Um bókina
Dulnefnin er safn 25 sagna sem Bragi hefur sjálfur valið úr fjórum bókum sínum, útgefnum 1996–2014. Guðrún Lára Pétursdóttir bókmenntafræðingur ritar eftirmála um sögurnar.
Úr bókinni
Ég var búinn að vera að þrífa stigaganginn í einn og hálfan mánuð þegar ég varð loksins var við hreyfingu í húsinu. ég var farinn að halda að það byggi enginn fyrir innan þessar átta eða níu dyr sem gangurinn telur. Ég hafði að vísu heyrt að flestir íbúanna væru í eldri kantinum - eintómir ellismellir, eins og ég heyrði frænda min þrettán ára segja í fjölskylduboði um daginn - en jafnvel þótt fólkk hafi náð vissum aldri neyðist það til að fara út stöku sinnum, að minnsta kosti opnar það dyrnar hjá sér af og til, þó ekki nema til að fara með ruslið í sorprennurnar.
Launin mín fæ ég greidd á fasteignasölu í miðbænum. Sá sem skrifar handa mér tékkana býr ekki í húsinu, heldur sér einungis um að innheimta hússjóðinn. Einhver pappírshákarl sem kann á svona hluti. Svo var það einhver tengdur honum sem kom mér inn í starfið, líklega sonur hans. Þannig að á þessum eina og hálfa mánuði hafði ég ekki hitt neitt af því fólki sem ég er að þrífa fyrir. Að vísu, þegar ég var nýbyrjaður, heyrði ég eitt sinn óm af röddum þegar ég var að renna tuskunni yfir hægri dyrnar á þriðju hæðinni, en um leið og ég setti eyrað upp að hurðinni þögnuðu raddirnar og það sem einkennilegra var: ég heyrði útidyrahurðinni niðri skellt án þess að hafa orðið var við nokkra hreyfingu í ganginum áður. Þótt ég hafi byrjað á þvi að þrífa hurðirnar þann dag - ég er annars vanur að geyma hurðirnar þar til síðast, ásamt gluggunum - hafði ég tekið ryksuguna út úr áhaldaherberginu á fyrstu hæðinni til að hafa hana tilbúna þar til á eftir, og þegar ég heyrði hurðinni skellt hljóp ég niður til að ganga úr skugga um að það væri ekki búið að stela þessu rándýra Nilfiskapparati sem fasteignasalinn hafði brýnt fyrir mér að fara eins vel með og ég mögulega gæti. Svo reyndist ekki vera, til allrar hamingju.