Æviágrip
Þórdís Gísladóttir, rithöfundur og þýðandi er fædd 1965 og ólst upp í Hafnarfirði. Hún lauk BA-prófi í íslensku frá Háskóla Íslands, stundaði MA-nám í bókmenntum og lauk fil.lic-prófi í norrænum fræðum frá Uppsalaháskóla í Svíþjóð þar sem lokaverkefnið var rannsókn á tvítyngi. Auk ritstarfa hefur Þórdís starfað sem bókmenntagagnrýnandi, hún hefur kennt og flutt fyrirlestra við skóla á Íslandi og erlendis, skrifað greinar í tímarit, skrifað fasta pistla fyrir norska dagblaðið Klassekampen, gert útvarpsþætti og flutt pistla á RÚV, unnið sem vefritstýra fyrir Norrænu ráherranefndina og ritstýrt tímaritinu Börn og menning.
Þórdís skrifar jöfnum höndum fyrir börn og fullorðna og hefur einnig samið námsefni og skrifað unglingabækur í samstarfi við Hildi Knútsdóttur. Þá hefur hún þýtt fjölda bóka og leikrit, flest úr sænsku. Fyrsta ljóðabókin, Leyndarmál annarra, hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar árið 2010. Verk eftir hana hafa einnig birst í safnritum.
Þórdís hlaut Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna, fyrir barnabókina Randalín og Mundi (2012) og verk hennar hafa verið tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Hún hlaut tilnefningu til íslensku þýðingarverðlaunanna fyrir bókina Allt er ást eftir Kristian Lundberg og ljóðabókin Óvissustig hlaut tilnefningu til Maístjörnunnar, ljóðabókaverðlauna Rithöfundasambands Íslands og Landsbókasafns, fyrir bestu íslensku ljóðabókina sem kom út árið 2016.
Um höfund
Af kolvetnum, andvökum og glamúrskorti: Um verk Þórdísar Gísladóttur
Litskrúðugar manngerðir, hversdagsleikinn í öllum sínum fjölbreytileika, samtíminn, tilhugalíf, málefni kvenna, andvökunætur og Facebook mynda þræði sem spinna sig í gegnum ljóðabækur Þórdísar Gísladóttur en þær eru nú alls fjórar talsins. Leyndarmál annarra kom út árið 2010, hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar, og markaði ákveðin skil í höfundarverki Þórdísar sem fram að þessu hafði verið þýðingar, aðallega úr sænsku, og skrif um aðrar bókmenntir, til dæmis á vefnum Druslubækur og doðrantar. Bókin hlaut góðar viðtökur og virtist ná til stærri hóps en ljóðabækur almennt gera og til lesenda sem lesa yfirleitt ekki ljóð. Þórdís fylgdi velgengninni eftir með Velúr sem kom út árið 2014 og hlaut tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna, en næstu ár á eftir fylgdu Tilfinningarök árið 2015 og Óvissustig árið 2016. Jafnframt hefur Þórdís gefið út barnabækurnar um þau Randalín og Munda, en þær eru orðnar þrjár talsins, og skrifað tvær bækur í samstarfi við Hildi Knútsdóttur um unglingsstrákinn Dodda. En aftur að þráðunum sem liggja í gegnum ljóðabækurnar fjórar. Í þessari grein er markmiðið að greina þá nánar og setja jafnvel í samhengi við nýjustu afurð skáldsins, skáldsöguna Horfið ekki í ljósið sem kom út 2018.
Hugleiðingar um hversdagslífið eru áberandi í verkum Þórdísar. Í ljóðinu „Í lok febrúar“ úr ljóðabókinni Óvissustig birtist mynd af hinu hversdagslega sem tekur við til dæmis eftir hátíðisdaga og veisluhöld: „Eitthvað er loðið í horninu / Það er klístur á gólfinu / leifar hafa storknað á diskum“ (22). Hvunndagurinn sem yrkisefni gefur til kynna raunsæislegan tón sem á vel við ljóð Þórdísar en passar ef til vill ekki alveg við stranga skilgreiningu á félagslegu raunsæi sem bókmenntastefnu. Skáldið fjallar einmitt sjálft um þetta í ljóðinu „Félagslegt raunsæi“ sem birtist í fyrstu ljóðabókinni og gefur ef til vill tóninn fyrir það sem á eftir kemur: „Ég er aldrei með glóðurauga, / ekki einn einasta marblett [...] Ég á hillur með heimsbókmenntum, skvísubókum og ljóðum, / værðarlegan kött, sömbutónlist og Sjostakovits. / Ég sendi aldrei rætna tölvupósta eða dónaleg sms eftir miðnætti“ (9). Í ljóðinu er ekki fjallað um heimilisofbeldi eða fátækt heldur það sem stendur skáldinu næst en það er augljóst að innblástur og yrkisefni ljóðanna eru sprottin úr nærumhverfi skáldsins. Ljóðið um félagslega raunsæið sýnir ennfremur hvernig skáldskapnum mætti frekar lýsa sem tilbrigði við raunsæi; nálgun við hið hversdaglega frá óvæntu sjónarhorni þar sem skáldið bregður upp hversdagslegum svipmyndum sem ýmist eru litaðar húmor, trega eða ísmeygilegum tóni. Gott dæmi um það síðastnefnda er andleysið sem skáldið upplifir í hinu daglega lífi og lýsir í ljóðinu „Melankólía fyrir miðaldra“:
Líklega er ég hvergi
eins fjarri draumum mínum
og á mesta annatíma
í umferðarsultu
í Ártúnsbrekkunni
í skammdeginu.Nema ef vera skyldi
á KFC í Mosfellsbæ.
En skáldið er einnig næmt á fegurðina sem er að finna í tilbreytingarleysinu og í smáatriðunum sem verða á vegi okkar á hverjum degi. Göngutúrsljóðið „Sumt gott í lífinu er ókeypis“ í Leyndamálum annarra er gott dæmi um þetta og minnir á gildi þess smáa. Ljóðmælandi fær sér göngutúr í hressilegu veðri úr Austurbæ yfir í Vesturbæ og lýsir mannfólkinu sem hún mætir á leiðinni; mönnum sem sitja á kaffihúsum eða grípa með sér kaffi á leið í vinnuna, konunum sem vinna í markaði Hjálpræðishersins, ferðamönnum sem gæða sér á hefðbundnum morgunmat í matsal gistiheimilis, neonlituðum öskuköllum og mæðginum á leið í leikskóla. Lesendur, sem trúlega þekkja þetta umhverfi vel, fylgja ljóðmælanda eftir á ferð hans um bæinn og sjá kannski samferðafólkið sem þeir mæta daglega í öðru ljósi en áður.
Stundum er hversdagslífið rammað inn af því misræmi sem er á milli hins skáldlega og hvunndagsins. Sem dæmi má nefna ljóðið um manninn í strætóferðinni í Tilfinningarökum sem ber titilinn „Laghentur maður leitar að lífsförunaut“. Hann fer inn í vagninn í Mjóddinni og lætur hugann reika, aðallega um konur og kvenmannsleysi, á leið niður á Hlemm. Á meðan virðir hann umhverfið fyrir sér og aðra farþega vagnsins, til dæmis fallega stúlku sem situr nokkrum sætum frá honum. Þegar stúlkan fer úr vagninum hvarflar að honum að elta hana. Hann hugsar með sér að ef hann væri persóna í rómantískri gamanmynd (undirrituð hugsaði nú eða franskri nýbylgjumynd eða bandarískri indíkvikmynd) myndi hann óhikað gera það. Raunveruleikinn aftrar honum frá því og hann hugsar með sér að þannig virki lífið ekki, hann gæti orðið of seinn í vinnuna og jafnvel verið kærður fyrir áreitni.
Hér gætum við sagt sem svo að ljóðið lýsi því hvernig oft sé ekki leyfilegt að leika af fingrum fram í hvunndeginum, gera eitthvað spontant og lenda í ófyrirséðum ævintýrum – því við þurfum jú öll að mæta í vinnuna á réttum tíma. En ljóðið dregur einnig fram hvernig birtingarmynd rómantíkur í hversdagslífinu er með öðrum hætti en í skáldskap, og hvetur lesendur til að spyrja sig hvort ástarævintýri í kvikmyndum séu oft byggð á einhvers konar misskilningi? Því ef við hugsum þetta brot út frá sjónarhorni stúlkunnar; hefði hún áhuga á að láta ókunnugan eldri karlmann í strætó veita sér eftirför? Síðar í sömu ferð greinir maðurinn frá því hvernig hann hefur dreymt um að vera kona. Svo virðist sem kvenmannsleysi hans eða öllu heldur samskiptaleysi við hitt kynið hafi gert konur að framandi verum sem hann aðeins getur nálgast í draumum.
Ljóðið um kvenmannslausa karlmanninn í strætó kallast á við ljóðið „Nýtt líf“ í Velúr sem lýsir draumi ljóðmælanda um að segja skilið við líf sitt og stinga af inn í „rómantíska gamanmynd með alvarlegum undirtón“ (6). Þar eru áhyggjurnar léttvægar og ef myndin er frönsk, bætir ljóðmælandi við, fær hún sér salat, mjóa sígarettu og kaffibolla í hádegismat og hefur litlar áhyggjur af börnunum sem eru „svolítið klístruð en kurteis og ekki með neinar greiningar“ (7). Hugleiðingar um stöðu nútímakonunnar eru áberandi í höfundarverki Þórdísar sem gerir oftar en ekki grín að þeim kröfum sem gerðar eru til kvenna í nútímasamfélagi. Skáldið yrkir um staðalímyndir og kvenhlutverk á lúmskan og írónískan hátt, og ýmist spyr sig eða fellir dóma um hvað sé kvenlegt og hvað ekki. Samkvæmt ljóðmælanda í ljóðinu „Misvísandi skilaboð“ í Velúr eru kolvetni kvenleg og í fyrstu ljóðabókinni yrkir skáldið um svokallaðan glamúrskort í samnefndu ljóði:
Það er mikilvægt að líta eðlilega út.
Líta út fyrir að vera venjuleg,
án þess þó að vera leiðinleg.
Hugguleg, en ekki skera sig of mikið úr
og umfram allt ekki ganga um með óhamingjuna
eins og þrúgandi hvatarslæðu um hálsinn.[...]
(Leyndarmál annarra, 7)
Kvenfrelsi og málefni kvenna eru undirliggjandi rauður þráður í höfundarverki Þórdísar. Ljóðin eru ekki endilega rammpólitísk heldur tjá á látlausan hátt það sem stendur skáldinu nærri; það samfélag sem hún býr í og þann tíma sem hún lifir á. Aftur á móti má greina hárbeittan og gagnrýninn tón í ljóðinu „Dauðinn“ sem nálgast hugmyndina um félagslega raunsæið og nefnt var hér áður. Ljóðið fjallar um kynbundið ofbeldi en þar má m.a. finna línurnar: „Dauðinn býr á Seltjarnarnesi / um helgar býður hann konum heim til sín. / En alls ekki konum sem takast æðrulausar á við / tíðahvörfin.“ (Velúr, 16)
Eins og hversdagslegu stefin gefa til kynna er samtíminn undir í verkum Þórdísar. Ljóð hennar eru samtímaleg og skírskota sterklega til nútímasamfélagsins. Dæmi um það eru mýmargar vísanir í samfélagsmiðilinn Facebook og vitna til þess hve stór þáttur miðillinn er í lífi okkar flestra. Sama hvort okkur þykir hann óþolandi, upplýsandi, forvitnilegur, nytsamlegur, skrítinn, hallærislegur eða fyndinn, þá er Facebook dæmi um miðil og þátt í lífinu sem bara er og verður. Að minnsta kosti virðist hann ekkert vera á förum heldur þvert á móti sífellt að ná dýpri tökum á lífi okkar og samfélagi. Vísanirnar eru ef til vill ekki sérstaklega gagnrýnar heldur sýna frekar hvernig miðillinn dregur fram bæði, og oft samtímis, skondnar og sorglegar hliðar lífsins. Þá er stutt á milli hláturs og gráturs á Facebook; á eftir status sem vísar í tragíska frétt um stöðu flóttafólks í heiminum fylgir myndband af fólki að detta á rassinn.
Í Óvissustigi fáum við til dæmis að heyra af gömlum manni sem leggur sig fram um að hafa eitthvað merkilegt að segja á Facebook og tekur að haga lífi sínu eftir því, og af Margréti, konu á áttræðisaldri í samnefndu ljóði í Velúr, sem skráði sig á Facebook og áttar sig ekki á öllum beiðnunum sem hún fær, sem og óskrifuðu reglunum. Facebook kemur aftur við sögu í ljóðinu „Úr minningargrein“ þar sem höfundur þakkar hinum látna fyrir öll lækin og hjörtun. Samfélagsmiðlar eru samofnir sjálfsmynd fólks í samtímanum; þeirri mynd sem við höfum af okkur sjálfum og sýnum öðrum. Samfélagsmiðill eins og Facebook veitir ennfremur tækifæri til að búa til, raða saman eða púsla mynd af sjálfinu í netheimum, en sú mynd er kannski ekki alltaf alveg sannleikanum samkvæm. Það á við um konuna í einu brotinu úr „af bekknum“ sem stundar núvitund með því að læka vissa hluti og fyrirtæki á Facebook. Lækin birtast sem full einföld leið til að nálgast núvitund en um leið fljótleg aðferð til að firra sig ábyrgð og kynna sjálfan sig sem ákveðna manngerð fyrir vinum sínum á samfélagsmiðlinum. Þá segir ein persóna í ljóði í Velúr frá því hvernig hún „laumast með Facebook veggjum“ sem gefur til kynna hvernig hún notar miðilinn til að spæja um samferðarfólk sitt.
Hversdagslífið er hvergi án fjölbreytileika mannlegs lífs og þær ólíku aðstæður sem fólk býr við. Skáldið fangar það vel í ljóðinu „Morgunn á Suðurnesjum“ í Óvissustigi þar sem ljóðmælandi setur sig í spor ólíkra persóna sem deila sama svæði á sama tíma. Fólk sem er ferðbúið og á leið til stærri og heitari landa í gegnum flugvöllinn á Suðurnesjum, þingmaðurinn sem býr í húsi við sjóinn og hellir upp á morgunkaffi, og móðir í blokk í hrauni sem hugsar um manninn sem yfirgaf hana. (16). Þá má greina mannlýsingar, eða öllu heldur örsagnir af alls konar fólki í ólíkum aðstæðum, sem ákveðið þema í verkum skáldsins sem bregður sér í gervi eða spor ólíkra manngerða. Til dæmis konu sem sækist eftir ástum framhaldsskólakennara í ljóðinu „Kvöldbæn konu með of hátt kólesteról“ og er að finna í Velúr, eða konunnar á skrifstofunni, í samnefndu ljóði í Óvissustigi, sem virðist dálítið bitur eða döpur yfir einsemd sinni og karlmannsleysi. Í Velúr fá lesendur ljóð í formi örsagna af ólíkum konum, en ljóðin bera nöfn kvennanna. Sem dæmi má nefna ljóðið „Svala Ósk“ og fjallar um samnefnda konu sem býr ásamt eiginmanni sínum á Melunum en er hrifin af Degi B. og ætlar til hans í vöfflukaffi á næstu Menningarnótt (42).
Ljóðabrotin í „af bekknum“ í Óvissustigi eru af svipuðum toga en þar birtast mannlýsingar í gegnum samtöl, eða eintöl öllu heldur. Lesendur fá til að mynda að gægjast í huga læknis sem á við stelsýki að stríða og lesa hugsanir stráks sem tekur að sér að passa páfagauk til að ganga í augun á eiganda hans. Það sama má segja um „Skyndimyndir“ sem er ljóðabálkur í Tilfinningarökum og minnir á skissur af sögupersónum. Það er til dæmis eitthvað dásamlega heillandi við konuna sem keyrir of hægt (31) en að sama skapi er það gersamlega óþolandi að lenda á eftir þannig ökumanni. Höfundarverk Þórdísar hefur því að geyma ríkulegt persónugallerí sem spannar litrófið í mannlífinu. Ef konan sem keyrir hægt er á öðrum endanum er maðurinn með mannalætin á hinum; sá sem pantar sér alltaf sterkasta réttinn á Ban Thai (40). „Man kender typen“ sagði annað skáld eitt sinn og það á vel við hér.
Fjölbreyttar lýsingar á mannlegri hegðun draga einnig fram hve mannlegt líf er í raun oft sérkennilegt, tilviljanakennt og skrítið. Það er eitthvað einstakt sem heillar við ljóðið í Velúr um hana Sonju, frænku ljóðmælanda, sem safnar ákveðnu stelli frá Villeroy og Boch (39). Ég veit ekki hvort það er stellið sjálft sem ljóðmælandi lýsir – í jarðlitum skreytt gróðri úr frönskum skrúðgarði og birtist myndrænt í hugskotsjónum lesanda. Eða hvort það er söfnunarárátta konunnar sem heillar og sú grátbroslega staðreynd að hún notaði aldrei stellið þar sem hún fékk aldrei gesti í mat. Einsemd hennar er römmuð inn þegar stellið lendir í kassa að henni látinni og er gefið á næsta flóamarkað.
Úlfhildur Dagsdóttir skrifar á öðrum stað hér á þessum vef um tilvistarleg stef í verkum Þórdísar sem hún tengir við finnska höfundinn Tove Janson og tilvistarlegar hugleiðingar múmínálfanna í sögum hennar. Þess má geta að Þórdís hefur nýlokið við þýðingu á tveimur sögum Jansons: Litlu álfaunum og Flóðinu mikla sem koma út ásamt öðrum sögum eftir Janson í veglegri útgáfu fyrir jólin 2018. Úlfhildur tengir tilvistarstefnuna við verufræðina, hugmyndina um að vera hér og nú. Þórdís snertir líka aðeins á vofufræði – annað stef eða tilbrigði við verufræðina og setur hana á haus – að vera ekki en vera samt – og klæðir hana í kómískan búning. Í einu ljóðanna í bálknum „Skyndimyndir“ úr Tilfinningarökum verður kona vör við draug heima hjá sér sem er þó ekki draugslegri en svo að hann líkist leikaranum góðkunna Jerry Seinfeld: „Hann er klæddur ljósum, vel gyrtum gallabuxum eins og sjónvarpsstjarnan og hár hans er örlítið liðað“ (37). Í fyrstu er hún hrædd við drauginn en þegar hún hefur vanist honum virðist hann hafa róandi áhrif á hana. Draugar koma einnig við sögu í þriðju bókinni um Randalín og Munda sem ber einmitt titilinn Randalín, Mundi og afturgöngurnar (2015). Randalín og Mundi telja sig sjá afturgöngu í garðinum heima hjá Randalín eina nóttina, sem reynist reyndar við nánari athugun ekki vera afturganga, en það kemur ekki í veg fyrir frekari hugleiðingar þeirra um handanlífsverur. Í síðari hluta sögunnar fá þau svo tækifæri til að setja sig í spor slíkra vera þegar þau fá hlutverk aukaleikara í kvikmynd um uppvakninga sem tekin er upp norður í landi.
Andvökunætur mætti ef til vill greina sem tilvistarlegt stef og ljóðmælandi í verkum Þórdísar er stundum andvaka og vakir að nóttu. Ástæðurnar fyrir vökunóttunum virðast vera ýmis konar áhyggjur og léttvægur kvíði. Fyrrnefnd kona á skrifstofu virðist eiga erfitt með svefn af þessum ástæðum, en það á einnig við um ljóðmælanda í ljóðinu „Vor“ í sömu bók sem hugsar um atriði eins og prinsinn í sögunni um Þyrnirós á nóttunni á meðan aðrir sofa. Andvökur annars skálds koma upp í hugann en sá átti víst erfitt með svefn og samdi flest sín ljóð á nóttunni á meðan hann hugsaði til hinnar fjarlægu ættjarðar. Svo virðist sem ljóðagerð og andvökunætur fari vel saman og tengist einhverjum óskilgreindum böndum. Þá glímir aðalpersónan í glænýrri skáldsögu Þórdísar, Horfið ekki í ljósið, sem jafnframt er hennar fyrsta, einnig við andvökur.
Sú bók fjallar um Klöru sem getur ekki sofið og finnst kjörið að nota næturnar til að skrásetja sögu sína. Hún rifjar upp æsku sína í Hafnarfirði en hún ólst meðal annars upp hjá þýskri ömmu sinni, nálægt klaustursystrunum kaþólsku sem virðast hafa haft mikil áhrif á uppeldi hennar en hún ákvað að láta ferma sig að kaþólskum sið. Um leið og hún rifjar upp liðna atburði veltir hún einnig fyrir sér ástandi sínu, að geta ekki sofið, og vísar í aðrar bókmenntir, en það gefur til kynna að andvökur skapi ákveðna hefð innan bókmennta. Og sú er raunin því Klara fjallar til dæmis um andvökur Marcels Proust sem gáfu af sér tímamótaverkið Í leit að glötuðum tíma þar sem franska skáldið fjallar um dægurvillu sína og hvernig minningar fortíðar leita á hann í andvökuástandinu. Hún segir ennfremur að Proust ætti að vera verndardýrlingur „dægurvillinga“ og þeirra sem geta ekki slökkt á huganum til þess að sofna. Það er mikið aðdráttarafl fólgið í pælingum Klöru um andvökur og skáldskap og á einum stað vísar hún til finnlandssænskrar skáldkonu að nafni Edith Södergran sem hélt því fram að vægt svefnleysi yki snilligáfuna. Klara vill snúa þessu við og veltir fyrir sér hvort svefnleysi sé ekki frekar óhjákvæmilegur fylgikvilli snilligáfu.
Þá má ímynda sér að kápumyndin á Óvissustigi daðri kærusleysislega við tilvistarstefnuna en ljósmyndir og blaðaúrklippur skipa ákveðinn sess í verkum skáldsins. Þær eru ekki notaðar til myndskreytinga heldur birtast sem merkingaraukar en ljóðin sem fylgja þeim minna á viðbrögð við tiltekinni mynd. Ljósmyndir ramma inn strætóferðina í Tilfinningarökum og í Velúr má finna ýmsar blaðaúrklippur sem skáldið spinnur út frá. Til dæmis frétt um andlát Johns Lennon sem ljóðmælandi rifjar upp frá sínu sértæka sjónarhorni. Fyrrnefnd kápumynd er ljósmynd af óskilgreindum húsvegg með nokkrum gluggum, en einn þeirra er opinn upp á gátt og fótleggir hvíla á gluggasyllunni. Svo virðist sem einhver hafi séð tækifæri til að leggjast í sólbað, að minnsta kosti að leyfa fótleggjunum að sleikja sólina dálitla stund. Kannski er það skáldkonan sjálf sem hefur dvalið í húsinu við vinnu; kannski er húsið á erlendri grundu, einhvers staðar þar sem sólin lætur oftar sjá sig en í heimalandi skáldsins og hefur að þessu sinni hvatt hana til að gera hlé á skrifunum. Ljósmyndin er lituð hlýjum gulum lit og fyrir ofan gluggann er búið að prenta titil bókarinnar; Óvissustig. Hér mætti færa rök fyrir því að samspil myndarinnar og titilsins gefi til kynna að sólbaðspásan sé ákveðin leið til að takast á við hin ýmsu óvissustig í lífinu. Því hvað er annað hægt að gera þegar tómið blasir við í allri sinni kvíðvænlegu mynd en að setja upp sólgleraugu og slaka stundarkorn á?
Það er eitthvað skandinavískt við ljósmyndina á bókakápunni og kannski eru þau hugrenningatengsl tilkomin vegna þess að Þórdís er þýðandi sænskra bókmennta. Að sama skapi er eitthvað skandinavískt við þau Randalín og Munda. Enda ekki að furða ̶ bestu barnabækurnar koma frá Svíþjóð og ljóst að Þórdís sækir sér innblástur þangað. Eitthvað við stemmninguna í sögunum um Randalín og Munda minnir á andrúmsloftið í bókum Astridar Lindgren til dæmis. Þrátt fyrir skandinavísku áhrifin er sögusviðið í fyrstu bókinni um Randalín og Munda Reykjavík eins og hún birtist í fyrrnefndu göngutúrsljóði, en vinirnir heimsækja til dæmis Braga bóksala í fornbókabúðinni Bókinni á Klapparstíg. Barnabækur Þórdísar myndu tæplega flokkast sem fantasíur, því rétt eins og á við um ljóðin eru þetta fyrst og fremst raunsæislegar frásagnir, ýmist hjúpaðar húmorískum, huggulegum eða írónískum blæ, og standa íslenskum lesendum nærri því þeir kannast vel við umhverfið og aðstæðurnar.
Vera Knútsdóttir, 2018
Greinar
Um einstök verk
Leyndarmál annarra
Úlfhildur Dagsdóttir: „Að hafa eitthvað að segja“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Óvissustig
Úlfhildur Dagsdóttir: „Lífið er óboðinn gestur“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Randalín og Mundi í Leynilundi
María Bjarkadóttir: „Starar í kamínunni“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Tilfinningarök
Vera Knútsdóttir: „Það er gott að hugsa í strætó“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Velúr
Vera Knútsdóttir: „Margbrotin minni I“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Verðlaun
2020 - Múmínálfarnir, stórbók, þriðja bindi hlaut Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana sem best þýdda barnabókin. Í henni eru textar þýddir af Guðrúnu Jarþrúði Baldvinsdóttur, Steinunni Briem og Þórdísi Gísladóttur.
2012 - Randalín og Mundi hlaut Fjöruverðlaunin og Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana
2010 - Leyndarmál annarra hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar
TILNEFNINGAR
2021 - Álabókin eftir Patrik Svensson tilnefnd til Íslensku þýðingaverðlaunanna
2021 - Múmínálfarnir - Seint í nóvember eftir Tove Jansson tilnefnd til Barnabókaverðlauna Reykjavíkur í flokki þýddra bóka
2017 - Óvissustig tilnefnd til Maístjörnunnar
2016 - Doddi – Bók sannleikans! tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna, Fjöruverðlaunanna og Bókmenntaverðlauna Reykjavíkurborgar
2015 - Randalín, Mundi og afturgöngurnar tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Fjöruverðlaunanna
2014 - Velúr tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna
2013 - Allt er ást eftir Kristian Lundberg tilnefnd til Íslensku þýðingarverðlaunanna
Aðlögun
Lesa meiraAllt er á rúi og stúi, / bananaflugur sveima um eldhúsið, / lítil dýr hafa búið um sig í blómapottunum, / ég er ekki upp á mitt besta.Aksturslag innfæddra
Lesa meiraHér er greint frá atburðum sem gætu virst hversdagslegir og smávægilegir við fyrstu sýn en ef lesið er á milli línanna endurspegla þeir stærri og flóknari hliðar tilverunnar.. .Randalín og Mundi : Dagar í desember
Lesa meiraVinirnir Randalín og Mundi lenda í miklum ævintýrum í jólamánuðinum, . gera góðverk og óvart skemmdarverk.Alger steliþjófur!
Lesa meira- Hann tók litla dótið, sagði Irma Lóa allt í einu og var greinilega frekar æst. Hann er algjör frekja þessi karl.Nú er nóg komið
Lesa meiraStelpur í 8. bekk þurfa að endurskoða öll sín áform þegar óvæntur heimsfaraldur mætir til landsins. Þó að þær Vigdís Fríða, Geirlaug og Rebekka þurfi að húka heima í sóttkví er alveg óþarfi að láta sér leiðast! Það má alltaf finna sér óvænt verkefni, eins og að reka sjoppu eða njósna um dularfulla nágranna sem virðast hafa eitthvað óhreint í pokahorninu.Hingað og ekki lengra!
Lesa meiraHingað og ekki lengra! fjallar um Vigdísi Fríðu og vinkonur hennar, þrettán ára stelpur sem láta ekki valta yfir sig.Randalín, Mundi og leyndarmálið
Lesa meiraMislæg gatnamót
Lesa meiraHorfið ekki í ljósið
Lesa meira
Smáatriðin
Lesa meiraSmáatriðin er skáldsaga í fjórum þáttum sem lýsir fáeinum manneskjum og óteljandi smáatriðum. Saga um afhjúpandi samskipti og forvitnilegt fólk.. . Þórdís Gísladóttir þýðir úr sænsku.Álabókin
Lesa meiraMinningar múmínpabba
Lesa meiraLitlu álfarnir og flóðið mikla
Lesa meiraVelkomin til Ameríku
Lesa meiraAllt sem ég man ekki
Lesa meiraSkuggadrengur
Lesa meiraÍ leyfisleysi
Lesa meiraEldur
Lesa meira