Af bókarkápu:
Þetta er þriðja ljóðabók Guðbergs Bergssonar en nú eru liðin 25 ár frá síðustu ljóðabók hans. Stígar er óvenjulega persónuleg ljóðabók – eins konar ævi í ljóðum. Ljóðin mynda heild þótt þau séu skrifuð á ýmsum tímum. Bók um skáldskapinn, ævina og hugmyndirnar.
Úr Stígum:
Svarta skýið
Ég get ekki risið upp til þess frelsis sem ég hef þráð
að ganga um nakinn klæddur í orð
til þess að sérhver athöfn verði sama eðlis og gagnsætt gler
eða frosna vatnið sem maður finnur í sálinni og veit að enginn sér.
Þetta stafar af því að svarta skýið eltir í vissri fjarlægð.
Úr hvaða óvissu læðist skýið fram og löngunin til að hverfa í það?
Hreinn krýp ég í tveimur hjörtum með ákvörðun sem verður aldrei tekin en uppfyllist samt.
Óskirnar eru til þess að þær rætist aldrei en verði hugsanlega fullnægt.
Að öðrum kosti ætti óskin ekkert skylt við rót og yrði fljótt að engu.
,,Þótt líkamanum sé eðlilegt að deyja, þá deyr hann aldrei. Og þótt hann dæi myndu djöflar hans ekki deyja með honum.
Ég heyrði mann taka þannig til orða en veit ekki hvort vit er í því.
(22)