Úr Fótboltasögur:
Tala saman strákar
Munnurinn á honum var einsog rautt strik og hann gerði sig á engan hátt líklegan til að tjá sig svo ég spurði hvort hann hefði misst málið. Þá hristi hann höfuðið en ég vissi um viðkvæma staði sem ég gat potað í, og um leið og hann kveinkaði sér fékk hann málið aftur en það var samt einsog tungan þvældist eitthvað fyrir honum þegar hann sagði að það væri alveg merkilegt að þeir hefðu ekki talað saman, þeir vissu það allir sem einn að það að tala saman vekti upp orkuna í liðinu, og bara það að tala saman gæti snúið tapleik í vinningsleik, og það að tala saman væri líkast kraftaverki, það væri nánast einsog þeir gætu verið hæfileikalausir, reynslulausir og getulausir bara ef þeir töluðu saman, já, þeir gætu unnið leik með því einu, en nú hefðu þeir þagnað eina ferðina enn og jafnvel þótt bæði þjálfarinn og áhorfendur hefðu galað og gólað á þá að tala saman var einsog þeir hefðu ekki heyrt það, eða úr ótrúlegum fjarska, af öðru plani, jú þeir hefðu heyrt eitthvað en það var tómt mál um að tala, þeir hefðu bara ekki getað opnað munninn, enda væri það stundum þannig að það væri ekkert um að tala.
(s. 53-54)