Beint í efni

Barnaræninginn

Barnaræninginn
Höfundur
Gunnar Helgason
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2020
Flokkur
Barnabækur

Myndir gerir Linda Ólafsdóttir.

Um bókina

Eftir hallarbyltinguna í Hafnarlandi ríkir friður og ró. En brátt logar allt í ófriði og Barnaræninginn er aftur farinn að ræna börnum. Nú eru það börnin á Matarfjallinu sem lenda í klónum á honum. Eyrdís verður að gera eitthvað í málunum því að ástandið er henni að kenna. Hún verður að stoppa Barnaræningjann þó að það gæti orðið hennar bani!

Draumaþjófurinn, fyrri bókin um rotturnar í Hafnarlandi, naut mikilla vinsælda og var tilnefnd til Barnabókaverðlauna Reykjavíkur.

Úr bókinni

   Þau voru komin í veitingastaðahverfið. Fram undan barst örmjó ljóskeila niður í holræsið og Eyrdís vissi að hún var komin á kunnuglegar slóðir. Þetta var niðurfallið sem hún hafði dottið niður um þegar hún hitti Tilraunarotturnar í fyrsta sinn. Næsta niðurfall var þá svo til beint undir ruslagámnum sem Veitingastaðarotturnar áttu heima í. Þar sem Píla hafði átt heima áður en hún flutti í Hafnarland.
   Eyrdís tók ákvörðun. Hún ætlaði að skjótast upp á yfirborðið og heilsa upp á vini sína. Kannski væri björgunarsveitin þar líka og kannski ... bara kannski ... vissu Veitingastaðarotturnar um pabba hennar.
   Í sameingingu tókst Eyrdísi og Sandi að lyfta ristinni nægilega mikið frá opinu á niðurfallinu til að þau kæmust upp á yfirborðið. Svo lituðust þau um. Þau voru stödd í húsasundi. Langt í burtu sáu þau götuna þar sem manneskjur gengu um án þess að vita af þessum tveimur litlu rottum. Og þarna var ruslagámurinn. Sandur vissi ekki að hverju þau voru að leita en hann sá á Eyrdísi að hún mátti hann ekki hafa hátt.
   Eyrdís var að leita að kettinum. Hún hafði séð Pílu sigrast á honum en var ekki alveg viss um að geta endurtekið þann hættulega leik.
   Enginn köttur.
   Samt var eitthvað undarlegt á seyði. Eyrdís heyrði nefnilega ekki í Rottubandinu. Það var engin tónlist og það var enginn söngur. Hinsvegar heyrði hún hljóð sem hana hryllti við. Hún heyrði stunur, öskur, brot og braml.
   Bardagahljóð.
   „Komum!“ hvíslaði Eyrdís og stökk af stað með Sand á eftir sér. Þau tróðu sér undir timburhliðið sem lokaði gáminn inni. Eyrdís vonaði að sér hefði misheyrst. Hún vonaðist til að sjá vini sína skemmta sér undir gámnum eða að minnsta kosti vera uppi í honum að éta. En hún sá engan. Það fór hinsvegar ekki á milli mála að uppi í gámnum var verið að slást. Hún benti Sandi á að læðast með sér að opinu á botni gámsins sem Veitingastaðarotturnar notuðu sem inngang í hann. Þegar þau voru komin næstum alla leið féll rotta með hálsklút niður um opið og lenti á jörðinni fyrir framan þau.
   „AH!“ hrópaði Sandur og ætlaði að hlaupa í burtu. Eyrdís greip í hann og sussaði. Svo litu þau bæði á rottuna. Hún var með svöðusár á bringunni og virtist vera algerlega lífvana. Sandur titraði af ótta en Eyrdís laut niður að þessari slösuðu rottu.
   Það kom rifa á augun og rottan leit á Eyrdísi. Hún notaði síðasta andardráttinn til að hvísla:
   „Forðið ykkur. Villirottur!“

(s. 52-53)

 

Fleira eftir sama höfund

Víti í Vestmanneyjum

Lesa meira

Rangstæður í Reykjavík

Lesa meira

Nornin og dularfulla gauksklukkan

Lesa meira

Mamma klikk!

Lesa meira

Gula spjaldið í Gautaborg

Lesa meira

Goggi og Grjóni: vel í sveit settir

Lesa meira

Goggi og Grjóni

Lesa meira

Aukaspyrna á Akureyri

Lesa meira