Beint í efni

Veraldarsaga mín – ævisaga hugmynda

Veraldarsaga mín – ævisaga hugmynda
Höfundur
Pétur Gunnarsson
Útgefandi
JPV-útgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2014
Flokkur
Ævisögur og endurminningar

Um bókina:

Öfugt við systkini okkar í dýra-, jurta- og steinaríkinu er okkur gert að skilja heiminn, taka þátt í mótun hans og hafa áhrif á gang hans. En þetta gerist ekki í tómarúmi, þvert á móti í víxlverkun ævisögu og veraldarsögu.

Í Veraldarsögu Péturs Gunnarssonar segir frá því þegar höfundurinn hleypir heimdraganum örlagaárið mikla, 1968, og dvelur næstu árin í París og Provence við skáldskap undir yfirskini náms. Hann stofnar heimili með æskuástinni og saman fara þau á puttanum í „óvígða sambúðarferð“ um Ítalíu og Grikkland. Leikurinn berst um víðan völl, ekki síst um lendur hugans í leit að tilgangi og tilraunum til að koma að honum orðum. Svo eins og ævinlega gerist það sem John Lennon söng um forðum:

„Life is what happens while you‘re busy making other plans.“

Úr Veraldarsögu minni:

Fimbulkuldinn í París kom á óvart, þessi hráblauti meginlandshrollur sem alls staðar smýgur. Heim úr jólafríinu hafði ég tekið með mér nýjar birgðir af skjólflíkum: húfu, vettlinga, Álafossúlpuna góðu og föðurlandið. Leið svo veturinn, páskar voru á næsta leiti og enn hafði kuldinn ekki slakað á klónni. Þá hljóp óvænt á snærið. Líney Skúladóttir hafði fengið það verkefni að gera tillögu að endurbótum og viðreisn byggingar sem landi okkar, Sigurður Jónsson þörungafræðingur, hafði fest kaup á suður í Cevennafjöllum. Svæðið var orðið að eins konar Hornströndum Frakklands, stjórnvöld hfðu tekið ákvörðun um að láta það róa, slegið var slöku við viðhald vega, heilbrigðisþjónusta og skólahald á undanhaldi. Íbúarnir ýmist forðuðu sér eða tuggðu á sér gómana á torgbekkjum undir minnismerkjum um fallna þorpssyni í stríði eitt og tvö. Fyrir vikið buðust yfirgefin hús á gjafaverði, Sigurður og hans franska frú höfðu stokkið á eign í þorpinu Ardaillers ásamt akri sem á stóð skemma eða hlaða – eða kastali eftir því hvernig maður vildi líta á málið – og kom í hlut Líneyjar að kveða nánar á um það. Líney átti um þessar mundir bílkríli, hollenskrar gerðar, DAF var nafnið sem það bar. Til boða stóð ferð á kostnaðarverði suðrábóginn. Við vorum ekki seini að munstra okkur á vagninn: Jón Thor, Siggi Páls, Gvendur spíri og undirritaður. Sem var nokkuð vel í lagt þegar DAF er annars vegar, einkum þar sem ég fyllti í skottið með bláu töskunni – ég hafði ráðið við mig að verða eftir þar syðra og vélrita ótruflaður af öðru en fuglasöng.

Við skiptumst á að aka dagfari og náttfari því engin ráð höfðum við á næturgistingu, mig minnir að ferðin hafi tekið einn og hálfan sólarhring. Mynd eða tvær lifa frá þessu ferðalagi, það er áliðið kvölds, við nemum staðar í litlu þorpi. Bæjarbúar á kaffihúsi staðarins litu upp og ofan við barskenk tróndi sjónvarps, á skerminum Kristur að erfiða undir krossinum í mynd Pasólínís, Matteusarguðspjalli. Það var föstudagurinn langi.

(21-2)

Fleira eftir sama höfund

Gunnlaðar saga

Lesa meira

Undir regnboga

Lesa meira

Grænjaxlar

Lesa meira

Hlutirnir

Lesa meira

Splunkunýr dagur

Lesa meira

Kartöflugarður um vetur : ritdómur um Kartöfluprinsessuna

Lesa meira

Efstu dagar

Lesa meira

Efstu dagar

Lesa meira

Dýrðin á ásýnd hlutanna

Lesa meira