Beint í efni

Aukaspyrna á Akureyri

Aukaspyrna á Akureyri
Höfundur
Gunnar Helgason
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2012
Flokkur
Barnabækur

Um Aukaspyrnu á Akureyri

Myndskreytingar: Rán Flygenring.

Akureyri. Höfuðstaður Norðurlands. Stærsta borgin utan Reykjavíkursvæðisins. Vetraríþróttamiðstöð Íslands. Fótboltaparadís. Veðravíti. Fram undan var fjögurra daga óopinbert íslandsmót fimmta flokks drengja í fótbolta. N1-mótið. Enn eitt mótið. Við vorum mættir. Besta lið á Íslandi. Þróttur.

Aukaspyrna á Akureyri er æsispennandi saga sem stelpur og strákar um allt land hafa beðið óþreyjufull eftir síðan þau lögðu frá sér Víti í Vestmannaeyjum. Hér halda Jón Jónsson og vinir hans áfram að berjast um sigur, á fótboltavellinum og utan hans. Eins og alltaf gengur sumt vel og annað ekki, og það eitt er víst að maður veit aldrei hvert boltinn rúllar!

Úr Aukaspyrnu á Akureyri

Magni

Þriðji kafli í öðrum hluta = 3-2

Það var kominn tími til að spila fótbolta. Við hlupum þessa stuttu leið út á keppnissvæðið. Það var æðislegt að koma þangað. Bílar allt í kring og ótrúlegur fjöldi fólks. Hlíðarfjall hátt fyrir ofan okkur og Vaðlaheiðin beint á móti. Fjöllin sáust að vísu ekki fyrir skýjum sem höfðu ákveðið að staldra við yfir Akureyri til að horfa á okkur spila fótbolta. Hvítur himinn. Norðlenskt logn. Grænir vellir. Foreldrar, afar, ömmur, systkini og strákar út um allt. Strákar sem voru klæddir í gula, rauða, bláa, vínrauða, appelsínugula og röndótta búninga. Strákar sem ætluðu að vinna hvern einasta leik. Maður heyrði hróp og köll í þjálfurunum og dómararnir voru að dreifa sér á vellina. Fánar allra liðanna blöktu á fánastöngunum og á öllum völlunum voru lið að hita upp. Ég gleymdi um leið öllum draumum og stelpum. Það var kominn tími á fótbolta.

Pabbi var liðsstjóri. Það var mjög skrýtið. Hann hafði aldrei komið með mér á mót áður og vissi ekkert um fótbolta. Hann var bara tölvu- og veiðinörd. Hann var með nýja myndavél og sagðist ætla að einbeita sér að því að taka ljósmyndir og myndbönd af leikjunum. Sem betur fór sá Finnur um upphitunina. Pabbi tók bara saman fötin okkar og pokaði þau. Setti þau í svartan ruslapoka svo þau blotnuðu ekki. Það fór nefnilega að úða. Skýin voru aðeins að létta á sér með því að úða úða á okkur Finnur kallaði okkur saman og hélt smá ræðu:

„Strákar, það er mikilvægt að við byrjum þetta mót vel. Hver einasti leikur skiptir máli og þess vegna verðum við að vinna þennan leik. Við hreinlega verðum að vinna! Munið hvað við erum búnir að vera að æfa í allan vetur. Hreyfa sig án boltans, bjóða sig, senda hann og bjóðast til að fá hann aftur. Fáar snertingar og hratt spil. Miðjan hjálpar í vörn og ef vörnin fer fram verður einhver að detta til baka í staðinn. Við erum lið og við eigum að spila eins og lið. Saman!“

„Einmitt! Þetta er hópíþrótt!“ sagði pabbi sem stóð hjá. Þetta var um það bil það eina sem hann vissi um fótbolta.

„Nákvæmlega,“ sagði Finnur og lét pabba ekki trufla sig. „Við erum með frábært lið og eigum alveg að geta endað ofarlega á þessu móti.“

„Við ætlum ekki bara að enda ofarlega. Við ætlum að vinna mótið!“ sagði Skúli og við tókum allir undir með honum.

„Þetta er andinn,“ sagði Finnur og hélt áfram: „Ókei. Svona er liðið: Bjössi og Gunni í vörninni og Krummi í markinu. Jón á miðjunni, Skúli vinstra megin, Ívar hægra megin og Siggi frammi. Ingó og Davíð byrja útaf. Komaso! LIFI ...“

„ÞRÓTTUR!“ öskruðum við.

Ég var ekki í vörninni. Ég var á miðjunni með tveimur bestu vinum mínum. 2-3-1. Ég hefði ekki þurft að hafa þessar áhyggjur. Nú náði ég endanlega að hrista þær af mér. Draumarugl og minnimáttarbull alltaf í mér. Nú skyldi ég svoleiðis sýna hvað ég gat.

(32-4)

Fleira eftir sama höfund

Barnaræninginn

Lesa meira

Víti í Vestmanneyjum

Lesa meira

Rangstæður í Reykjavík

Lesa meira

Nornin og dularfulla gauksklukkan

Lesa meira

Mamma klikk!

Lesa meira

Gula spjaldið í Gautaborg

Lesa meira

Goggi og Grjóni: vel í sveit settir

Lesa meira

Goggi og Grjóni

Lesa meira