Um bókina
Dagný, Konáll, Soffía og Pétur reyna að fóta sig í gráa heiminum sem óbreyttir menntskælingar eftir að hafa neyðst til að flýja Tudati. Þrátt fyrir að vera komin heim er Dagný óróleg. Ástandið er undarlegt eftir endurkomu týnda bróðurins og lögreglan er með þau undir eftirliti, auk þess sem Dagný er ósátt við að hafa yfirgefið Álfheima þegar mest á reyndi, sjálf drottning eldsins. Og enn eru ekki öll kurl komin til grafar.
Hvað vill lögreglumaðuirnn Gunnar þeim? Er Ylfa álfur? Leynist eitthvað í egginu sem Filippus tók með sér yfir í gráa heiminn? Eru mannheimar í raunverulegri hættu?
Gyðjan er lokaþáttur í bókaflokki prófessors Ármanns Jakobssonar um fjögur ungmenni í heimi álfanna. Áður hafa komið út Bróðirinn, Risinn og Ófreskjan.
Úr bókinni
Pétur dró þá upp reipi sem síðan liðaðist upp í loft. Sennilega hafði hann náð sér í þetta þarfaþing eftir að hafa lesið um það í bók Ramasins. Dagný ákvað að reka lestina þegar þau fundu dyrnar og klifruðu upp, þó að ekki væri nema til að ýta undir soffíu þeim varð enginn klifurköttur. Hún óttaðist ekki beinlínis hið ókunna en hefði samt þegið að vita hvað væri hinum megin við dyrnar.
Þegar hún var komin upp og inn voru þau stödd í risavöxnum sal. Gull glitraði á veggjum og hún sá brátt að þar voru vopn af öllum stærðum og gerðum. sverð, bogar,axir og hnífar voru í öndvegi en líka fágætari tól, þar á meðal nokkrar djúphleypur. Það vakti mesta athygli hennar hversu hrein og glansandi vopnin voru.
Þetta hlaut að vera álfasmiðja. Zemdem siðameistari hafði sagt þeim að álfar væru þekktir í heimunum níu sem fremstir allra smiða en hún hafði verið þreytt þann dag og erindi hans ævinlega svo fullt af óþarfa að hún áttaði sig ekki alltaf á því hvað ætti að leggja á minnið. Leiðin til Lupitrom lá greinilega um langstærstu smiðju Tudati en hún virtist yfirgefin. Þegar hún leit í kringum sig sá hún líka friðsamlegri verkfæri og jafnvel skrautgripi. Meðal annars á einum vegg líkneski sem hún sá ekki betur en væru af þeim fjórum. Sjálf var hún með boga og ljón sér við hlið og hin þrjú þekktust af geddunni, uglunni, bifrinum og þeirra vopnum. Aldrei hafði hún séð slík líkneski í höllinni en greinilega voru þau eigi að síður til í Álfheimum. Fleiri styttur sá hún á víð og dreif innan um aðra smíðisgripi.
(s.66)