Beint í efni

Elías

Elías
Höfundar
Auður Haralds,
 Valdís Óskarsdóttir
Útgefandi
Iðunn
Staður
Reykjavík
Ár
1983
Flokkur
Barnabækur

Myndir eftir Brian Pilkington

Um bókina

Elías, fyrirmynd annarra barna í góðum siðum (eða hitt þó heldur) er á förum til Kanada. Þar er pabbi hans, brúarsmiðurinn, búinn að fá vinnu og mamma hans, tannsmiðurinn, fær að smíðja indíánatennur. En Magga móða (fullu nafni Magga móðursystir mömmu) er ekki á því að sleppa fjölskyldunni úr landi.

Magga hefur skammast í foreldrum Elíasar frá því hann fæddist og sennilega lengur. Fyrst neitar hún þeim um fararleyfi, en þegar það dugar ekki fyllist hún trylltri hjálpsemi. Auðvitað lendir það á Elíasi að stöðva Möggu, því foreldrar hans eru fullorðnir og geta þess vegna ekki komið sér að því að segja Möggu sannleikann. En Elías er liðtækur við fleira en erfiðar frænkur. Hann selur líka búslóðina með óvenjulegum aðferðum.

Úr bókinni

En Magga var búin að ná sér daginn eftir. Það var laugardagur og hún var heima. Fyrst skammaði hún málrana af svölunum. Síðan mátaði hún þetta sem hún var að prjóna á mig. Hún hafði náð í sérstaklega harðgert gaddavírsgarn og búið til eins konar húfu. Húfan var hauspoki með tveim hnappagötum fyrir augun.
              Ég gat ekki andað inni í henni. Þannig gátu lungun heldur ekki frosið. Ef ég setti þessa húfu nokkru sinni upp þá kæmi það í blöðunum hér heima:
              „Ungur, efnilegur íslenskur drengur kafnar í húfu í Kanada. Hann hét Elías Guðmundsson.“
              „Magga,“ sagði ég. „Veistu það, ef ég geng með þessa húfu í útlöndum, þar sem allt er fullt af glæpamönnum (það er eitt af því sem Magga veit um útlönd?, þá halda allir að ég sé bankaræningi. Og skjóta mig. Heldurðu að þú ættir ekki frekar að gefa honum Jörundi litla hans Jónasar þessa húfu? Hann er alltaf lasinn eins og þú veist.“
              Magga horfði augnablik á mig og vafði svo handleggjunum utan um mig.
              „Ó, elsku drengurinn minn, þetta er alveg rétt hjá þér. Og svo ertu svo hugulsamur að muna eftir Jörundi litla.“ Og Magga klökknaði. Mér leið eins og pabba þegar hann gaf Agnesi konfektið og púðann. En svo batnaði það þegar Magga sagði:
              „Ég prjóna þá nærboli handa þér úr garninu, ég keypti sem betur fer nóg.“

(s. 39-40)

Fleira eftir sama höfund

hvað er drottinn að drolla?

Hvað er drottinn að drolla?

Miðaldra bókhaldari vaknar skyndilega upp sem gjafvaxta ungmey í Englandi á 14. öld. 
Lesa meira
elías, magga og ræningjarnir

Elías, Magga og ræningjarnir

Bankastjórinn kom og ætlaði að þakka henni fyrir að bjarga bankanum og Magga skammaði hann bara fyrir að hafa svona banka þar sem fólk þyrfti að nota byssu til að fá afgreiðslu.
Lesa meira
elías í kanada

Elías í Kanada

Á veggjunum í ganginum og eldhúsinu mjökuðstu sniglarnir mínir upp og niður og þreifuðu fyrir sér með fálmurunum. Alveg hafði ég steingleymt þeim þegar ég kom heim kvöldið áður. Um nóttina höfðu þeir svo skriðið upp úr bakpokanum og voru ennþá að leita að góðum steini til að búa á.
Lesa meira
elías á fullri ferð

Elías á fullri ferð

Fyrst skellur yfir þau gestaplága svo skæð, að mamma og pabbi eru að hugsa um að flýja að heiman. Elíasi tekst að hrekja gestapláguna burtu, að vísu með nokkuð grófum ráðum.
Lesa meira
baneitrað samband á njálsgötunni

Baneitrað samband á Njálsgötunni

Mætir Konráð skilningi hjá móður sinni? Nei. Hann finnur það nú bara bezt þegar hún rífur græjurnar hans úr sambandi á næturnar.
Lesa meira
elías kemur heim

Elías kemur heim

Elías, mamma hans og pabbi eru komin heim til Íslands aftur. Það hefði átt að vera mjög friðsamlegt, því Magga móðursystir mömmu varð eftir í útlöndum. En það er enginn friður. Pabbi Elíasar sér fyrir því. Elías veit ekki hvort hann er orðinn svona gamall eða hvort hann varð svona af að lenda í Fílnum. Eða, eins og Simbi segir: "Enginn með viti þrasar við fíl.". .  
Lesa meira
hlustið þér á mozart?

Hlustið þér á Mozart? Ævintýri fyrir rosknar vonsviknar konur og eldri menn

Rósemi Lovísu verkar sem fyrirboði, gamla konan fær ónot í magann, hana langar ekki að heyra meira, en hún verður.
Lesa meira
litla rauðhærða stúlkan

Litla rauðhærða stúlkan

Hér er stutt saga af lítilli rauðhærðri stúlku sem skrifuð var af Auði Haralds í samstarfi við Vigdísi Hlíf Sigurðardóttur sem er höfundur myndefnis.
Lesa meira
læknamafían

Læknamafían : Lítil pen bók

Mér líður eins og perlumóður, ég á að halda áfram að safna steinum.
Lesa meira