Um bókina
Í ekki allt of fjarlægri framtíð á Hilda í baráttu við öldrunariðnaðinn í líki fyrirtækisins Futura Eterna sem sér um skipulagningu ævikvöldsins.
Hún er ljóðelsk kona, telst vera komin á „aflifunaraldur“ en sættir sig ekki við þá skilgreiningu og atburðarásin tekur óvænta stefnu. Spennandi, harmræn og launfyndin framvinda með óvæntum endi kallast á við óvenjulegt pestarástand samtímans með gagnrýnum undirtón.
Hilduleikur er þriðja skáldsaga Hlínar Agnarsdóttur. Áður hafa komið út eftir hana Hátt uppi við Norðurbrún (2001) og Blómin frá Maó (2009). Að auki skrifaði hún bókina Að láta lífið rætast – ástarsaga aðstandanda (2003) sem var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki fræðirita og bóka almenns efnis.
Úr bókinni
Andskotinn sjálfur, gátu þeir ekki kallað hana Hildu? Fátt fór jafn mikið í taugarnar á henni og þegar hún var ávörpuð með fullu nafni. Svo var það orðið hjartanlega, tvisvar sinnum í sama bréfi! Hvaða hjarta var það sem ætlaði að finna heildarlausn á framtíðarskipan hennar mála? Gaman væri að hitta það hjarta, hvar sem það sló. Það hlyti að vera stórt hjarta. Hugsa sér til hreyfings? Framhaldslíf?
Þetta voru ekki ofskynjanir, hún var ekki með þvagfærasýkingu, þetta stóð allt í bréfinu.
Til að ganga úr skugga um að hún væri með réttu ráði opnaði hún tölvuna og kannaði hvort þetta fyrirtæki væri til í alvörunni. Hún hafði varla lokið við að skrifa orðið futura þegar fyrirtækið spratt fram á skjánum með síbreytilegum lifandi myndum af hamingjusömu fólki á mestu gleðistundum lífsins, svo yfir sig hræðilega hamingjusamt með foreldrum, mökum, börnum, barnabörnum og vinum í fallegum og björtum híbýlum. Æviskeiðið þaut hjá í átt að ævikvöldinu langþráða, hvíldinni sem allir þráðu við arineld og kertaljós eftir þrælahald lífsins. Grænir og gulir litir voru áberandi, tré, blóm og gróður kringum fólk og hús, grænir garðar með bekkjum, börn að leik, sólskin og gæludýr. Myndirnar minntu hana á skrautlegar auglýsingar frá bönkum og fasteignasölum eða bæklinga frá Vottum Jehóva sem gömul frelsuð vinkona hafði eitt sinn reynt að troða upp á hana í von um að hún gengi í söfnuðinn. Á miðjum skjánum var líka stór tifandi ör sem benti til hægri og fyrir neðan hana stóð : "smelltu á mig" sem hún og gerði.
(s. 19-20)