um bókina
Sögusviðið er Reykjavík árið 1963. Ung skáldkona flytur vestan úr Dölum með nokkur handrit í fórum sínum, á tímum þegar karlmenn fæddust skáld en ungum konum var boðið að taka þátt í fegurðarsamkeppni Fegrunarfélags Reykjavíkur.
Þetta er saga um sköpunarþrá og leitina að fegurð. Auður Ava hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin og Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir síðustu skáldsögu sína, Ör.
úr bókinni
Ódauðleiki
Það er sunnudagur og ég þarf að komast á Stýrimannastíginn til að skrifa.
Skáldið liggur á rúminu með Þjóðviljann samanbrotinn ofan á sér.
-Það er verið að koma hér á ómenguðu og hömlulausu auðvaldsskipulagi þar sem fjárglópsmenn ræna almenning og gróðinn er mælistika alls.
Hann stendur á fætur og er ákafur og baðar út höndunum eins og maður í ræðupúlti.
-Það eru nítján ár síðan Ísland fékk sjálfstæði og heildsalar hafa tekið við af dönskum kóngum og einokunarkaupmönnum. Þeir eru að reisa sér verslunarhallir upp með allri Suðurlandsbraut fyrir ágóðann af dönskum tertubotnum.
Ég segi skáldinu að ég ætli að heimsækja Jón John.
-En þú heimsóttir hann líka í gær. Og í fyrradag.
-Já, ég er að sauma gluggatjöld fyrir þakgluggann.
Hann er undrandi.
-Og á hann saumavél?
-Já.
Hann virðir mig fyrir sér.
-Mér finnst dálítið undarlegt að kærastan manns eigi karlmann að vini. Sem hún heimsækir á hverjum degi eftir vinnu. Og um helgar.
Hann stendur við gluggann. Haglélið bylur á glerinu.
-Ef ég vissi ekki að hann er ekki upp á kvenhöndina, þá myndi ég hafa áhyggjur af því hvað þú hangir mikið hjá honum.
Hann gengur eina ferð yfir gólfið.
-Ég frétti af ykkur á myndlistarsýningu í Listamannaskálanum í gær.
-Já við fórum á málverkasýningu. Hver sagði þér frá því?
-Þórarinn Dragfjörð. Hann er einn af okkur. Mokkaskáldunum.
Hann hefur lesið smásögu eftir sig í útvarpið, bætir hann við.
-Já, segir ég, ég heilsaði honum. Hann talaði um þig.
-Nú?
-Já, hann sagði að þú hefðir mikla hæfileika og ættir eftir að verða frægur.
-Sagði hann það?
-Já.
Hann brosir.
-Ég sagði það sama við hann um daginn. Að hann hefði mikla hæfileika og ætti eftir að verða frægur.
Hann er sýnilega snortinn og búinn að gleyma því að ég eigi sjómannsvin.
Hann sest við borðið, treður í pípu, kveikir í henni, stendur síðan upp, gengur út að glugganum og horfir út í hríðina. Þaðan gengur hann að rúminu.
-Eigum við að fá okkur lúr áður en þú ferð? spyr hann. Síðan er útvarpssagan eftir mat, bætir hann við.
-Ætlarðu ekki út að hitta skáldin?
-Ekki í kvöld. Ég hafði hugsað mér að sinna stúlkunni minni.
Hann tekur utan um mig.
-Mér datt í hug að við gætum farið á ball um helgina. Í Glaumbæ. Fengið okkur smá snúning. Eins og kærustupör gera.
Hann sleppir mér til að leita að Prókójev í plötusafninu.
(116-118)