Beint í efni

Frú Bovary

Frú Bovary
Höfundur
Pétur Gunnarsson
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
1995
Flokkur
Íslenskar þýðingar

Gustave Flaubert: Madame Bovary - Moeurs de province.

Úr Frú Bovary:

Á stéttinni fyrir utan var pottormur að leik.
 - Sæktu fyrir mig vagn!
 Barnið þaut eins og píla eftir Fjórvindagötu; í nokkrar mínútur stóðu þau eins og ögn vandræðaleg.
 - Ó, Léon!... Í alvöru... ég veit ekki... er rétt!... sagði hún tilgerðarlega. Og bætti við alvarleg í bragði:
 - Þér hljótið að sjá að þetta er í hæsta máta óviðeigandi.
 - Hvernig þá? svaraði skrifstofumaðurinn. Þetta tíðkast í París!
 Við þetta orð lét hún til leiðast eins og andspænis óhagganlegum rökum.
 En vagninn lét á sér standa. Léon var á nálum um að hún færi aftur inn í kirkjuna. Loks birtist vagninn.
 - Farið að minnsta kosti út um norðurdyrnar! hrópaði kirkjuvörðurinn af þröskuldinum. Þar má sjá Upprisuna, Dómsdag, Paradís, Davíð konung og Hina útskúfuðu í Víti.
 - Hvert þóknast herranum að fara? spurði kúskurinn.
 - Gildir einu! sagði Léon og ýtti Emmu á undan sér inn í vagninn.
 Og ferlíkið hélt af stað.
 Förinni var heitið niður Stórbrúargötu, yfir Listatorgið, Napoleónskajann, Nýbrú og þar gerði ekillinn stuttan stans fyrir framan styttuna af Pierre Corneille.
 - Áfram! heyrðist rödd kalla að innan.
 Vagninn hélt af stað og þegar hann var kominn að Fayette-gatnamótunum fylgdi hann brekkunni og kom á harðastökki inn á járnbrautastöðina.
 - Nei, lengra! Heyrðist sama röddin hrópa.
 Vagninn hélt áfram í gegnum járnhliðið, brátt var hann kominn út á þjóðveginn og fór á hægu brokki undir trjágöngunum. Kúskurinn þurrkaði sér um ennið, tróð leðurhattinum á milli fótanna og sveigði vagninn út á hliðargöturnar í áttina að grasigrónum árbökkum. Hann hélt meðfram ánni, eftir steinlagðri dráttarbrautinni og fór lengi vel í áttina að Oyssel á móts við eyjarnar.
 En skyndilega tók hann strikið yfir Fjórfen, Sotteville, Stórustétt, Elbeufgötu og staðnæmdist í þriðja sinn framan við Jurtagarðinn.
 - Já, svona áfram með yður! hrópaði röddin hálfu æstari en fyrr.
 Og ekillinn beið ekki boðanna en þaut af stað í gegnum Saint-Sever frá Peningabryggju yfir á Malarabryggju, aftur yfir brúna og gegn um Stríðstorgið fram hjá spítalagörðunum þar sem dökkklædd gamalmenni spásséruðu í sólinni meðfram múrvegg sem var alsettur vafningsviði. Förinni var heitið upp Rauðfinkugötu, eftir Cauchoisestíg og síðan eftir endilöngu Mont-Riboudet allt að Devillehæð.
 Þar sneri vagninn við og nú lét hann kylfu ráða kasti. Brá fyrir á Saint-Pol, hjá Lescure, við Garganhæð, hjá Rauðafeni og Fjörskógartorgi; Klaufagötu, Hnífaparastræti, framan við Saint-Romain, Saint-Vivien, Saint-Maclou, Saint-Nicaise, - hjá Tollhúsinu, - Gamlaturni, Þrípípunni og Minnismerkjagarðinum. Öðru hverju skotraði ekillinn örvæntingaraugum yfir á kaffihúsin. Honum var hulin ráðgáta hverslags æðiber var í rassinum á þessum farþegum að vilja hvergi nema staðar. Öðru hverju gerði hann tilraun og samstundis upphófust sömu reiðiöskrin að innan. Þá keyrði hann rennsveitt hrossin úr sporunum án þess að skeyta um hindranir eða utaníkeyrslur, niðurbrotinn og gráti nær af þorsta, þreytu og harmi.
 Við furðu lostnum borgurum blasti sjón sem er sjaldgæf úti á landi: niður við höfnina, innan um vagna og tunnur, á götum úti og gatnamótum brá fyrir vagni með tjöldin fyrir sem virtist í senn lokaðri en gröf og vaggaði eins og skip.
 Um miðjan dag lengst úti í sveit um það bil sem sólin dundi af hvað mestu afli á gömlu silfurlömpunum, sást nakin hönd koma undan litlu gulu vaxdúksgluggatjöldunum og fleygði bréftætlum sem dreifðust fyrir vindinum og flögruðu eins og hvít fiðrildi yfir smárabreiðu í fullum blóma.
 En um sexleytið nam vagninn staðar í lítilli götu í Góðgrannahverfi og út sté kvenmaður sem hraðaði sér á brott með slæðu fyrir andliti og leit hvorki til hægri né vinstri.

(s. 186-187)

Fleira eftir sama höfund

Gunnlaðar saga

Lesa meira

Undir regnboga

Lesa meira

Grænjaxlar

Lesa meira

Hlutirnir

Lesa meira

Splunkunýr dagur

Lesa meira

Kartöflugarður um vetur : ritdómur um Kartöfluprinsessuna

Lesa meira

Efstu dagar

Lesa meira

Efstu dagar

Lesa meira

Dýrðin á ásýnd hlutanna

Lesa meira