Beint í efni

Gula spjaldið í Gautaborg

Gula spjaldið í Gautaborg
Höfundur
Gunnar Helgason
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2014
Flokkur
Barnabækur

Um Gula spjaldið í Gautaborg

Myndskreytingar: Rán Flygenring.

Jón Jónsson og félagar eru á leiðinni á stærsta ungmennafótboltamót í heimi – Gothia Cup í Gautaborg. Þangað streyma fótboltastelpur og -strákar frá öllum heimshornum og alla langar að koma heim með gullpening um hálsinn. En í Gautaborg snýst lífið um ýmislegt annað en fótbolta. Hvað táknar nautið í skrýtnu draumunum hans Jóns og eiga allir eftir að koma lifandi heim? Hvernig fer með Ívar og pabba hans? Og hvernig í ósköpunum á að tækla ástamálin þegar hormónar streyma um æðarnar og unglingabólur spretta á andlitinu eins og arfi!

Úr Gula spjaldinu í Gautaborg

Gautaborg

Annar kafli í öðrum hluta = 2-2

Ég hrökk upp.

Við vorum lent.

Byssuskot? Mér leist ekki á þetta. En það dó enginn í þetta sinn. Kannski var Sammó óhætt? Eða var hann ekki örugglega nautið? Þessi draumur hafði nánast verið endurtekning á síðasta draumi nema í honum dó nautið. Þetta var sem sagt framför. Kannski myndi enginn deyja í þessu ferðalagi. En hver var nautið?

„Velkominn til Svíþjóðar,“ sagði Skúli kampakátur.

Það tók mig smátíma að átta mig á því að ég sat í flugvélinni á milli Davíðs og Skúla sem klöppuðu fyrir flugstjóranum fyrir að lenda vélinni eða bara af eintómri gleði yfir því að vera komnir til Gautaborgar.

„Ha, já!? Erum við komnir?“

„Já. Þú varst steinsofandi, maður. Dreymdi þig eitthvað?“

Skúli vissi manna best af því að draumarnir mínir gátu sagt fyrir um það sem myndi gerast og honum fannst það spennandi. Mig hafði náttúrlega ekki dreymt illa í allan vetur og því hafði hann engan grun um þessar martraðir mínar. Eða var síðasti draumur ekki martröð? Það hafði ekkert slæmt gerst. Fyrir utan byssuskotið, auðvitað. Og ég hafði ekki verið einn fyrir utan húsið í þetta sinn. Ívar var hvergi nálægur þannig að draumarnir snerust ekki um hann eins og oft áður. Eða hafði hann verið með mér? Hver hafði verið með mér? Ég mundi það ekki en ég mundi bara tilfinninguna. Það hafði verið gott að finna að ég var ekki einn. Ef ég átti að meika daginn, dauðþreyttur og illa sofinn, yrði ég að einbeita mér að því sem hafði verið jákvætt í draumnum: Sem var að ég var ekki einn. Ég var ekki einn!

Flott.

Við stóðum upp og tókum saman draslið okkar og þokuðum okkur út úr vélinni. Það var mið nótt og allir orðnir frekar þreyttir. Því var stemmingin í farangurssalnum frekar döpur. Ég settist einn með hugsunum mínum á bekk á meðan ég beið eftir töskunni minni. Ég vildi að mamma hefði komið með. Hvar er mamma manns þegar maður þarf mest á henni að halda? Það var reyndar ég sem vildi ekki fá mömmu og pabba með. Ég vildi fara einn í þetta ferðalag. Í fyrsta sinn einn í útlöndum. Það hafði hljómað spennandi fyrir tveimur mánuðum en núna vildi ég óska þess að mamma væri með. Eða pabbi. Þau voru farin í hestaferð um hálendi Íslands þar sem var mjög stopult símasamband þannig að það var ekki einu sinni víst að ég gæti náð í þau ef ég vildi hringja. Sem betur fer var ég að fara að hitta Eivöru seinna í dag. Við ætluðum allir að fara að sjá hana keppa með liðinu sínu, Kopparbergs/Göteborg FC á móti ríkjandi meisturum í FC Rosengård. Hún var næstmarkahæst í deildinni en var búin að vera eitthvað meidd og hafði misst af tveimur síðustu leikjum. Hún hafði sagt að hún væri eiginlega orðin alveg góð og yrði vonandi með þó að hún kæmi líklega ekki til með að byrja inná. Hvort sem hún myndi spila með eða ekki yrði frábært að hitta hana aftur.

„Í hvaða skóla gistið þið?“

Ég leit upp. Rósa.

(26-7)

Fleira eftir sama höfund

Barnaræninginn

Lesa meira

Víti í Vestmanneyjum

Lesa meira

Rangstæður í Reykjavík

Lesa meira

Nornin og dularfulla gauksklukkan

Lesa meira

Mamma klikk!

Lesa meira

Goggi og Grjóni: vel í sveit settir

Lesa meira

Goggi og Grjóni

Lesa meira

Aukaspyrna á Akureyri

Lesa meira