Um bókina
Andvaka sögukona rifjar upp ævi sína, segir frá samferðafólki, raðar saman minningabrotum og gerir tilraun til að greina samhengi hlutanna. Skáldsagan Horfið ekki í ljósið fjallar um svefnleysi, kjarnorkuvá og beinagrindur sem leynast í skúmaskotum.
Úr bókinni
Um páskana þegar ég var nýorðin fimmtán ára, fór ég með ömmu í gegnum gamlan fataskáp í kjallaranum þegar hún var að gera árlega vorhreingerningu og viðra föt. Amma var mjög ánægð með að ég væri til í að nota eitthvað af gömlu fötunum úr skápnum, henni fannst slík nýtni mikil dyggð. Eftir þetta leit ég sennilega oft út eins og ung og fölleit stúlka að leika eldri manneskju. Um þetta leyti varð fatatískan reyndar dálítið núþáleg, svo að þetta átti ágætlega við. Ég gekk í ermalausri blúnduskyrtu eða í fölbleiku, dömulegu peysusetti úr gerviefni sem amma hafði átt. Golftreyjan yfir stuttermapeysunni var með ásaumuðu blómi úr litlum pallíettum og litlum hvítum tölum sem voru eins og perlur. Peysusettið var örlítið hnökrað. Við þetta var ég stundum í heimalituðu og heimasaumuðu hveitipokapilsi með stimpli, bleiku eða gráu, eða röndóttum buxum sem keyptar voru í Kjallaranum, þær minntu á náttbuxur og pössuðu fremur illa á mig. Stundum var ég í sniðlausum mussum, ýmist hvítri eða annarri með bleikum, bláum og hvítum röndum við pilsið, mussurnar voru báðar með kínakraga og keyptir í versluninni Elfi við Laugaveg. Yfir þessar flíkur klæddist ég oft gömlum jakka, sennilega af afabróður mínum, með tvíuppbrettar ermar svo að það sást að fóðrið var röndótt, en stundum var ég í ljósbrúnum apaskinnsjakka sem mamma hafði átt sem unglingur. Á þessu tímabili gekk ég nær eingöngu í kínaskóm sem fengust í Hagkaupum. Ýmist voru þeir með bandi yfir ristina eða ekki.
(s. 56-57)