Beint í efni

Þórdís Gísladóttir

Æviágrip

Þórdís Gísladóttir, rithöfundur og þýðandi er fædd 1965 og ólst upp í Hafnarfirði. Hún lauk BA-prófi í íslensku frá Háskóla Íslands, stundaði MA-nám í bókmenntum og lauk fil.lic-prófi í norrænum fræðum frá Uppsalaháskóla í Svíþjóð þar sem lokaverkefnið var rannsókn á tvítyngi. Auk ritstarfa hefur Þórdís starfað sem bókmenntagagnrýnandi, hún hefur kennt og flutt fyrirlestra við skóla á Íslandi og erlendis, skrifað greinar í tímarit, skrifað fasta pistla fyrir norska dagblaðið Klassekampen, gert útvarpsþætti og flutt pistla á RÚV, unnið sem vefritstýra fyrir Norrænu ráherranefndina og ritstýrt tímaritinu Börn og menning.

Þórdís skrifar jöfnum höndum fyrir börn og fullorðna og hefur einnig samið námsefni og skrifað unglingabækur í samstarfi við Hildi Knútsdóttur. Þá hefur hún þýtt fjölda bóka og leikrit, flest úr sænsku. Fyrsta ljóðabókin, Leyndarmál annarra, hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar árið 2010. Verk eftir hana hafa einnig birst í safnritum.

Þórdís hlaut Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna, fyrir barnabókina Randalín og Mundi (2012) og verk hennar hafa verið tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Hún hlaut tilnefningu til íslensku þýðingarverðlaunanna fyrir bókina Allt er ást eftir Kristian Lundberg og ljóðabókin Óvissustig hlaut tilnefningu til Maístjörnunnar, ljóðabókaverðlauna Rithöfundasambands Íslands og Landsbókasafns, fyrir bestu íslensku ljóðabókina sem kom út árið 2016.