Um bókina:
Hvað kostar óflekkað mannorð?
Það er ekki að ástæðulausu sem Starkarður Leví veltir þessari spurningu fyrir sér, enda hefur hann farið huldu höfði frá bankahruni, úthrópaður og eftirlýstur fyrir sinn hlut í íslenska efnahagsundrinu. Niðurstaðan er sú að eina leiðin fyrir hann til að öðlast aftur þátttökurétt í samfélaginu sé að verða sér úti um nýtt mannorð - hvað sem það kostar.
Úr Mannorði:
Starkaður virti fyrir sér gestina á Súfistanum í Iðu og sá æ betur að rithöfundurinn var þarna á eigin tilverusviði. Hann þurfti aldrei að panta þegar hann gekk að afgreiðsluborðinu. Fram að klukkan þrjú spurðu stúlkurnar þegar þær sáu hann: Swiss Mokka? Hann þurfti aðeins að kinka kolli. Eftir þrjú var það sama uppi á teningnum, nema þá var spurningin: Piparmyntute? Starkaður hafði reiknað út að hann var með fjórðungsafslátt á öllu sem hann keypti, kannski vegna þess hve mjög hann dró að af gestum sem komu að heilsa upp á hann. Stúlkurnar kölluðu upp pantanirnar þegar þær voru tilbúnar og fólk sótti þær sjálft. Nema pantanir höfundarins, stúlkurnar báru honum þær alltaf á borðið. Höfundurinn hafði sjaldnast rænu á að þakka fyrir sig, sem virtist ekkert trufla þær. Afgreiddu þær pöntun vitlaust komu þær gjarna með köku eða hiett Chiabatta til hans frekar en að henda matnum.
Allt em hann gerði var að lesa, skrifa, hlýða á fólkið sem settist hjá honum, horfa út úr heiminum, og vera bara. Gat verið auðveldara, og ódýrara, að lifa góðu lífi?
Höfundurinn var að tefla við son sinn og hann leyfði honum alltaf að sigra. Engu var líkara en hann hefði ánægju af því að láta gera út af við sig. Það rann upp fyrir Starkaði að þetta var keimlíkt því sem hann gerði þegar hann rökræddi við fólk. Líkt og með skákirnar lét hann menn beita sér og dró með úthugsuðum hætti fram aðferð viðmælandans. Hann lagði upp sigra fólksins í kringum sig og veitti lymskuleg merkingarverðlaun. Allir sem kvöddu hann gerðu það með hlýlegu brosi. Eins og lífið hefði sérútvalinn tilgang fyrir þá. Gæti dauðinn þrátt fyrir allt veitt fólki ánægju, ef hann væri rétt matreiddur? Þegar Starkaður velti þessu fyrir sér fannst honum hann vera einn af gestunum við borð höfundarins. Meðan feðgarnir tefldu rakti sonurinn hugmynd að fantasíukenndri sögu sem hann hugðist skrifa og sagði að því loknu:
- Pabbi, hefur þú fengið þessa hugmynd?
- Nei, aldrei.
- Skrýtið.
- Já.
- Og svo kallarðu þig rithöfund.
- Það gengur náttúrulega ekki.
- Nei.
- Pabbi.
- Já.
- Hugsaðu þér ef ég skrifaði sögu og notaði allar hugmyndir sem rithöfundar gætu fengið í bók.
- Já.
- Þá væri bara búið að skrifa allar bækur í veröldinni.
- Já, væri það ekki fínt bara?
Starkaður hafði komist að því að hann héti Almar Logi Almarsson, hefði skrifað nokkrar skáldsögur og greinasöfn og fengi annað slagið ritlaun úr launasjóði rithöfunda. Á netinu sagði að hann hefði fengið bækur þýddar á sænsku, þýsku og færeysku. Hann væri alltaf á jaðri bókmenntaheimsins en flyti þó með vegna nokkurra áhugasamra lesenda.
(38-40)