Um bókina
Mætir Konráð skilningi hjá móður sinni? Nei. Hann finnur það nú bara bezt þegar hún rífur græjurnar hans úr sambandi á næturnar.
Svo hittir Konráð huggulega stelpu úr Hafnarfirði. En skánar lífið við það? Nei, því Lillu finnst ólíklegt að heimsendir komi fyrir jól og svo heldur mamma hans að Landleiðir gefi henni gullúr fyrir það eitt að fjármagna Konráð í strætó.
Heimurinn stendur sameinaður gegn Konráði, meira að segja löggan fer með hann heim, alsaklausan, grunaðan um ölvun á Hallærisplaninu.
Úr bókinni
Þetta var allt vonlaust. Og tilgangslaust.
Ég var að hugsa um að hátta bara.
Það var hvort eð er dauðamyrkur úti. Dagur samkvæmt klukkunni, en heimskautanótt úti. Voru þetta einhver lífsskilyrði?
Fyrir utan smáræði eins og að þeir gátu eytt heiminum áttatíu sinnum. Bara með kjarnavopnunum sínum. Geggjaður uppgjafakobboj í Hvíta húsinu og fárveikt gamalmenni með óteljandi öldrunarsjúkdóma í Moskvu.
Og þó að annar þeirra léti ekki ýta á hnappinn í geðveikikasti, þá þurfti bara fuglahóp sem einhver taugaveikluð tölva héldi að væri árás.
Bammmm.
Allt búið.
Afvopnunarhlaup? Það var lausnin.
En hvað þýddi það? Voru ekki kellingar um allan heim vopnaðar úðabrúsum? Gráar fyrir járnum, þessar kellingar, úðandi svitameðulum, ilmvötnum og lyktareyði, býttandi á lyktum allan daginn. Úðandi bóni og ofninn að innan af því þær gátu ekki lengur rekið lúkuna og hvíta stormsveipinn inn í hann. Úðandi á sér tærnar og hárið og blómin og rúðurnar og bara allt sem hægt var að miða brúsa á. Og í hvert sinn sem þær ýttu á litla plasttappann, þá var það hér um bil jafn magnað og ef Reagan ýtti á hnappinn sinn. Heimskar kellingar að eyðileggja lofthjúp jarðar.
Kannski yrðu þeir á undan í Venezúela. Skógareyðing auðvaldssina var langt komin með lofthjúpinn.
Bara spurning um tíma.
Sjórinn ein samfelld úrgangsfroða. Sennilega köfnuðu fiskarnir á undan okkur. Nema við dræpumst af að éta þá, baneitraða af kvikasilfri.
Meira að segja rollurnar í Straumsvík með flúorbrenndar tennur.
Sennilega væri bezt að fá að deyja samstundis. Bara svona zapppp! Einn blossi og búið.
(s. 7-8)