Bókin var endurútgefin í kilju hjá Græna húsinu 2006.
Úr Nautnastuldi:
(Sjóvá)
Snúa sér upp í horn í morgunmyrkrinu. Sofa meira. Sofa. Reka inn í annan draum. Láta sig dreyma. Dreyma.
En einhvers staðar handan við órana vokir vitund um kvaðir nýs dags. Rétt eins og padda nartaði í samvisku hans. Ætlarðu að sofa á þig lús, drengur! Hann reisti sig upp. Höfuðið seig í og hann óskaði þess að hann væri dauður. Að minnsta kosti ekki svona lifandi.
Lifandi rotinn rothaus, stundi hann - eða hugsaði hann það? - og tróð sér skjálfandi í fötin. Hann fór fram á klósett og mátaði páfann í fáum leikjum. Blótaði þegar hann sá blóð í pappírnum.
Bókahrúgan á borðinu hafði hækkað. Skýjakljúfar af skruddum gnæfðu yfir hann þegar hann settist. Við minnsta skjálfta mundi allt heila galleríið steypast yfir hann. Hann drukknaði í bókaflóði, mundu minningargreinarnar segja. Ef einhverjar birtust. Gáta: Af hverju fór Egill Grímsson alltaf niður í fjöru rétt fyrir jólin? Af því hann var að bíða eftir jólabókaflóðinu. Ha ha. Ráðgáta: Hvernig gat maður sem svaf hálfan sólarhringinn og eyddi obbanum af deginum í að berjast við skottur náð háskólaprófi? Svar sendist Húsdraugnum, Einskinsmannslandi 0, kjallara.
Stingur í maganum. Ákvað að fara að fordæmi Trabanteigenda, láta skynsemina ráða. Reyna það að minnsta kosti. Einbeita sér að einu verki í einu. Láta hverri mínútu nægja sína þjáningu. Fyrsta mál á dagskrá: morgunverður. Jafnvel þótt hann væri enn ekkert svangur. Jafnvel þótt hann hefði ekki einu sinni lyst á mömmukökunum að vestan.
Hann fór út í bakarí eftir grófu brauði. Nú skyldi kýlt á hollustuna. Sjá hvort Eyjólfur hresstist ekki. Var að breytast í gúmmíkall, ár og öld síðan hann hafði hlaupið eða synt. Alltaf svo djöfull dasaður. Lamaður, dasaður og daufur.
Brjóst stúlkunnar við kassann þöndu út bakaríissloppinn. Geirvörturnar sögðu góðan dag. Hafði hann munað eftir að greiða sér? Augun duttu niður á blaðarekkann þegar hún leit upp. Rak þau í slysafrétt framan á Mogganum og teygði sig í eintak. Kippti Dagblaðinu með líka.
Hann var næstum því genginn undir bíl á leiðinni heim. Sat síðan drykklanga stund hreyfingarlaus yfir blaðinu. Las fréttina aftur. Dæsti langdregið. Tók um höfuðið. Fór svo í göngutúr og vissi ekki af sér fyrr en niðri á Ægissíðu. Horfði þar á svarblátt hafið berja ströndina. Starði þangð til hann sá eitthvað velkjast um í rótinu, eitthvað ílangt, eitthvað sem fór að taka á sig kunnuglegt form, þangað til honum hannst hann sjá
- Svartur hundur hljóp hjá – hann tók sérstaklega eftir litnum – og hann sagði við sjálfan sig að það hlyti að vera þaradrifin spýta sem hraktist um í flæðarmálinu. Eða var það skotta vafin pappír?
(s. 81-82)