Beint í efni

Urðarhvarf

Urðarhvarf
Höfundur
Hildur Knútsdóttir
Útgefandi
JPV útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2023
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina

Urðarhvarf fjallar um Eik sem tilheyrir hópi sjálfboðaliða sem leitar uppi flækingsketti og kemur þeim í öruggt skjól. Þegar þau frétta af læðu og kettlingum í steinhleðslu við Urðarhvarf er rokið af stað með fellibúr og hitamyndavél. En við Urðarhvarf birtist skepna sem Eik var búin að telja sjálfri sér trú um að hefði bara verið ímyndun. Skrímsli úr fortíðinni sem rótar uppi óþægilegum minningum og sannfærir Eik um eitt: Hún ein getur bjargað þessum kettlingum.

Úr bókinni

  Ég horfi lengi á myndina. Ég er fegin að Api skuli vera kominn heim til sín, í öryggið. En gleðin yfir því nær samt ekki að bægja burt beygnum sem hefur hreiðrað um sig svo djúpt í brjóstinu að mér líður eins og hann hafi hringað sig utan um hryggjarsúluna. Ég hef stöðugar áhyggjur af læðunni sem liggur einhvers staðar á milli kaldra, blautra steina með hóp af litlum kettlingum. En það versta er að ég get ekki losnað við tilfinningu um að það sé ekki bara kuldinn og bleytan sem ógni þeim.

  Það var eitthvað á bak við vegginn. Eitthvað sem beið í felum, eitthvað sem flúði bjartan geislann. Ég veit að minnið er brigðult. Ég veit að heilinn skáldar í eyður; þegar hann rekst á eitthvað sem hann þekkir ekki þýðir hann það yfir í eitthvað kunnuglegt.

  Ég veit samt hvað ég sá. Held ég.

  En það sem ég sá er ekki til. Ég man enn hvernig röddin í sálfræðingnum breyttist smám saman þegar hún þurfti að endurtaka sig aftur og aftur, tvisvar sinnum í viku, í marga mánuði veturinn sem ég varð tíu ára. Fyrst var röddin nærgætin og blíðleg. Síðan ákveðin. Að lokum var hún hætt að reyna að leyna pirringnum. Þetta var ekki neitt. Það var ekkert þarna inni í íbúðinni með þér. Börn hafa ótrúlega aðlögunarhæfileika. Ímyndaraflið hjálpar okkur að gera óbærilegar aðstæður bærilegar. Þetta hefur bara verið þín leið til að takast á við óttann.

  Á endanum samþykkti ég það. Ekki af því að ég tryði henni, heldur af því að ég nennti ekki að tala um þetta lengur. Því ég hafði heyrt langar klærnar dragast eftir skítugu gólfinu. Ég hafði heyrt þungt skottið slást til. Og ég hafði séð hana. Svartan, hárlausan líkamann. Vöðvana sem hnykluðust þegar hún hnipraði sig saman til stökks. Ekkert sem þessi sálfræðingur sagði gat sannfært mig um neitt annað.

  Það var ekki fyrr en ég var orðin unglingur og hitti annan sálfræðing sem ég fór að trúa því að ég hefði búið þetta allt saman til. Og ég hef trúað því síðan - þar til í kvöld. 

  Því í kvöld sá ég aftur kolsvart eyrað sem hafði birst í svefnherbergisgættinni þegar ég var fjögurra ára gömul. Og ég þekkti aftur dynkinn í þungu skottinu. 

 

(s. 37-38)

Fleira eftir sama höfund

Doddi: ekkert rugl!

Lesa meira

Doddi – Ekkert rugl!

Lesa meira

Doddi – Bók sannleikans!

Lesa meira

Ljónið

Lesa meira

Doddi: bók sannleikans!

Lesa meira

Vetrarfrí

Lesa meira
hrím

Hrím

Skugginn hafði skilið sig frá myrkrinu undir bakkanum. Gríðarstór bakuggi stakkst upp og klauf yfirborðið svo það mynduðust tvær straumrákir í vatnið sitt hvorum megin. Skugginn stefndi beint á Bresa sem var nú kominn út í um það bil miðja ána..   
Lesa meira

Skógurinn

Lesa meira