrir því að inntakið heldur velli í breyttu formi, að nýjar húðkremsauglýsingar taka við af þeim gömlu og vörurnar halda áfram að seljast. Hér má greina spennuna á milli forms og inntaks Gleði og glötunar. Klippimyndirnar og handskrifuðu ljóðin benda til þess að hérna séu á ferðinni áríðandi skilaboð, eitthvað sem ljóðskáldið kemur frá sér með penna og ljósritunarvél og beint út á götu því hér megi engan tíma missa. Inntak ljóðanna er hinsvegar það að við römbum þegar á barmi glötunar og það þýði ekkert að malda í móinn úr þessu;
[...] láttu öllum illum látum,
ekkert af þessu skiptir neinu máli,
ekkert breytist, skildu það,
sama hvað þú gerir.
Tafarleysið, flaustrið og handavinnan eru þá einungis eitthvað til að skemmta ljóðmælanda og lesendum hans á meðan myrkrið dregur að, tímabundin gleði andspænis eilífri glötun.
Það er þessi flippaði fatalismi sem gerir bókina svo skemmtilega. Fyrri ljóðabækur Óttars innihalda vænan skammt af grótesku, sem er oft á tíðum spaugileg, en hérna er hann beinlínis kominn í stuð. Ljóðskáldið kemur fram í eigin persónu á nokkrum síðum bókarinnar líkt og kynnir eða þulur á milli þátta, og flytur skilaboð á borð við „Óttar says: Why not give peace a chance?“ eða „Ekki gleyma trúnni, krakkar“. Þesskonar upphrópanir eru að sjálfsögðu bullandi írónía í bókrými þar sem stríðshörmungar eru endalausar og óumflýjanlegar, og Hallgrímskirkja sendir uppvakninga sína til að nærast á íbúum Reykjavíkur.
Írónían í myndmálinu stangast svo aftur á við einlægni handskrifaðra ljóðanna, þar sem stjórnmálamaðurinn, mótmælandinn og ljóðskáldið eru öll ávörpuð sérstaklega. Til mótmælandans:
Farðu í kröfugöngu,
mótmæltu mismuni og ójafnrétti,
skapaðu stemmningu,
það skiptir engu máli [...]Og til ljóðskáldsins:
Skrifaðu eitthvað ljótt,
vertu gagnrýninn, vertu harður,
finndu ádeiluna, það skiptir engu máli,
kallaðu Davíð svín,
það skiptir engu máli [...]
En það eru nokkrir metrar eftir í þessu tiltekna ljóðskáldi. Undir lok Gleði og glötunar birtist eftirfarandi ljóð á hvítri opnu, en það er hægur leikur að draga línu frá því yfir í fyrstu skáldsögu Óttars:
Þú talar og hljómar eins og hugsjónamaður,
þú talar hátt og hljómar
eins og uppreisnarmaður.Þú ferð fögrum orðum um framtíðina,
þar sem fólk er frjálst og hamingjusamt,
þú talar um vald og ok
og lausn undan kúgandi öflum.Þú fjallar um óréttlæti í heiminum,
óréttlæti sem nauðsynlegt er
að stöðva umsvifalaust.Þú ert drukkinn og sorglegur hræsnari,
sérðu það ekki?Á bak við orð þín býr draumur
sem þú heldur einungis
að þú viljir ná.Jú, þú kannt að tala um betri heim,
en þú býrð þar
og vilt ekki fórna honum.Þú segir orð sem eru falleg og innblásin,
en orðin verða dauð í lok kvöldsins
og gleymd á morgun
þegar nýr dagur hefst.
Hér ávarpar ljóðmælandi málfagran hræsnara sem gæti í sjálfu sér verið hver sem er, en miðað við áherslur Gleði og glötunar á hræsni og djöfulleika Bush yngri Bandaríkjaforseta og Sjálfstæðisflokksins má ætla að hér sé orðum beint til stjórnmálamanna á hægri vængnum. Það eru þessir „þeir“ sem tala um kapítalismann og heimsvæðinguna og „eru alltaf að segja eitthvað.“ Í skáldsögunni Barnagælur, sem kom út sama ár og Gleði og glötun, er aðalpersóna og sögumaður einn af þessum einstaklingum. En í skrifum Óttars er ekki pláss fyrir neitt hálfkák, og sjálfstæðismaðurinn sem um ræðir er ekki einungis hræsnari sem lifir á sjálfum sér, heldur er hann hrein og klár ófreskja.
Barnagælur fjalla um Pétur B. Ásgeirsson alþingismann og barnaníðing. Pétur fór frá KR yfir í MR og þaðan í lögfræði í HÍ; var inspector scholae, í framboði hjá Vöku og síðan formaður SUS; situr nú á Alþingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn, skrifar greinar um hönnun og lífsstíl, og styrkir fimm börn í þriðja heiminum. Hann er vel vaxinn og myndarlegur („Eins og Brad Pitt áður en hann lék í Troy“), á fallega unnustu úr góðri fjölskyldu og býr í glæsilegri íbúð í Þingholtunum. Svo hljóðar ferilskrá Péturs B. í hnotskurn, en hann er mjög stoltur af því plaggi, les það stundum sér til yndis og afslöppunar og telur það „næstum fullkomið“. Sjálfur útskýrir hann aldrei hvers vegna það geti ekki alveg talist fullkomið, líklegast er þó að upp á vanti sjálfa lögfræðigráðuna, en í bókinni er ýjað að því að Pétur hafi aldrei lokið námi.
En eins og áður segir er Pétur barnaníðingur. Hann er líka rasisti, nauðgari, morðingi og mannæta, og er þess utan ekkert sérstaklega viðfelldinn náungi. Kærastan og vinirnir þjóna þeim tilgangi einum að koma Pétri áfram í flokknum, og daglegar athafnir hans miða gagngert að því að koma honum á framfæri, að tryggja honum fleiri atkvæði. Hann passar sig á því að segja það sem viðmælendur hans vilja heyra og reynir hvað hann getur að vingast við fólk sem honum býður bókstaflega við. Þrátt fyrir þetta er ekki hægt að sjá að Pétur hyggist nýta vald sitt og stöðu sína til neins: honum líkar ágætlega að vera frægur alþingismaður, en mætir varla í vinnuna nema til þess að sleikja upp sér æðri menn og fikra sig upp valdastigann. Þannig má segja að í Barnagælum dragi Óttar upp eins kaldranalega mynd af stjórnmálamanni og frekast er unnt, manni sem fyrirlítur fólkið sem hann á að þjóna og sækist eftir valdi valdsins vegna.
Þar komum við að kjarna málsins, vegna þess að til grunns Barnagæla liggur hugleiðing um vald. Einu pólitísku álitamálin sem koma til tals í bókinni eru fjölmiðlafrumvarpið og hryðjuverkastríðið, en Pétur virðist ekki hafa neina skoðun á þeim. Það sem skiptir hinsvegar máli er að vilji flokksins nái fram að ganga í þeim sem öðrum málum. Að sama skapi kemur hann fram vilja sínum við kornungar stelpur, réttlætir það fyrir sjálfum sér og lesendum með stöðluðum afsökunum barnaníðinga (að þær vilji það sjálfar, að þær dragi hann jafnvel á tálar) og greinir á sama tíma frá því hvernig hann skilur þær eftir grátandi og lurkum lamdar. Meiningin er ekki sú að (spilltir og hrokafullir) stjórnmálamenn séu jafnir barnaníðingum, en Barnagælur halda því fram að samnefnari þeirra sé valdníðslan. Báðir koma sér í valdastöðu með sykri og loforðum og bregðast síðan trausti þeirra sem síst skyldi til að svala eigin fýsnum og duttlungum.
Bókin gengur heldur langt í lýsingum á nauðgunum, morði og mannáti, en kemst þó varla með tærnar þar sem fyrirmyndin, American Psycho eftir Bret Easton Ellis, hefur hælana. Patrick Bateman, aðalpersóna og sögumaður Ellis, er hinn erkitýpíski uppi á Wall Street níunda áratugarins, nokkurskonar óskabarn þjóðarinnar sem getur gert hvað sem honum sýnist án þess að taka ábyrgð á gjörðum sínum. Óttar finnur þessari firringu og geðbilun stað á Alþingi Íslands árið 2004, sem segir meira en margt annað um viðhorf hans til íslensks þjóðfélags í byrjun 21. aldar. Það vekur athygli að í lok Barnagæla, þar sem Óttar skráir niður „aðföng“ sín við gerð bókarinnar (t.d. „Tölvupósturinn sem Florian sendir Pétri í 4. kafla byggist á heimasíðu sem yfirlýstur barnaperri heldur úti.“) er hvergi minnst á American Psycho, en líkindin með bókunum tveimur eru svo augljós að höfundurinn hefur ef til vill ekki séð ástæðu til að benda frekar á þau.
Annað og sterkara dæmi um umskrifun Óttars á texta annars höfundar er að finna í Grillveðri í október, þar sem ljóð Dags Sigurðssonar „Mynd eftir barn” er fært upp í lagfærðri greinamerkja- og stafsetningu og endurskírt „Dagur”. Í bókinni má einnig finna vísanir í Tímann og vatnið og The Waste Land eftir T.S. Eliot, svo eitthvað sé nefnt, en í þessu tilfelli tekur Óttar ljóðið í heilu lagi og eignar sér það. Rétt eins og með Barnagælur og American Psycho þá dettur engum í hug að Óttar sé að stela einu eða neinu, þ.e. að hann útiloki tilvist fyrra verksins og setji sína útgáfu fram sem hina einu réttu. Stafsetningu ljóðsins er hagrætt vegna þess að annars myndi það ekki falla að svip bókarinnar, en það sýnir vissan ásetning af hálfu ljóðskáldsins: Ljóðið sem átti áður heima þarna á nú heima hér. Og án þess að fjölyrða um það hvernig skáldin drepa feður sína þá er ljóst að hér er Dagur tekinn til sem áhrifavaldur. Ennfremur er texta ljóðsins hnikað til svo lítillega að það dylst engum sem til þekkir hvaðan hann kemur, en nógu mikið þó til að villa um fyrir þeim sem eru verr lesnir, og þannig á haugbrot Óttars ákveðinn markhóp. (Það er til að mynda ekki hlaupið að því að finna upprunalega ljóðið með því að slá ljóðlínum Óttars upp á netinu.) Loks má ekki gleyma því að „Mynd eftir barn” á að vera skrifuð lýsing á mynd eftir barn og er því sjálft endurtekning, að minnsta kosti að nafninu til. Dagur breytir blýantsstrikum og vaxkrít í orð eins og „köttur“, „sól“ og „hús“ en Óttar breytir „heingir“ í „hengir“. Hvað túlkun af þessu tagi merkir er spurning sem bæði ljóðskáldin setja fram, hvort á sinn hátt, en svarið liggur utan þessarar umfjöllunar.
Það verður þó að taka fram að Óttar, sem hefur farið frá Eliot yfir í Stein Steinarr og síðan í Dag, lýkur rúntinum á því að endurtaka sitt eigið ljóð af 9. síðu á 29. síðu og merkja það með „(e)“, sem lesendur þekkja úr sjónvarpsdagskrám þjóðarinnar. Loks endurtekur hann ljóðið á 15. síðu Grillveðursins í verslunarkafla Barnagæla, þar sem Pétur B. kaupir ljóðabók Óttars og lofar skáldið í hástert fyrir að gera grín að „grjónum, sandnegrum, nýbúum og öðrum þjóðfélagsmeinum“. Höfundurinn kynnir sig á vissan hátt fyrir persónunni sem hann hefur skapað og gerir um leið gys að þeim sem kunna ekki að meta kaldhæðnina í skrifum hans. Og svo er þetta auðvitað svellköld auglýsing á ljóðabókinni.
Abraham og allir hinir
Kosningar er örstutt saga sem gerist skömmu fyrir alþingiskosningarnar 2007, en bókin kom út undir dulnefninu T. Thorvaldsen. Tveir alþingismenn, Hörður Grímsson (sjálfstæðismaður) og Agnes Sverrisdóttir (framsóknarkona) eiga fylleríismök inni á klósetti á lokahófi alþingismanna í Súlnasal Hótel Sögu. Bjarni Ólafsson, alþingismaður frjálslyndra, verður vitni að ósköpunum og reynir að kúga ríkisstjórnarsamstarf úr þeim Herði og Agnesi í kjölfarið. Í ofanálag greinist Ósk, eiginkona Harðar, með klamydíu, sem rekja má til embættisferðar alþingismannsins til Brussel. Inn í þetta blandast svo blaðakonan Ásdís (sem sjálf er í tygjum við giftan prest), þegar hún fer að grennslast fyrir um kaup embættismanna á kynlífsþjónustu í utanlandsferðum á vegum ríkisins.
Kosningar er fyrsta bókin í bókaflokknum Íslendingar, en önnur bókin, París, kom út í byrjun sumars 2007. Á baksíðu Kosninga kemur fram að með bókaflokknum „opnist gáttin að Íslendingum, hinni nýríku þjóð í norðri.“ Stikkprufan sem Kosningar taka úr íslensku þjóðinni samastendur af óskammfeilnum ríkisstarfsmönnum, ærulausum æsifréttamönnum, spilltum presti og róna sem betlar súkkulaðistykki. Bókinni svipar nokkuð til Barnagæla, þar sem stjórnmálamennirnir eru ennþá spilltir (og meðlimir ríkisstjórnarflokkanna komast ennþá upp með líkamsárásir), en nú má aukinheldur hvorki treysta fréttafólki né kirkjunnar mönnum. Enn dregur Óttar upp mjög napra mynd af þessum burðarstólpum samfélagsins og honum ferst verkið vel úr hendi.
Það er eitthvað svipað uppi á teningnum í teiknimyndasögunni Jón Ásgeir og afmælisveislan. Þar kemur fram fjöldinn allur af þjóðþekktum og heimsfrægum einstaklingum, en aðalskotmörkin að þessu sinni eru Jón Ásgeir Jóhannesson og Davíð Oddsson. Í Barnagælum er sá síðarnefndi (sem er þó aldrei nefndur á nafn) fylltur duglega og sendur baksviðs á Óðal með fatafellu, og því næst kúgaður til að stöðva morðrannsókn. Í Afmælisveislunni klónar Jón Ásgeir forsætisráðherrann fyrrverandi og lætur tvífarann syngja afmælissönginn fyrir sig á sviði Perlunnar, íklæddan galakjól og eyrnalokkum. Þetta gerir Jón með aðstoð Kára Stefánssonar, en hann er brjálaður vísindamaður og býr í geimskipi sem svífur yfir Vatnsmýrinni. Sjálfur á Jón heima með pabba sínum í kastala sem þeir reistu við höfnina (í staðinn fyrir tónleikahúsið margblessaða), en þar eru litlir gæludýragrísir á vappi og peningasekkir uppvið alla veggi (í erlendri mynt, að sjálfsögðu).
Óttar heldur áfram að beina spjótum sínum að toppum samfélagsins, en hér eru bæði saga og umhverfi fremur fantastísk og árásirnar ekki eins harkalegar. Afmælisveislan er fyrst og fremst fyndin og glannaleg myndasaga sem gerir grín að fólki sem er þegar í sviðsljósinu, en í bókinni notast Óttar við prentaðar myndir af andlitum viðkomandi, líkt og þær hafi verið klipptar úr dagblaði.
Ævisaga Hannesar Hólmsteins Gissurarsonarer í svipuðum dúr, en nú hafa komið út tvö bindi hennar og það þriðja verður væntanlega gefið úr fyrir jólin 2008. Hannes: Nóttin er blá, mamma og Hólmsteinn: Holaðu mig dropi, holaðu mig segja ósköp lítið um ævi Hannesar, enda er það ekki tilgangurinn. Meiningin er sú að hver sem er geti skrifað ævisögu hvers sem er, en þegar Hannes: Nóttin er blá, mamma kom út hafði Hannes nýlokið ævisöguþríleik sínum um Halldór Kiljan Laxness, við misjafnar undirtektir almennings og fjölskyldu Halldórs. Ævisaga Óttars er vandlega samsett hrákasmíð í ljósriti sem sýnir að þótt þú skrifir ævisögu þjóðþekkts manns, þá er ekki þar með sagt að þú kunnir að skrifa, hafir lært að fara með heimildir eða vitir yfir höfuð nokkuð um viðkomandi einstakling. Þá vaknar sú spurning hvers vegna Hannes varð fyrir valinu, en því geta lesendur ævisögunnar velt fyrir sér í rólegheitum.
Heimatilbúningurinn sem ævisaga Hannesar veltir sér beinlínis upp úr hefur áður verið áberandi í Jóni Ásgeiri og afmælisveislunni og Gleði og glötun. Með honum er vakin athygli á því að bækurnar séu gerðar af nokkrum vanefnum, en um leið er bent á að hver útgefin ljóðabók eða ævisaga þarf ekki að kosta höfundinn hönd og fót, þ.e. að koma hugverkum sínum út á meðal almennings. Hnífur Abrahams, nýjasta skáldsaga Óttars, er hinsvegar mjög laglegur gripur: Kápan, sem sýnir blóðug handrit og gylltan fórnarrýting, er faglega hönnuð og kortið í byrjun bókarinnar er snyrtilega uppsett, en Óttar fetar um leið nýjar slóðir í skrifum sínum.
Hníf Abrahams hefur verið lýst sem sagnfræði-krimma í ætt við DaVinci lykilinn og Óttari sem hinum íslenska Dan Brown. Líkingin er ekki úr lausu lofti gripin, en Óttar hefur sjálfur lýst Brown sem áhrifavaldi við gerð bókarinnar. Ef við leiðum hugann aftur að Barnagælum og „Degi” / „Mynd eftir barn” þá má sjá að hér er eitthvað svipað á ferðinni. James Donnelly er frægur prófessor og rithöfundur sem lendir í háskalegu ævintýri þegar vinur hans og kollegi fellur frá við grunsamlegar aðstæður. Hann lendir í útistöðum við laganna verði og þarf að finna vísbendingar og leysa þrautir til að komast að Sannleikanum, og verða ástfanginn af snjallri konu með falleg augu. Atburðarásin er hröð, kaflarnir stuttir og inn á milli eltingaleikja eru sögupersónur (og lesendur) leiddir í allan sannleika um Abraham, Ísak og Ísmael; tilurð gyðingdóms, íslam og kristni. Grunnmynd frásagnarinnar svipar því mjög til þess sem lesendur þekkja úr DaVinci lyklinum, og persónurnar gera það reyndar líka: Maður stendur sig að því að sjá þau Robert Langdon, Sophie Neveu og Bezu Fache í sporum James Donnelly, Fatímu Parker og John Russell, og Óttar sjálfan í hlutverki Adam Swift, að fylgja persónum sínum um götur New York-borgar.
Barnagælur minna á svipaðan hátt á American Psycho, eins og áður kom fram. Munurinn á Barnagælum og Hnífi Abrahams er þó sá að í þeirri fyrrnefndu er bandarísk fyrirmynd heimfærð upp á íslenskan veruleika, en í þeirri síðari kemur sá veruleiki hvergi við sögu. Sagan gerist nær einvörðungu á Manhattan-eyju í New York, og að undanskildum hálf-Íslendingnum Adam Swift er ekkert sem bendir til þess að bókin sé skrifuð af íslenskum rithöfundi. Allt styrkir þetta stöðu bókarinnar sem „alþjóðlega spennusögu” og gæti orðið henni til líklegri vinsælda utan Íslands, þar sem íslensk menning festist ekki í tönnum erlendra reifaralesenda.
Það getur að sjálfsögðu verið mjög skemmtilegt að sjá rithöfund vitna beint í verk annars höfundar, skora hann þannig á hólm og leitast við að laga betri súpu úr sömu efnum. Á hinn bóginn getur það virkað ankannalega ef síðari höfundurinn reynir að gera grín að þeim fyrri og skopstæla stef og þemu sem hann notar sjálfur án þess að blikna. Og það verður að segjast að miðað við ritferil Óttars fram til þessa er erfitt að sjá hvort sú er raunin, eða hvort áhrifin frá Brown og bandaríska umhverfið og persónurnar verða til þess að textinn hljómar stundum eins og íslensk þýðing úr ensku – auk þess sem sagan leggur furðulega mikla áherslu á dularfull, lymskuleg, leyndardómsfull, andstyggileg, vingjarnleg eða breið bros hinna og þessa.
Hnífur Abrahams hlýtur þó að standa og falla með sögufléttunni og þeirri söguskoðun sem lagt er út frá, en þar er Óttar með sitt á hreinu. Allt hafaríið sem James Donnelly lendir í snýst um söguna af Abraham og sonum hans Ísak og Ísmael. Samkvæmt Gamla testamentinu átti Abraham að fórna Ísak, en honum var þyrmt og áttu niðjar hans síðan að mynda Guðs útvöldu þjóð, gyðingana. Samkvæmt Kóraninum er fórnarlambið hinsvegar Ísmael, og islam hin útvalda þjóð. Hluturinn sem Donnelly og félagar leita að er handrit sem skrifað er af Abraham sjálfum og gæti varpað ljósi á þetta ósamræmi, jafnvel breytt heiminum til hins betra. Hugmyndin er sú að með því að leita aftur til Abrahams, fyrirmyndar hins trúaða manns og undanfara beggja greina eingyðistrúarbragðanna, væri hægt að stíga skref í átt að sáttum milli stríðandi fylkinga. Í bókinni er auk þess bent á hliðstæðu sonarfórnarinnar við fórnina sem þjóðir krefjast af hermönnum sínum, og þar er sett spurningarmerki við hugmyndina um stríðsrekstur í nafni þjóðernis. Háttsettir ráðamenn innan Bandaríkjastjórnar hafa hug á að finna téð handrit og eyða því, enda þykir sáttagrundvöllur á milli kristinna og múslima ekki samræmast utanríkisstefnu þjóðarinnar, hvað þá véfengingar um skyldur hermannsins.
Þannig má segja að andúð á hernaðarhyggju Bandaríkjanna og umskrifun á eldra verki séu einu greinilegu höfundareinkennin sem sjá má á milli Hnífs Abrahams og eldri verka Óttars, og það verður að teljast honum til hróss að hann hræðist það ekki að róa á ný mið. Ótti þess sem skrifar um rithöfundinn felst þá í því að reyna að festa viðkomandi niður með tjaldhælum skilgreininga, sem úreldast með næstu bók. Hið gáfulega í stöðunni er þá vitanlega að leyfa skáldinu að skilgreina sig sjálft, en forðast línur af bókarkápum eins og „ungur og metnaðarfullur rithöfundur” eða „menntaður heimspekingur,” jafnvel þó hvortveggja standi heima. En árið 2006 sendi Óttar frá sér ljóðabókina AÁBCDÐEÉFGHIÍJKLMNOÓPQRSTUÚVWXYÝZÞÆÖ, þar sem hann fer í gegnum stafrófið og yrkir ljóð þar sem hvert orð byrjar á sama stafnum, frá a til ö. Bókin byrjar á þremur ljóðum þar sem hvert orð byrjar á A, þá koma tvö þar sem hvert orð byrjar á Á og svo framvegis. Þegar röðin er komin að Ó-inu fleygir ljóðmælandinn fram þessari mannlýsingu, sem er dæmigerð fyrir bókina í heild:
Óaðgengilega, óbreytanlega, ófrumlega, ófyndna, ógnarsmáa, óhagganlega, óhóflega, óhrausta, ójá – ókarlmannlega, ókáta, ómannblendna – ómenni. Ópersónulegi, órakaði, óraunsæi óreglumaður. Óreiðukenndi óróaseggur, ósamkvæma óskabarn. Óskaplega óskiljanlegur, ósköp ósmekklegur, óstjórnlega óstyrkur. Óttar, óttinn ótæpilegur, óumflýjanlegur, óþarflega óþægilegur.
Stuðlunin er truflandi, setningarnar hökta og inntakið smellur ekki saman fyrr en í síðustu línu. Líkt og önnur verk Óttars er bókin á stundum óþægileg, en þó aldrei óþarflega ósmekkleg. Óróinn er gjarnan rígbundinn nútímanum, sem er óumflýjanlega ógnvekjandi; textinn sléttur og felldur þótt örli á óreiðu; ósóminn aldrei langt undan en Óttar þó fráleitt ófyndinn og aldrei ólæsilegur.
© Björn Unnar Valsson, desember 2007.
Greinar
Um einstök verk
Grillveður í október
Hjalti Snær Ægisson „Um ljóðabækur ungskálda frá árinu 2004 : nokkrar glæfralegar athugasemdir“
Són 2005, 3. tbl., s. 141-159.
Lygarinn
Helga Birgisdóttir: „Í fornsögunum táknar rigningin nýtt upphaf“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Sólkross
Björn Unnar Valsson: „Hálf sólarsagan“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Nozhot na Avram
Lesa meiraBlóð hraustra manna
Lesa meiraLe sang d'Odin
Lesa meiraUna
Lesa meiraLygarinn
Lesa meiraDas Sonnenkreuz
Lesa meiraLa cruz solar
Lesa meiraÍslenskir kapítalistar 1918-1998
Lesa meira