Beint í efni

Yfirsjónir

Yfirsjónir
Höfundur
Hlín Agnarsdóttir
Útgefandi
Storytel
Staður
Reykjavík
Ár
2022
Flokkur
Smásögur

Um bókina

Yfirsjónir er „sagnasveigur um hrollvekjandi nánd“ sem einvörðungu kemur út á Storytel. Í sögunum, sem eru tengdar smásögur, er fjallað um samskipti kynjanna og í þeim öllum er einhvers konar ofbeldi í spilunum.

Úr bókinni

Upphaf af einni af sögunum fimm sem mynda sagnasveiginn Yfirsjónir og Storytel gaf út 2022.

Endurfundir 

Já, ég ákvað að taka leigubíl frá flugvellinum í stað þess að fara í rútuna. Munaður sem ég leyfði mér sjaldan. Fannst að vísu ekki sérlega þægileg tilhugsun að aka langa leið ein með ókunnugum manni undir stýri. Þegja saman í uppundir eina klukkustund. Ég hef aldrei verið spjallari. Kann ekki að tala um Ekki neitt. Jú, kannski veðrið ef það er Ekki neitt. Veðrið skiptir öllu máli og alveg sérstaklega í þetta sinn af því ég var að koma heim eftir margra ára hlé. Mig dreymdi alltaf um landið í sumarklæðum. Júlí var alltaf minn mánuður. Eini alvöru sumarmánuðurinn. Það var komið langt fram í maí og sólin skein á heiðum himni. Ég ætlaði að njóta landslagsins í botn. Svo miklu betra að vera ein í bíl heldur en að kúldrast í rútu fullri af ferðamönnum. Ég átti erfitt með að venjast tilhugsuninni um að mamma væri dáin. Ég fengi líklega einhvern arf eftir hana sem þýddi að hagurinn vænkaðist örlítið. Ég var komin heim til að ganga frá jarðarförinni og dótinu hennar. Það var víst enginn annar til þess. Svona var að vera eina barn móður sinnar.

Við höfðum ekki hist svo oft frá því ég flutti fyrir fullt og allt úr landi. Mamma hafði aðeins komið tvisvar að heimsækja mig þessi þrjátíu ár sem ég hafði búið erlendis. Í fyrra skiptið þegar ég gifti mig og í seinna skiptið þegar fyrsta barnið fæddist nokkrum árum síðar. Það tók mig nokkur ár að eignast mitt fyrsta barn. Endalaus móðurlífsvandræði. En loksins varð ég ólétt og maðurinn minn gat ekki beðið eftir að barnið kæmi í heiminn. Hann hafði ekki hugmynd um að ég hafði orðið ólétt einu sinni áður en við kynntumst. Og ég ætlaði aldrei að segja honum það. Ef til vill orsakaði fóstureyðingin að ég átti í þessum óléttuvandræðum.

Þetta var ég að hugsa á meðan ég stóð við færibandið og beið eftir töskunni minni ásamt hinum sem flugu með mér frá London. Mamma bar alltaf við flughræðslu þegar ég reyndi að fá hana til að heimsækja okkur í London. Samt fór hún reglulega til Kanaríeyja og var ekki í nokkrum vandræðum með að fljúga þangað alla leið frá Íslandi.

 - Æi, Elín mín, það er allt öðruvísi, þá er maður í hóp, sagði hún afsakandi, en þegar ég flýg til London er ég ein og ekki eins örugg með mig.

Ég vissi alveg að flughræðsla var ekki ástæðan fyrir því að hún heimsótti mig ekki. Henni líkaði aldrei við manninn sem einkadóttir hennar giftist. Hann var ekki nógu fínn fyrir hana. Þénaði ekki nóg. Hann var bara óbreyttur hljóðfæraleikari í sinfóníuhljómsveit. Spilaði á klarinett sem mömmu fannst ekki mikið til koma. Reyndar þoldi hún ekki blásturshljóðfæri. Bannaði mér að æfa mig heima á blokkflautuna sem allir krakkar lærðu á í barnaskóla.

Hugsa sér. Hún kom bara tvisvar sinnum að heimsækja mig á þessum þrjátíu árum.

Ég sem fór kornung sem au pair til íslenskra læknishjóna í London. Aðeins rúmu ári eftir fóstureyðinguna. Ég kláraði grunnskólann, gerði tilraun til að fara í menntaskóla en flosnaði upp í tvígang. Ég vildi bara komast burtu úr þessu landi og helst sem lengst frá því.

Já, þetta var ég að hugsa þegar eiturgræn taskan sigldi á færibandinu í átt til mín. Svo gott að ferðast með svona skærlitar töskur sem maður þekkir um leið og þær birtast. Ég kippti henni rösklega af bandinu og rúllaði henni á eftir mér í gegnum flugstöðina. Hvað ætli ég hafi komið oft út úr þessari flugstöð án þess að nokkur tæki á móti mér. Í hvert sinn vonaði ég að hún stæði við útganginn. Í hvert sinn vonaðist ég til að vera velkomin. Eins og nýfætt barn. Að hver heimkoma væri endurfæðing eða endurfundir svo ég og mamma gætum kynnst á ný. En hún kom aldrei, þótt hún ætti alltaf ágætis bíl. Annað hvort var hún of upptekin eða akstursskilyrðin voru ekki nógu hagstæð fyrir hana. Í fyrstu heimsóknunum gisti ég hjá mömmu á svefnsófa í stofunni en fann að það fór í taugarnar á henni. Allt of mikið umstang að hafa til rúmföt og þurfa að ýta til húsgögnum í stofunni svo hægt væri að breiða út rúmið í svefnsófanum.

- Æi, Elín mín, það er bara svo lítið pláss hérna.

Og eftir að ég eignaðist annað barnið og fór með það til Íslands til að sýna mömmu nýja afkomandann, kom til alvarlegra árekstra milli okkar sem endaði með að ég hrökklaðist á hótel með barnið. Það var eins og ég væri alla tíð fyrir mömmu minni. Óþægilegur pakki úr fortíðinni, fortíð sem ég hafði engan aðgang að. Vissi aldrei hver hann var þessi Jóhann sem átti víst að vera faðir minn. Eftir þessa misheppnuðu heimsókn bjó ég nokkrum sinnum inni á vinkonu minni þegar ég var á landinu. Þessari sem vísaði mér til þín. Hún ein vissi hver barnaði mig eftir útskriftarballið úr grunnskólanum.

Þú ert semsagt komin út úr flugstöðinni og ... ?

Já, ég var komin út í íslenskan vorkuldann. Stóð á stéttinni með eiturgræna töskuna. Veifaði í átt að leigubíl sem renndi sér hratt og snögglega upp að mér. Bílstjórinn var þó ekki að hafa fyrir því að koma út úr bílnum til að hjálpa mér með töskuna. Hann opnaði farangurshólfið innanfrá og ætlaðist greinilega til að ég setti töskuna mína þangað ein og óstudd.

Fleira eftir sama höfund

Bókmenntavefur Borgarbókasafnsins

Flóttamenn

Leikritið Flóttamenn var skrifað 2011 og leiklesið 2016 í Scandinavian House á Park Avenue í New York á vegumScandinavianAmericanTheaterCompany.. .  
Lesa meira
Bókmenntavefur Borgarbókasafnsins

Konur skelfa

Leikritið Konur skelfa var sýnt í Borgarleikhúsinu 1996-1997. Leikritið gerist inni á kvennasnyrtingu á skemmtistað í Reykjavík. . .  . .  
Lesa meira

Hilduleikur

Hvaða hjarta var það sem ætlaði að finna heildarlausn á framtíðarskipan hennar mála? Gaman væri að hitta það hjarta, hvar sem það sló. Það hlyti að vera stórt hjarta. Hugsa sér til hreyfings? Framhaldslíf?
Lesa meira
hátt uppi við norðurbrún kápa

Hátt uppi við Norðurbrún

Adda þoldi ekki þessa klökku harmþrungnu rödd konunnar sem léði talhólfinu rödd sína. Þetta var fullkomin höfnun, enginn hringdi inn á talhólfið þegar maður þurfti mest á því að halda.
Lesa meira
blómin frá maó kápa

Blómin frá Maó

Kjarnmikil íslenskan mín féll Finni má líka einkar vel í geð, sérstaklega kotroski tónninn sem ég erfði frá ömmu og öllu hennar kyni. Það sem gerði þó útslagið var norðlenski framburðurinn, sérstaklega fráblásnu káin, péin og téin í lok sagnorða í lýsingarhætti þátíðar að ógleymdum rödduðu samhljóðunum.
Lesa meira
að láta lífið rætast kápa

Að láta lífið rætast

Þetta er trúnaðarbréf Hlínar Agnarsdóttur til lesenda. Á opinskáan og einlægan hátt segir hún frá sextán ára sambúð með manni sem glímdi við alkóhólisma öll helstu manndómsárin og dó langt fyrir aldur fram úr krabbameini.. .  
Lesa meira
einlífi kápa

Einlífi

Samt þráðum við vin, gáfaðan vin, sem væri í djúpu sambandi við eigin tilfinningar, skemmtilegan vin og síðast en ekki síst sem byggi yfir andlegum og líkamlegum kynþokka.
Lesa meira
meydómur kápa

Meydómur

Krakkahópnum á leikvellinum finnst hún ægilega hlægileg með gleraugu, svona óskaplega lítil stelpa á ekki að vera með gleraugu. Það eru bara gamlir karlar og kerlingar sem eru með gleraugu. Hún er kerlingarbarn. Henni finnst hún því eldast langt fyrir aldur fram, ekki vera eins og hinir krakkarnir og ekki nóg með það, hún er með sjónskekkju og gleraugun hennar eru alveg ógurlega sterk.. .  
Lesa meira