Beint í efni

Álfheimar: Bróðirinn

Álfheimar: Bróðirinn
Höfundur
Ármann Jakobsson
Útgefandi
Angústúra
Staður
Reykjavík
Ár
2021
Flokkur
Ungmennabækur

Um bókina

Pétur er nýfluttur heim frá París til að hefja nám í menntaskóla og fær inni hjá gamalli frænku. Hann eignast strax vini í skólanum, þau Konál og Soffíu, og kynnist einnig hinni fögru Dagnýju sem sveipuð er dulúð eftir að litli bróðir hennar hvarf sporlaust tíu árum áður. Ekki líður á löngu þar til Pétur áttar sig á að einhver fylgist með hverju skrefi hans. Hverjir sitja um hann og hvers vegna? Eru það undarlegu nágrannarnir í næsta húsi eða er lausnin jafnvel enn fjarstæðukenndari? Og af hverju er Sæunn frænka alltaf að tala um álfasteina … álfar eru bara til í sögum - ekki satt? 

Bróðirinn er fyrsta bókin af fjórum um fjögur ungmenni í heimi álfanna eftir prófessor Ármann Jakobsson. 

Úr bókinni

Þegar Pétur rölti heim til sín þennan dag svipaðist hann um eftir Benzinum mikilfenglega en sá hann hvergi. Ekki leið honum þó betur við það. Eins og þegar geitungur sem hefur verið að ónáða mann hverfur skyndilega fannst honum eiginlega ívið skárra að hafa ógnina í sjónmáli. En auðvitað gat þetta verið tilviljun og þurfti ekki að vera ískyggilegt. 

   - Hvað heitir aftur konan í næsta húsi? Spurði hann sakleysislega við kvöldmatarborðið. - Þessi á flotta Benzinum? 

   Hann reyndi að láta það hljóma eins og hann væri fyrst og fremst áhugasamur um bílinn. Sæunn væri vonandi of niðursokkin í að skammta honum gúllas á disk til að velta fyrir sér hvaðan þessi skyndilegi áhugi á grönnunum kæmi. 

   - Ég man ekki hvað hún heitir, sagði gamla konan og hrukkaði ennið. - Hvað þá hann. Eitthvað undarlegt, minnir mig. Þetta er ekta ungversk uppskrift sem austurrískir vinir mínir kenndu mér. Ef ég veit þá yfirleitt hvað þau heita; það er ekki eins og neinn kynni sig lengur. Það var frábær matur í Búdapest. En þau eru furðufyrirbæri, þetta par. Hann sérstaklega. Svona fólk eins og ég vissi ekki að væri til. Ekki borða bara kjötið. Hér áður fyrr voru nágrannarnir manneskjur … ég veit ekki hvað gerðist en ég kenni níunda áratugnum um. 

   Pétur var hissa og hlessa og skildi ekki alveg þetta með níunda áratuginn. 

   - Eru þau ekki manneskjur? Spurði hann varfærnislega. 

   - Ég er satt að segja ekki viss, dæsti Sæunn. - Veit varla hvernig manneskjur eru nú um stundir. Kannski tók tegundin Homo sapiens svo rækilegum breytingum nýlega að ég skil fólk ekki lengur. Stundum tekur líka tíma að kynnast því. Það er svo sem ekki hægt að útiloka neitt. Er þetta of heitt? Það þarf helst að vera vel heitt en þó ekki brennandi. En mér finnst þau eitthvað … öfugsnúin, þessi tvö. Eins og það vanti eitthvað í þau. Vonandi gleymdi ég ekki paprikunni. 

   Pétur stakk allt of stórum og heitum bita upp í sig, gætti sín ekki vegna þess að hann var upptekinn ef því sem gamla konan sagði. Reyndi samt að láta á engu bera til að hún hætti ekki að tala . 

   - Hafsteinn hló stundum að mér vegna þess að ég hafði alls konar á tilfinningunni um fólk en það gekk raunar yfirleitt eftir. Eins og forstjórinn sem bjó þarna fyrir 30 árum sem síðan varð gjaldþrota og skaut sig. 

   - Varst þú búin að spá því? 

   - Ég sagði honum strax að það væri ekki allt með felldu, sagði hún hróðug. - Um leið og ég sá manninn. Enda kom það á daginn að hann hafði … 

   - En þessi tvö í næsta húsi? spurði Pétur hraðmæltur. 

   Óttaðist að frekari dæmi frá fyrri öldum fylgdu í kjölfarið en reyndi samt að láta eins og fyrir honum vekti aðallega að heyra meira um spádómsgáfu hennar. 

   - Það er eitthvað bogið við þau, sagði Sæunn hægt. - Ég finn það sterkt á mér. En ég veit ekki nákvæmlega hvað. Satt að segja veit ég mest lítið um fólkið sem nú býr í götunni. Áður heilsuðust allir og töluðu saman. Ekki of stóra bita, Pétur minn, þá brennirðu góminn. Við fögnuðum áramótunum saman og okkur var boðið öðru hvoru í nánast hvert hús. En það er liðin tíð. Það er varla nokkur hér lengur sem ég hef spjallað við að neinu ráði. 

   Pétur beit á vörina, hættur að borða í bili. Ekki vildi hann missa samræðurnar alfarið út í almenna öfugþróun mannlífsins þó að Sæunn væri greinilega messufær um það efni. Samt leit ekki heldur út fyrir að hún vissi mikið um nágrannana og hann var forvitinn um fleira fólk þannig að hann færði sig nú aðeins til. 

   - En fólkið í 22? 

   - Þau? Já, auðvitað, stelpan er í skólanum með þér. Eruð þið í sama bekk? 

   - Reyndar, sagði Pétur flóttalega. - En við þekkjumst ekkert. Hún lætur eins og hún sjái mig ekki. 

   - Að sjálfsögðu gerir hún það, sagði Sæunn og horfði beint á hann. - En hún sér þig. Hafðu engar áhyggjur. Fyrr eða síðar mun hún tala við þig.

(bls. 20-22) 

Fleira eftir sama höfund

álfheimar risinn

Álfheimar: Risinn

Risinn er önnur bókin af fjórum um fjögur ungmenni í heimi álfanna, sú fyrsta var Bróðirinn
Lesa meira

Útlagamorðin: saga um glæp

Lesa meira

Brotamynd

Lesa meira

Síðasti galdrameistarinn

Lesa meira

Glæsir

Lesa meira

Fréttir frá mínu landi. Óspakmæli og örsögur

Lesa meira

Vonarstræti

Lesa meira

Urðarköttur: saga um glæp

Lesa meira

Bölvun múmíunnar

Lesa meira