Beint í efni

Aðlögun

Aðlögun
Höfundur
Þórdís Gísladóttir
Útgefandi
Benedikt bókaútgáfa
Staður
Reykjavík
Ár
2024
Flokkur
Ljóð

Um bókina

Þórdís Gísladóttir hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar árið 2010 fyrir fyrstu ljóðabók sína, Leyndarmál annarra, og hefur síðan hlotið fjölda verðlauna og tilnefninga fyrir frumsamin og þýdd verk. Aðlögun er hennar sjötta ljóðabók.

Úr bókinni

Skömm

Ég hef takmarkaða stjórn á lífi mínu.
Hér eru leyndir gallar,
óreiða í skápum,
faldir reikningar.

Ég held engu til haga,
skálar fyllast af drasli,
áminning um krabbameinsskoðun fór í ruslið
án þess að pantaður væri tími.

Allt er á rúi og stúi,
bananaflugur sveima um eldhúsið,
lítil dýr hafa búið um sig í blómapottunum,
ég er ekki upp á mitt besta.

Ég fagna því þegar ég hitti bræður og systur
sem stunda bókhaldsóreiðu.
Finn samlíðan,
sameinast þeim í skömminni líkt og þegar drykkjumenn hitta
gamla félaga,
þeir skilja hvers vegna annað fólk lifir þessu lífi.
Hirðuleysi og draslaraskapur
hrærir viðkvæmar taugar.
Fólkið sem mætir of seint á fundi,
setur hvorki í uppþvottavél,
né greiðir í kaffisjóðinn,
og notar óreiðukennd orð,
vekur neikvæðar tilfinningar hirðusamra.

Glundroði er ekki merki greindar
heldur þvert á móti,
lygin um samband hirðuleysis og gáfna
dafnar af fullkomnu óréttlæti,
en gerir fólki auðveldara að dylja skipulagsleysið.

Það er heillandi í byrjun,
virka áhugaverðar persónur
með marga bolta á lofti,
en undir niðri eru brestir
og kraumandi óreiða.

Það er hægt að stjórna upplifun annarra
með framsetningu á blekkjandi aðstæðum
og leyna stjórnleysinu,
en slíkt krefst orku.
Við draslararnir erum alltaf á tánum.
Við höfum ekki valið þetta,
við ætluðum að hengja upp blaut sundföt,
vökva blómin,
borga stöðumælasekt,
borða gúrkuna sem myglaði,
og mæta á tónleika kvennakórs.
Við gerðum það bara ekki.

Það er óþarfi að kjöldraga kjörna fulltrúa
sem mæta ekki á réttan stað á réttum tíma,
fá hótanir frá innheimtustofnunum,
greiða ekki hár sitt
og krota annars hugar á blöðin sín.

Þetta fólk gerir sitt besta
og er vakandi
varðandi menntamál,
fjármál og skipulagsmál.

Það veldur hirðulausum þjáningu
að heyra af þeim sem borga reikninga of seint,
slíkt skaðar fólk sem greiðir dráttarvexti
ekki hin sem kunna notendanafn og lykilorð
og muna að opna heimabankann fyrir eindaga.

Óreiða mín snertir annað fólk takmarkað.
Ég skammast mín samt.

Fleira eftir sama höfund

randalín og mundi : dagar í desember

Randalín og Mundi : Dagar í desember

Vinirnir Randalín og Mundi lenda í miklum ævintýrum í jólamánuðinum, . gera góðverk og óvart skemmdarverk.
Lesa meira
alger steliþjófur

Alger steliþjófur!

- Hann tók litla dótið, sagði Irma Lóa allt í einu og var greinilega frekar æst. Hann er algjör frekja þessi karl.
Lesa meira

Randalín, Mundi og leyndarmálið

Lesa meira

Mislæg gatnamót

Lesa meira

Doddi – Ekkert rugl!

Lesa meira

Doddi – Bók sannleikans!

Lesa meira

Óvissustig

Lesa meira

Randalín, Mundi og afturgöngurnar

Lesa meira

Tilfinningarök

Lesa meira