Beint í efni

Þór: Leyndarmál guðanna

Þór: Leyndarmál guðanna
Höfundur
Friðrik Erlingsson
Útgefandi
Veröld
Staður
Reykjavík
Ár
2010
Flokkur
Barnabækur

Af bókakápu:

Þór Óðinsson þeytist um heiminn frá morgni til kvölds að sinna skyldum sínum við guði og menn, í von um að faðir hans vígi hann endanlega inn í goðheima. Gömlu guðirnir eru hinsvegar fullir öfundar yfir vinsældum Þórs og reyna að losa sig við hann.

Af stað fer æsispennandi atburðarás þar sem hin illu öfl notfæra sér veikleika Þórs og fyrr en varir er allt líf í mannheimum og goðheimum í uppnámi. Loki vill tortíma Þór með aðstoð jötna og fær óvæntan liðsauka þegar sjálfur Surtur, lávarður logans, telur sig eiga harma að hefna gegn hinum hálfmennska guði. Þór þarf að kljást við öfluga og næstum ósigrandi óvini - og um leið sjálfan sig og breyskleika sinn.

Úr Þór: Leyndarmál guðanna

Hinir gömlu guðir, Freyr, Týr, Bragi og Baldur, höfðu móðgast svolítið í fyrstu þegar Óðinn konungur skipaði þennan strákling sem verndara frjálsra manna. Þeim fannst það allof fínn titill handa drengstaula, sem var ekki nema að hálfu leyti goðumborinn. Þar sem Þór var hálfur maður þá litu þeir svo á að hann væri þeim óæðri og því ómerkilegri að öllu leyti. „Mennirnir eru jú bara þrælakyn,“ sögðu þeir hver við annan. „Þeir eiga að þjóna okkur og senda okkur fórnir svo við getum átt náðuga daga. Það er óvirðing við okkur að Óðinn leyfi mannfólkinu að helga Þór fórnir sínar. Það er fullkomin niðurlæging,“ tuldruðu þeir önuglega hver við annan.
Það var ekki til að auka á gleði þeirra þegar í ljós kom að allar fórnirnar, sem fylltu ofnana í eldhúsi Valhallar tvisvar á dag, voru helgaðar Þór einum og engum öðrum. Mennirnir voru sem sagt hættir að hugsa um hina gömlu guði en lögðu allt sitt traust á þennan ofvirka gutta.
Þá gátu guðirnir ekki þagað lengur en gengu fyrir Óðin og báru fram kvörtun sína.
„Þetta er óþolandi,“ sagði Freyr. „Strákurinn hirðir allan heiður af okkur, hinum fornu guðum. Þetta er hreinasta svívirðing!“
„Og hvað á ég að gera í því?“ spurði Óðinn. „Drengurinn er ungur og hraustur og duglegur að sinna skyldum sínum við mannfólkið.“
„Skyldum sínum við mannfólkið?“ hrópaði Freyr hneykslaður. „Ég veit ekki betur en að það sé mannfólkið sem hafi skyldur við okkur! Það á að þjóna okkur guðunum svo við getum átt náðuga daga og gengið um Iðavöll og rætt heimspeki og vísindi í friði.“
„Þetta er alvarlegt brot á öllum fornum reglum og lögum,“ sagði Týr reiðilega.

(bls. 28-29)

Fleira eftir sama höfund

Benjamín dúfa

Lesa meira

Bróðir Lúsifer

Lesa meira

Litla lirfan ljóta

Lesa meira

Litla lirfan ljóta

Lesa meira

Vetrareldur

Lesa meira

Vetrareldur

Lesa meira

Afi minn í sveitinni

Lesa meira

Benjamin due

Lesa meira

Benjamín dúfa

Lesa meira