Beint í efni

Vegur vindsins

Vegur vindsins
Höfundur
Ása Marin
Útgefandi
Björt
Staður
Reykjavík
Ár
2015
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina

Þegar hrist er upp í veröld Elísu kaupir hún sér göngusandala og flugmiða og stingur af. Stuttu síðar er hún komin að landamærum Frakklands og Spánar með bakpokann sinn, dýrlingana Jakob og Kristófer og eina hörpuskel. Á Jakobsveginum kynnist Elísa skrautlegum pílagrímum, konum með svuntur og skilningsríkum heimamönnum. Á leiðinni kemst hún líka að því að hver verður með sjálfum sér lengst að fara.

Ása Marin er grunnskólakennari að mennt. Hluta ársins ferðast hún um heiminn sem fararstjóri en þess á milli skrifar hún námsefni í íslensku. Ása Marin hefur áður sent frá sér ljóð og smásögur en þetta er hennar fyrsta skáldsaga.

Úr bókinni 

Næsta borg er minn áfangastaður og ég loka augunum þegar við keyrum inn í hana. Opna þau ekki aftur fyrr en rútan nemur staðar á umferðarmiðstöð borgarinnar. Finn töskuna mína og leigubíl. Bílstjórinn horfir líkast til undrandi á mig þar sem ég sit aftur í með augun klemmd saman meðan við keyrum út úr borginni og í átt að landamærunum, neita að fá smjörþefinn af stöðum sem ég á eftir að ganga til.
   Fyrir nokkrum dögum ákvað ég að gerast pílagrímur. Mig hafði reyndar lengi langað að ganga Jakobsveginn en efaðist um að ég væri í nógu góðu formi til þess. Það virtist alger fásinna að ætla að ganga frá landamærum Frakklands og Spánar nánast út að Atlandshafi. Eftir að hafa horft á þætti þar sem Thor Vilhjálmsson brölti háaldraður um slóðir pílagríma hvarf sá efi. Ég hafði hins vegar aldrei tíma til að láta vaða. Nei, ég gaf mér raunverulega ekki tíma til að hefja ferðalagið. Fyrr en fyrir nokkrum dögum. Þá pantaði ég flug, keypti mér göngusandala og sólarvörn, allt á sama deginum. Þess fullviss að lífið biði ekki eftir mér og því væri enginn tími betri en núna til að leggja í hann.
   Leigubíllinn nemur staðar í landamærabæ sem samanstendur af örfáum húsum, kirkju og ráfandi pílagrímum. Ég borga farið, brosi þegar leigubílsstjórinn réttir mér töskuna og rúlla henni upp að hótelinu. Í raun hefst pílagrímsganga mín ekki fyrr en á morgun. Þessvegna er ekki svindl að gista á hóteli í nótt. Á morgun mun ég hinsvegar panta gistingu á bedda í sæluhúsi, eða albergue eins og þau kallast, með öðrum sveittum pílagrímum.

(s. 9)

 

Fleira eftir sama höfund

Að jörðu

   
Lesa meira

Búmerang

    
Lesa meira

Elsku sólir

   
Lesa meira

Yfir hálfan hnöttinn

   
Lesa meira

Og aftur deyr hún

   
Lesa meira
Hittu mig í Hellisgerði kápa

Hittu mig í Hellisgerði

Jólin eru ónýt hjá Snjólaugu. Barnsfaðir hennar ætlar að vera á Tenerife með dóttur þeirra allar hátíðarnar og Snjólaug sér fyrir sér ömurlega einmanalegt aðfangadagskvöld. En svo fær hún snilldarhugmynd: Hún ætlar að vera búin að finna sér kærasta þegar klukkurnar hringja jólin inn.
Lesa meira

Bláar dyr

   
Lesa meira
Sjávarhjarta kápa

Sjávarhjarta

Viðar hefur staðið eins og klettur við hlið Díu sinnar í öllum þeim erfiðleikum sem hafa dunið á henni. Og þegar hann býður henni í unaðslega skemmtisiglingu um Karíbahafið þarf hún ekki að hugsa sig lengi um – jafnvel þótt ferðin sé handavinnuferð og hún hafi tíu þumalfingur. Mál fara þó að flækjast þegar dularfull og daðurgjörn kona úr fortíð Viðars skýtur óvænt upp kollinum á skipinu og fær Díu til að líta samband þeirra nýjum augum.
Lesa meira