Um bókina
Þetta er trúnaðarbréf Hlínar Agnarsdóttur til lesenda. Á opinskáan og einlægan hátt segir hún frá sextán ára sambúð með manni sem glímdi við alkóhólisma öll helstu manndómsárin og dó langt fyrir aldur fram úr krabbameini. Bókin var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2003.
Hlín sýnir okkur hér inn í heim aðstandandans, sem hún kallar mótleikara í hinum hættulega tvíleik. Fíknin herjar ekki eingöngu á þann drykkfellda heldur smitar út frá sér og brýtur niður þá sem standa honum næst.
Úr bókinni
Ég var að verða 29 ára þegar ég kynntist alkóhólistanum í lífi mínu. Þegar samband okkar hófst átti ég að baki eitt hjónaband sem stóð í rúm fimm ár og einkenndist fullmikið af helgardrykkju og framhjáhaldi með tilheyrandi sársauka og eitt tveggja ára samband við ungan sænskan mann sem elskaði mig skilyrðis- og fölskvalaust. Því miður gat ég ekki endurgoldið ást hans með sama hætti. Líklega var hann of heilbrigður og venjulegur fyrir mig, ég var svo sár og niðurbrotin eftir skilnað sem reyndi tilfinningalega á þolrifin. Ég átti erfitt með að sætta mig við að hafa beðið ósigur í ástinni. Mér fannst ég, ung konan, eiga svo mikið inni hjá hamingjunni. Ég gat ekki sætt mig við að mér hefði mistekist í einkalífinu.
Ég er fjórða barnið í hópi sex systkina. Foreldrar mínir eignuðust fimm börn þegar þau voru innan við þrítugt. Það var stutt á milli okkar og því oft ansi líflegt á heimilinu. Stundum full líflegt, það varð að hafa hemil á öllu þessu organdi, hamslausa lífi. Faðir minn vann úti allan daginn og móðir mín sá um heimili og börn. Ég var dugnaðarkrakki, mér gekk vel í skóla, var frísk og hafði afar mikla líkamlega orku sem ég fékk útrás fyrir í útileikjum, dansi og íþróttum seinna meir. En orkunni fylgdi líka mikið skap og heitar tilfinningar, stundum svo ofsafengnar að mömmu fannst ég mesta óhemja. En ég var líka mjög viðkvæm og oft döpur. Ég var aðeins 9 ára þegar ég gerði mér grein fyrir að við myndum öll deyja einn góðan veðurdag og ég átti erfitt með að sætta mig við þá tilhugsun. Þegar dauðaangistin var að fara með mig, gat ég ekki hugsað mér að snerta síðurnar í Morgunblaðinu þar sem dánar- og jarðarfaratilkynningar voru birtar, hvað þá síðurnar með minningargreinunum. Vandi mig á að taka þessar síður saman milli vísifingurs og þumals og fletta þeim öllum í einu, svo ég yrði ekki minnt á dauðann.
Á heimilinu var ekki mikið pláss til að ræða tilfinningar, hvorki þær sem snertu dauðaangist né persónulegar kenndir um lífið yfirleitt. Slíkt var flokkað sem óþarfa tilfinningasemi og ég lærði því smátt og smátt að afneita þeim ásamt öðrum þörfum, sérstaklega þeim er lutu að innri líðan. Pabbi hafði bara eitt mottó í lífinu og það var að vera duglegur.
(s. 16-17)