Beint í efni

Hilduleikur

Hilduleikur
Höfundur
Hlín Agnarsdóttir
Útgefandi
Ormstunga
Staður
Reykjavík
Ár
2020
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina

Í ekki allt of fjarlægri framtíð á Hilda í baráttu við öldrunariðnaðinn í líki fyrirtækisins Futura Eterna sem sér um skipulagningu ævikvöldsins.
Hún er ljóðelsk kona, telst vera komin á „aflifunaraldur“ en sættir sig ekki við þá skilgreiningu og atburðarásin tekur óvænta stefnu. Spennandi, harmræn og launfyndin framvinda með óvæntum endi kallast á við óvenjulegt pestarástand samtímans með gagnrýnum undirtón.

Hilduleikur er þriðja skáldsaga Hlínar Agnarsdóttur. Áður hafa komið út eftir hana Hátt uppi við Norðurbrún (2001) og Blómin frá Maó (2009). Að auki skrifaði hún bókina Að láta lífið rætast – ástarsaga aðstandanda (2003) sem var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki fræðirita og bóka almenns efnis.

Úr bókinni

Andskotinn sjálfur, gátu þeir ekki kallað hana Hildu? Fátt fór jafn mikið í taugarnar á henni og þegar hún var ávörpuð með fullu nafni. Svo var það orðið hjartanlega, tvisvar sinnum í sama bréfi! Hvaða hjarta var það sem ætlaði að finna heildarlausn á framtíðarskipan hennar mála? Gaman væri að hitta það hjarta, hvar sem það sló. Það hlyti að vera stórt hjarta. Hugsa sér til hreyfings? Framhaldslíf?
   Þetta voru ekki ofskynjanir, hún var ekki með þvagfærasýkingu, þetta stóð allt í bréfinu.
   Til að ganga úr skugga um að hún væri með réttu ráði opnaði hún tölvuna og kannaði hvort þetta fyrirtæki væri til í alvörunni. Hún hafði varla lokið við að skrifa orðið futura þegar fyrirtækið spratt fram á skjánum með síbreytilegum lifandi myndum af hamingjusömu fólki á mestu gleðistundum lífsins, svo yfir sig hræðilega hamingjusamt með foreldrum, mökum, börnum, barnabörnum og vinum í fallegum og björtum híbýlum. Æviskeiðið þaut hjá í átt að ævikvöldinu langþráða, hvíldinni sem allir þráðu við arineld og kertaljós eftir þrælahald lífsins. Grænir og gulir litir voru áberandi, tré, blóm og gróður kringum fólk og hús, grænir garðar með bekkjum, börn að leik, sólskin og gæludýr. Myndirnar minntu hana á skrautlegar auglýsingar frá bönkum og fasteignasölum eða bæklinga frá Vottum Jehóva sem gömul frelsuð vinkona hafði eitt sinn reynt að troða upp á hana í von um að hún gengi í söfnuðinn. Á miðjum skjánum var líka stór tifandi ör sem benti til hægri og fyrir neðan hana stóð : "smelltu á mig" sem hún og gerði.

(s. 19-20)

 

Fleira eftir sama höfund

Bókmenntavefur Borgarbókasafnsins

Flóttamenn

Leikritið Flóttamenn var skrifað 2011 og leiklesið 2016 í Scandinavian House á Park Avenue í New York á vegumScandinavianAmericanTheaterCompany.. .  
Lesa meira
Bókmenntavefur Borgarbókasafnsins

Konur skelfa

Leikritið Konur skelfa var sýnt í Borgarleikhúsinu 1996-1997. Leikritið gerist inni á kvennasnyrtingu á skemmtistað í Reykjavík. . .  . .  
Lesa meira
hátt uppi við norðurbrún kápa

Hátt uppi við Norðurbrún

Adda þoldi ekki þessa klökku harmþrungnu rödd konunnar sem léði talhólfinu rödd sína. Þetta var fullkomin höfnun, enginn hringdi inn á talhólfið þegar maður þurfti mest á því að halda.
Lesa meira
blómin frá maó kápa

Blómin frá Maó

Kjarnmikil íslenskan mín féll Finni má líka einkar vel í geð, sérstaklega kotroski tónninn sem ég erfði frá ömmu og öllu hennar kyni. Það sem gerði þó útslagið var norðlenski framburðurinn, sérstaklega fráblásnu káin, péin og téin í lok sagnorða í lýsingarhætti þátíðar að ógleymdum rödduðu samhljóðunum.
Lesa meira
að láta lífið rætast kápa

Að láta lífið rætast

Þetta er trúnaðarbréf Hlínar Agnarsdóttur til lesenda. Á opinskáan og einlægan hátt segir hún frá sextán ára sambúð með manni sem glímdi við alkóhólisma öll helstu manndómsárin og dó langt fyrir aldur fram úr krabbameini.. .  
Lesa meira
Yfirsjónir

Yfirsjónir

Yfirsjónir er „sagnasveigur um hrollvekjandi nánd“ sem einvörðungu kemur út á Storytel. Í sögunum, sem eru tengdar smásögur, er fjallað um samskipti kynjanna og í þeim öllum er einhvers konar ofbeldi í spilunum.
Lesa meira
einlífi kápa

Einlífi

Samt þráðum við vin, gáfaðan vin, sem væri í djúpu sambandi við eigin tilfinningar, skemmtilegan vin og síðast en ekki síst sem byggi yfir andlegum og líkamlegum kynþokka.
Lesa meira
meydómur kápa

Meydómur

Krakkahópnum á leikvellinum finnst hún ægilega hlægileg með gleraugu, svona óskaplega lítil stelpa á ekki að vera með gleraugu. Það eru bara gamlir karlar og kerlingar sem eru með gleraugu. Hún er kerlingarbarn. Henni finnst hún því eldast langt fyrir aldur fram, ekki vera eins og hinir krakkarnir og ekki nóg með það, hún er með sjónskekkju og gleraugun hennar eru alveg ógurlega sterk.. .  
Lesa meira