Um verkið
Leikritið Flóttamenn var skrifað 2011 og leiklesið 2016 í Scandinavian House á Park Avenue í New York á vegumScandinavianAmericanTheaterCompany.
Leikritið gerist inni á heimili móðurinnar þar sem uppkomnir synir hennar Bói og Deddi búa og dóttir hennar Vala kemur í heimsókn frá New York til að taka á móti bjartsýnisverðlaunum.
Úr verkinu
Bói: ... ef það verða samskonar sólgos og urðu á nítjándu öldinni fyrir daga rafmagnsins þá er hætt við allt þurrkist út, öll fjarskipti, farsíminn, internetið, heimurinn verður rafmagnslaus, hugsaðu þér, þú getur ekki sett í þvottavél, ekki kveikt á tölvu, hvað þá útvarpi eða sjónvarpi, allur heimurinn verður rafmagnslaus.
Móðirin: Nú, þannig var það alltaf hér áður fyrr og ég veit ekki betur en mannkynið hafi lifað það af. Hér erum við, sjáðu okkur. Við erum lifandi. Sprelllifandi.
Bói: Já, það lifði það af, af því það hafði ekki vanið sig á öll þægindin sem fylgja rafmagni.
Móðirin: Það var ekkert rafmagn til að venja sig á ...
Vala: ... og þess vegna lifði það ekki af, það bara lifði, ef eitthvað er ekki til, þá er það ekki til og það þarf ekki að hugsa meira um það
Móðirin: ... nema það hafi alltaf verið til ...
Bói: ... rafmagn hefur alltaf verið til en við vissum ekki af því ...
Móðirin: Allt sem er til hefur alltaf verið til.
(Síminn hringir aftur en enginn svarar)
Vala: Af hverju svarið þið ekki í símann? Á ég að svara?
Móðirin: Það er óþarfi að svara.
Bói: Þetta eru bara rukkarar að eltast við Dedda. Hann ...
Móðirin: Vala fékk verðlaun og er að fara til forsetans. Vala hefur alltaf verið bjartsýnust allra minna barna, hún trúir á mannkynið sama á hverju gengur og það endurspeglast í verkum hennar eins og stóð í blaðinu í gær.
Vala: Var skrifað um mig í blöðunum í gær?
Móðirin: Það stendur að þú sért einn helsti umhverfislistamaður heimsins.
Bói: Fyrir hvað fékkstu verðlaun?
Vala: Það hlýtur að standa í blaðinu, er það ekki mamma, komdu með blaðið.
Móðirin: (Nær í blaðið og les) „Vala Theódórs hlýtur verðlaunin í ár fyrir listrænt framlag sitt til umhverfismála á undanförnum árum en verk hennar Einn heimur, ein sál hefur farið sigurför um allan heim og hvarvetna vakið athygli og stuðlað að aukinni umræðu um hlutskipti mannsins á tímum loftslagsbreytinga“ – ég er oft að spekúlera þegar tekið er svona til orða, sigurför um allan heim, er þá átt við allan heiminn eða bara þann sem við búum í ...
Bói: Bara þann sem við búum í.
Vala: Við búum öll í sama heiminum.
Móðirin: Nei, við gerum það nefnilega ekki. Við búum í hinum vestræna heimi ... en fyrir utan hann er til annar heimur sem er miklu, miklu stærri ...
Bói: Alheimurinn, al, al, alheimurinn endalaus.
Vala: Þú meinar ...
Móðirin: Já, ég meina það og þess vegna spyr ég; hefur verkið þitt farið sigurför um allan heim eða bara þann vestræna? Sko í morgun dreymdi mig að hingað kæmi sendinefnd. Dyrasíminn hringdi og ég fór til dyra og þá stóð ókunnugt fólk á tröppunum, maður á aldur við Bóa, óskaplega óttasleginn en myndarlegur þó, ung barnshafandi kona, líklega dóttir mannsins, gamall maður allur kaunum sleginn og svo einhver með svona sjal vafið um höfuðið...
Bói: Talíbani
Móðirin: Já, einmitt talíbani og þau sögðu að Sameinuðu þjóðirnar hefðu sent þau til mín og spurðu hvort þau mættu koma inn.
Vala: Og hvað vildi þessi sendinefnd mamma mín?
Móðirin: Nú húsaskjól eins og þú, griðastað undan stríðum, pestum, hungri og annarri óáran, þau töluðu tungumál sem ég skildi ekki en samt skildi ég hvert einasta orð sem þau sögðu ... þau grátbáðu mig um húsaskjól en ég sagði að því miður væri allt fullt hjá mér, þau sögðust geta legið á stofugólfinu en ég sagði að þau gætu ekki legið á berum steininum og þá fórnaði gamli maðurinn höndum og leit til himins og ákallaði Allah, stúlkan grét og við það hringdi dyrabjallan aftur ...
Vala: Og sendinefndin ÉG stóð á tröppunum ...
Móðirin: Einmitt, mín eigin dóttir stóð á tröppunum og mér var afskaplega létt að sjá þig. Ég hef saknað þín. Lengi. Afhverju ertu ekki hjá okkur? Komdu heim