Beint í efni

Ung, há, feig og ljóshærð

Ung, há, feig og ljóshærð
Höfundur
Auður Haralds
Útgefandi
Forlagið
Staður
Reykjavík
Ár
1987
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina

Anna Deisí er munaðarlaus, saklaus, félaus, heimilislaus, vinalaus, atvinnulaus og vonlaus og þykist viss um að það geti varla versnað úr þessu. Á elleftu stundu fær hún boð um að mæta til viðtals vegna vinnu. En áður en hún nær að stynja því upp að hún geti vélritað 40 slög á mínútu, springur skrifstofan í loft upp. Fyrrverandi tilvonandi atvinnurekandi hennar biður fyrir bréf til Desirée um leið og hann tekur síðustu andvörpin á logandi Wiltonteppinu. Anna Deisí hefur leitina að Desirée. En það vilja fleiri finna hana og þeir eru allir eftirlýstir. Fyrr en varir er Anna Deisí komin úr öskustónni í eldinn.

Af sinni alkunnu hugkvæmni segir Auður Haralds söguna um ungu og einföldu sveitastúlkuna, hvernig hún kynnist smám saman hörku lífsins og neyðist til að láta af þeim siðferðislegu kröfum sem hún hefur hingað til gert til sjálfrar sín. Þetta er ljúfsár saga um ástir og vonbrigði, grimmd og samviskuleysi, kærleik og kristilegt hugarfar.

Úr bókinni

Uss, það er enginn vandi að skrifa ástarsögu. Maður notar :
   1 unga fagra saklausa stúlku.
   1 ungan dökkhærðan mann, illa innrættann.
   1 ungan ljóshærðan mann, vel innrættann.
   3-7 aukapersónur með ógreinilegt innræti sem má láta bregðast til beggja vona eftir þörfum og framvindu.
   1 plott.
   Plottið er oftast gert úr misskilningi, einum eða fleiri. Þeir mega vera hvernig sem er. Að auki er gott að nota 1 laungetnað og 1 nisti (það var Dickens sem kom þessari nistishefð af stað). Svigrúmið í laungetnuðum er ekkert, öfugt við misskilningana, því það er alltaf Hún sem er laundóttir, hann er bara -son.
   Lengi vel nægði þetta til að byggja upp óbærilega spennu. En nú vill lesandinn aksjón og vonda stjúpan stendur ekki ein undir blóðþorsta neytandans. Því hefur ástarsögunum bæst liðsauki í formi glæpamanna.
   Er nú unga saklausa stúlkan látin sæta illgjörðum stjúpunnar, vera í stöðugri sálarkreppu af því hún veit ekki hvorn hún elskar og jafnframt berjast við og ráða niðurlögum eiturlyfjasmyglara, alþjóðanjósnanets eða voldugs glæpahrings. Það gerir hún með annarri hendi, því með hinni styður hún sig stanslaust við sterkan arm annars hvors vonbiðla sinna til skiptis.
   Þeir redda þessu svo á endanum, en á milli fyrsta kapítula þar sem maður lemur sakleysi, fegurð og vesöld stúlkunnar inn í lesandann og síðasta kafla þar sem allir fá makleg málagjöld, eru oft tvöhundruð síður. Þær þarf að fylla.
   Hefðbundið uppfyllingarefni eru lýsingar á fatnaði og innréttingum. Það er mjög hentugt, því sköpunargáfan hvílist svo vel á meðan maður veltir fyrir sér hnappagötum, skóleðri, blómaskreytingum, viðartegundum, áklæði og gluggatjöldum. Þau síðustu eru að auki nokkuð virkir þátttakendur í sögunni : Alltaf að bærast.
   Með trukki og tilfinningu tók ég Önnu Deisí, skellti henni inn í alelda bygginguna og tók til við að lýsa fötum og húsbúnaði.
   Í miðjum kafla varð mér ljóst, að Anna Deisí var brunnin inni og ég ekki hálfnuð með húsgögnin.
   Ég varð að byrja upp á nýtt.

(s. 15-16)

Fleira eftir sama höfund

hvað er drottinn að drolla?

Hvað er drottinn að drolla?

Miðaldra bókhaldari vaknar skyndilega upp sem gjafvaxta ungmey í Englandi á 14. öld. 
Lesa meira
Elías

Elías

Hún hafði náð í sérstaklega harðgert gaddavírsgarn og búið til eins konar húfu. Húfan var hauspoki með tveim hnappagötum fyrir augun.
Lesa meira
elías, magga og ræningjarnir

Elías, Magga og ræningjarnir

Bankastjórinn kom og ætlaði að þakka henni fyrir að bjarga bankanum og Magga skammaði hann bara fyrir að hafa svona banka þar sem fólk þyrfti að nota byssu til að fá afgreiðslu.
Lesa meira
elías í kanada

Elías í Kanada

Á veggjunum í ganginum og eldhúsinu mjökuðstu sniglarnir mínir upp og niður og þreifuðu fyrir sér með fálmurunum. Alveg hafði ég steingleymt þeim þegar ég kom heim kvöldið áður. Um nóttina höfðu þeir svo skriðið upp úr bakpokanum og voru ennþá að leita að góðum steini til að búa á.
Lesa meira
elías á fullri ferð

Elías á fullri ferð

Fyrst skellur yfir þau gestaplága svo skæð, að mamma og pabbi eru að hugsa um að flýja að heiman. Elíasi tekst að hrekja gestapláguna burtu, að vísu með nokkuð grófum ráðum.
Lesa meira
baneitrað samband á njálsgötunni

Baneitrað samband á Njálsgötunni

Mætir Konráð skilningi hjá móður sinni? Nei. Hann finnur það nú bara bezt þegar hún rífur græjurnar hans úr sambandi á næturnar.
Lesa meira
elías kemur heim

Elías kemur heim

Elías, mamma hans og pabbi eru komin heim til Íslands aftur. Það hefði átt að vera mjög friðsamlegt, því Magga móðursystir mömmu varð eftir í útlöndum. En það er enginn friður. Pabbi Elíasar sér fyrir því. Elías veit ekki hvort hann er orðinn svona gamall eða hvort hann varð svona af að lenda í Fílnum. Eða, eins og Simbi segir: "Enginn með viti þrasar við fíl.". .  
Lesa meira
hlustið þér á mozart?

Hlustið þér á Mozart? Ævintýri fyrir rosknar vonsviknar konur og eldri menn

Rósemi Lovísu verkar sem fyrirboði, gamla konan fær ónot í magann, hana langar ekki að heyra meira, en hún verður.
Lesa meira
litla rauðhærða stúlkan

Litla rauðhærða stúlkan

Hér er stutt saga af lítilli rauðhærðri stúlku sem skrifuð var af Auði Haralds í samstarfi við Vigdísi Hlíf Sigurðardóttur sem er höfundur myndefnis.
Lesa meira