Úr Næturvörður kyrrðarinnar:
Hvað ertu að skrifa?
Hún leit upp og svaraði:
Orð okkar eru spor í sólhvítum sandi.
Þú fylgdist með henni skrifa þar til hönd hennar byrjaði smám saman að skjálfa. Varst ekki viss um að þetta væri rétt athugað hjá þér fyrst í stað en svo leyndi það sér ekki lengur. Hún var svo yfirkomin af tilfinningum að hún gat ekki stýrt pennanum. Það komu bara lítt samhangandi strik, líkust hvössum galdrarúnum, þar til hún gafst upp og lagði frá sér skriffærið. Lokaði bókinni. Rétti hana skjálfhent í átt til þín með blóðhlaupin augun. Þú ætlaðir að ýta henni kurteislega frá þér en þá bað hún svo umkomulaus að það minnti þig á Söru í helli Sakaríasar:
Gerðu það fyrir mig.
Þú tókst við bókinni eins og tifandi hjarta. Varst hálfundrandi að verða ekki rauður á fingurgómunum. Straukst mylsnu af blómum skreyttri kápunni áður en þú opnaðir varlega. Last þessi fáu orð á saurblaðinu:
Borgin bak við orðin.
Hvaðan kannaðistu við þau? Þú einbeittir þér að því að rifja það upp en varst engu nær að því búnu. Leist hugsunarlaust út um gluggann. Á Viktoríu. Og skyndilega hafðirðu logandi eldskíði í maganum og fannst gæsahúðina breiðast út um líkamann. Hafði Viktoría ekki talað um að Hún, stúlkan í draumum hennar hefði alltaf haft með sér dagbók eftir að Viktoría gaf henni draumbók á sjö ára afmæli hennar?
Dagbók sem hún skráir allt mögulegt í, heyrðirðu rödd Viktoríu segja í huga þínum, og á kvöldin þegar móðir hennar hefur kysst hana góða nótt les hún dagbókina. Segir að dagurinn lumi alltaf á einhverju óvæntu inn á milli línanna sem hún sjái ekki fyrr en í ljósaskiptunum.
Talar um borgina bak við orðin sem hún trúir að hún muni einhvern tíma finna og búa í.
Þú starðir á Viktoríu þar til þú sást augu Súsönnu falla inn í augu hennar, svip Súsönnu falla inn í svip hennar. Þessi tvö andlit voru sem eitt, þótt annað teldist frítt en hitt ekki. Þú varst farinn að svitna. Leist aftur á saurblaðið:
Borgin bak við orðin, stóð þar óvefengjanlega, ónotalega vel skrifað. Skildir ekki hvers vegna það skelfdi þig. Fannst að það ætti að gleðja þig meira en nokkuð annað. Á tungunni hvílir lykill að stórum harmi, hafði Viktoría sagt. Hvað átti hún við? Þú leist snöggvast á Súsönnu og manst hverju þú hést Viktoríu.
Þú ert dóttir ...
Þú þagnaðir áður en þú hafðir sagt nafn verndara þíns. Vissir að þú gætir ekki sagt það en skildir þó ekki hvers vegna. Hún horfði spyrjandi á þig.
(s. 90-92)