Beint í efni

Dálítill leiðarvísir um heldri manna eldunaraðferð og gestakomur í Sauðlauksdal: eður hvernig skal sína þjóð upp reisa úr öskustó

Dálítill leiðarvísir um heldri manna eldunaraðferð og gestakomur í Sauðlauksdal: eður hvernig skal sína þjóð upp reisa úr öskustó
Höfundur
Sölvi Björn Sigurðsson
Útgefandi
Sögur
Staður
Reykjavík
Ár
2011
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina:

Aldurhniginn og blindur snýr Björn Halldórsson aftur á heimaslóðir í Sauðlauksdal eftir margra ára fjarveru. með í för er lítilræði af kartöfluútsæði sem Friðrik konungur hefur falið honum að rækta svo landar hans drepist ekki úr sulti. Það er dimmt yfir þjóðinni: Mannfellir og kuldatíð, öskufok og bjargarleysi. Mitt í öllum hörmungunum ríkir samt von hjá gömlum bónda um að koma Íslendingum í hóp vel haldinna þjóða.

Úr Gestakomum í Sauðlauksdal:

Báturinn var drekkhlaðinn margskyns varningi og fór mest fyrir tunnum þeim sem Scheving notar til ölgerðar: hrútasekkur með ullarlagði hvar maltvara baðast heitvatni og kemst engin gráða burt úr þeim mikla tréhólk. Úr fati þessu bunar svo ölið í annað minna til að kólna og tók það líka nokkurt pláss í okkar litla tvíæringi, samt með margvíslegum tækjum úr tilhoggnum pottaleifum er ölgerðarmeistarinn möndlar fyrir iðn sína.

Sat hann með þetta á herðum sér lengi vel og kunni sér best aðframkominn afþ unga sinna slóttugu tóla. Það var ekki fyrr en María tók eftir að hendur hans voru farnar að hvítna og holdið meira og minna orðið vitundarlaust af blóðskorti að kerjunum var fyrirkomið á milli okkar.

Við hlið þessa stórfyrirtækis var farangur okkar Maríu heldur pasturslítill. ég hafði sjálfan mig og nokkra nýþvegna leppa, María hélt um eldunarbókina og fáeinar kastarollur sem sloppið höfðu undan brasi Schevings. Úti á firðinum maraði huggurta ein stór með miklum seglum. Skarfar stungu saman nefjum á innskerjum og mikill lundi var á flestum eyjum. Það fyrsta sem mér datt í hug í garginu var að einhver þyrfti að éta þessa fugla. Svona kúnstug fæða er best grafin sem hrámeti eða reykt og vel soðin með þjöppuðu jarðepli og rifsberjaroða. Ég held ég sé hreinlega farinn að fitna svolítið, Eggert minn, svo vel hafa hjúin spillt í mér matgæðingnum. Kvak í fugli vekur mér losta eftir innbakaðri villibringu og heitreyktri lifur; jafnvel skvamp í fiski verður til þess ég hugsa stundum um caviar, sem er blóðrauð hrognakássa er María saltar niður í reyktunnu. Verð ég og allur innanmeyr við útundan mér gutl í vínbelg sem Scheving hefur lagt í sína sálu og óráð.

Það er svosem ekki fallega gert af mér að lasta hans fyrirferð og tækjakost um borð í bátnum, jafn ægilega og hann leggur sig fram um að geðjast mér með vínföngunum. Klaufska hans og almennt bardús hefur þó orðið til þess að ekkert hjú er mér jafn framarlega í huga er viðkemur vandræðagangi hjartans. Virðist sama hvar niður er borið, jafnt á rúmsjó og fastlendi, í samneyti við annað fólk leitar hans fumeðli jafnan fyrst fram. Máski er það ekki allt til ónýtis enda væri ekki góður heimur þar sem allir menn væru eins geðjaðir. Með fjölbreytninni auðgast verk okkar og eykst allt þeirra gildi hafi menn lund til að sinna því sem fyrir þá er lagt. Mitt hlutskipti hefur verið að segja fólki af Guðs orði og reyna að veita því svolitla huggun, og ég hef fengið að setja niður kartöflu mér til yndisauka, séð hana vaxa inn í nýjan heim.

(26-8)

Fleira eftir sama höfund

Síðustu dagar móður minnar

Lesa meira

Vökunætur glatunshundsins

Lesa meira

Radíó Selfoss

Lesa meira

Gleðileikurinn djöfullegi

Lesa meira

Fljótandi heimur

Lesa meira

Blóðberg

Lesa meira

Ljóð ungra skálda

Lesa meira

100 þýdd kvæði og fáein frumort

Lesa meira

Ást og frelsi

Lesa meira