Æviágrip
Elísabet Kristín Jökulsdóttir er fædd í Reykjavík 16. apríl 1958. Hún ólst upp á Seltjarnarnesi og í Reykjavík og dvaldi í eitt ár í Grikklandi sem barn. Hún lauk stúdentsprófi frá Kvennaskólanum í Reykjavík 1987 og hefur sótt námskeið í handritaskrifum hjá Kvikmyndasjóði og tekið þátt í Höfundasmiðju Leikfélags Reykjavíkur. Elísabet hefur unnið ýmis störf til sjós og lands, afgreiðslustörf, verið módel hjá Myndlistarskóla Reykjavíkur, stundað byggingarvinnu, unnið í frystihúsum, verið háseti á bát og ráðskona á Ströndum. Einnig hefur hún verið blaðamaður, unnið þætti fyrir útvarp, verið aðstoðarleikstjóri í Þjóðleikhúsinu og haldið fyrirlestra um örsöguskrif í framhaldsskólum.
Fyrsta bók Elísabetar, ljóðabókin Dans í lokuðu herbergi, kom út árið 1989 og síðan hefur hún sent frá sér ljóð, sögur og skáldsögur. Hún hefur skrifað fjölda leikrita sem sett hafa verið upp hér á landi og erlendis og framið ýmsa gjörninga sem hafa meðal annars birst í Ríkissjónvarpinu. Ljóð hennar hafa birst í safnbókum og tímaritum hér heima og erlendis. Elísabet hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir bókina Aprílsólarkuldi árið 2020 og árið 2018 fékk hún styrk úr Rithöfundasjóði Ríkisútvarpsins. Elísabet hlaut Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna fyrir ljóðabókina Ástin ein taugahrúga: Enginn dans við Ufsaklett árið 2015. Hún var einnig tilnefnd til menningarverðlauna DV og bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs fyrir sömu bók.
Frá höfundi
Pistill frá Elísabetu Jökulsdóttur
Ég er að skrifa um myndina af mér til að öðlast sjálfstæði.
Og svo togast það á í mér hvort ég sé ekki bara að skrifa til að skemmta lesendum. Ég hitti nefnilega einusinni fóstru sem passaði mig á Tjarnarborg og hún sagði mér að ég hefði alltaf verið að segja hinum krökkunum sögur. Kannski var ég líka að reyna að hræða þau. Ég veit ekki hvernig sögur þetta voru en þegar fóstran kom heim á kvöldin sagði hún krökkunum sínum tveimur frá litlu stelpunni sem var alltaf að segja hinum krökkunum sögur.
Mér fannst mjög gott að heyra þessa sögu því þá vissi ég fyrir víst að ég var ekki rithöfundur af því að pabbi minn og mamma eru rithöfundar en ég hafði farið í gegnum heilmikil tívólí-göng vegna þess. Og það ýtti líka undir hitt að mér líður vel þegar ég er að skrifa, hvernig sem gengur, en þá er ég hamingjusöm.
Ég er að skrifa um myndina af mér til að öðlast sjálfstæði.
Hverjir eru kostir þess að öðlast sjálfstæði, bæði sem persóna og í starfi. Hvernig er heimurinn minn?
Myndin af mér getur líka innihaldið myndina af þjóðinni.
Og ég er að skrifa til að gera eitthvað úr þeim arfi sem mér var fenginn, tungumálinu og bókmenntunum og sýn minni á landið og þjóðina, sjálfa mig. Ég er á því að ég hafi fæðst með ákveðna sýn á heiminn, það er merkileg uppgötvun.
Og ég er að bregðast við þegar eitthvað leitar á hugann, setning, orð, persóna, saga.
Þetta er heilmikil pæling, ég gæti skrifað heila bók um þetta.
Og kannski er ég fyrst og fremst að raða – raða saman heimi sem er annars splundraður.
Og svo kannski er ég líka að raða heiminum uppá nýtt þannig að hann splundrist.
Elísabet Jökulsdóttir, 2003
Um höfund
Fyrri greinin hér á vefnum um höfundaverk Elísabetar Jökulsdóttur birtist árið 2005, hún nefnist Að velja sér hafið og heimta bát og er eftir Soffíu Bjarnadóttur.
Seinni greinin birtist vorið 2021 og brúar bilið frá árinu 2005, hún nefnist Ástin er opnun og er eftir Jón Özur Snorrason.
Grein Soffíu hefst hér fyrir neðan; grein Jóns Özurs kemur í kjölfar hennar, og hér má smella til þess að fara beint á hana: Ástin er opnun.
Að velja sér hafið og heimta bát: Skáldskapur Elísabetar Kristínar Jökulsdóttur
Dans í lokuðu herbergi er fyrsta ljóðabók Elísabetar Kristínar Jökulsdóttur (1958-) og kom hún út árið 1989. Fyrr höfðu birst ljóð eftir hana og leikþáttur í tímariti ungskálda frá 1987. Í ljóðabókinni birtist sú symbólíska skáldskaparrödd sem síðan hefur fylgt skáldskap Elísabetar í fjölbreyttum formum skrifa; ljóð, prósar, örsögur, smásögur, leikrit og skáldsaga. Þegar farið er yfir höfundarverkið má sjá leik og leit í ólíkum skáldskaparformum og ljóst er að ekki hefur verið setið auðum höndum. Upphafið að þeim þemum sem Elísabet glímir stöðugt við má finna í fyrstu skrifum hennar. Skáldskapurinn verður þessi leið að sjálfsverunni, en skáldskapur Elísabetar er bæði sjálfleitandi og sjálfskapandi. „Ég er að skrifa um myndina af mér til að öðlast sjálfstæði“ segir Elísabet sjálf um eigin skrif. Með þessum orðum – að skrifa um myndina af sjálfum sér, má segja að hún tengi sig við langa hefð sem rekja má allt aftur til upphaf rómantíkur á 18. öld, en þá fer að örla á slíkri sjálfsköpun skálda. Að leita upphafs síns í orðum, í öðrum heimi, draumnum sem er kannski á tíðum gerður úr sterkara efni en sjálfur efnisheimurinn og það sem við köllum raunveruleika. Þessi skáldskaparglíma ímyndunar og raunveruleika er sýnileg í öllum skáldskap Elísabetar, eins og fyrsti prósaleikþátturinn Stúlka á bar í þrem hlutum frá 1987 (útg.1991), lýsir vel:
Ég skil ekki allt þetta kjaftæði með ímyndun og raunveruleik, sagði stúlkan við barþjóninn, sem fægði glös og þurrkaði af borðinu fyrir framan hana.
Og í lokin segir:
Eða er það þannig að ímyndun getur orðið raunveruleg, þegar ekki er hægt að segja hana með einhvernveginn orðum ... sagði stúlkan.(Ljóð ungra skálda: 31. Ritstjóri: Guðrún S. Jakobsdóttir. Fredriksberg, 1991)
Ímyndun kemur hér á undan raunveruleika. Skáldskapur Elísabetar er symbólískur, þar sem áherslan er á hugarflugið og þann innri heim sem tekst á við það sem er ytra. Hið óséða gegn hinu séða. Það mikilvægasta er víst ósýnilegt augunum ef marka má orð Litla prinsins í samnefndri sögu Antoine de Saint-Exupéry, en í þessi orð hefur skáldkonan einmitt vitnað. Í augum frönsku sýmbólistanna í lok 19. aldar og upphafi þeirrar 20. var ljóðið leyndarmál, draumur sem tjáði óséðan veruleika. Ljóð Elísabetar eru meira en draumur. Draumurinn er raunverulegri en efnisheimurinn. Hann býr yfir sjálfu sálarlífinu og þar búa ást og sorg og endalaust flæði sem samsvarar náttúrunni. Skynblöndun líkama og náttúru er algeng. Hugsanir og tilfinningar verða að fossi sem steypist niður. „Og finnst að hljóti að vera hyldýpi fyrir neðan þessar tilfinningar. Eða eru þetta hugsanir.“ - segir í ljóði úr Dans í lokuðu herbergi. Áberandi er barnið í stórum hættulegum heimi. Barnið er hrætt við vonda kallinn í sjónvarpinu en í raun er það hræðslan sem býr hið innra. Ljóti kallinn er inni í hausnum á barninu. Hyldýpi heims og manneskju verður að þeirri miklu víðáttu sem engin bönd fá haldið. Elísabet er tilfinningaskáld, og síðari ljóðabækur staðfesta það enn frekar. Titillinn á næstu ljóðabók Sjáðu, sjáðu mig. Það er eina leiðin til að elska mig sem kemur út 1995, segir meira en mörg orð. Í millitíðinni koma út smásagnasafn og örsögur sem síðar verður vikið að.
Ljóðin kalla á lesandann, biðja um augu hans og skynjun á þessum orðum tilfinninga – „sjáðu , sjáðu mig.“ Ást og sorg eru jafnframt meðal helstu yrkisefna. Bláa blómið hans Novalisar (1772-1801) frá rómantíkinni er orðið að bláum fuglum og bláum tárum, bláu vatni. Melankólía og innra hugarvíl birtast í bland við óslökkvandi þrá. Þunglyndið er stór svartur fugl sem læsir klónum í ljóðmælanda. Konan er vanmáttug gagnvart allri þessari sorg. Ljóðin gráta sig til lesanda í einu flæði. Í þriðju ljóðabókinni og jafnframt þeirri næst nýjustu Vængjahurðinni frá árinu 2003, hefur þráin út úr sorginni breyst í þrá eftir ást. Þar birtist löngun sem býr í líkama, huga, sjálfi – en fyrst og fremst sú sem býr í draumnum. Fuglsvængirnir úr fyrri ljóðum eru nú fiðrildi sem flögra um bókina í upphafi og endi, flögrar þegar ástin er samþykkt og þar með draumnum gefið líf.
Bókin skiptist í 108 stutt ljóð eða ljóðabrot sem öll vinna saman líkt og dropaflæði í vatnsstreymi. Ljóðin verða sem ein blóðrás af ljóði. Þau eru líkamleg og meðvituð um dauðleika sinn. Þau eru líkami, náttúra, sturluð þrá – allt sem lifir í augnablikinu, samruni og sundrun. Og líkt og í fyrri ljóðum þrá þau að deila einmanaleikanum, að komast út úr skáldskapnum og gera drauminn að einhverju meira en innri raunveruleika. Sem fyrr er ljóðmælandi kona sem hrærist í sínu innra lífi og fyrir utan er „hann.“ Eina nóttina opnaði hann fyrir henni vængjahurð í draumi. Við það leitar hugur lesanda að blaktandi hjartalokum.
Ljóðin eru ort á tímabilinu 8. júní til 18. september 2003. Líklegast eru það lifidagar þeirrar ástarþrár sem birtist í ljóðum Vængjahurðarinnar. Ástin er líf, ljóð, ljós og umfram allt trú sem ljóðmælandi gefur sig á vald: „Viltu ráða yfir mér, svo ég tapi líkamanum,/ og finni að það ræður eitthvað yfir líkamanum“ . Þessi eilífa leit eftir samruna, og einmitt samruna innra og ytra lífs, verður mjög áþreifanleg í ástarþránni. Ástin og trúin á hana verða að skáldskap. En samlíking ástar og trúar er ekki úr lausu lofti gripin. Ágústínus kirkjufaðir (354-430) fjallaði um þá innri þrá sem trúin felur í sér. Hann leit á ástina sem eins konar þrá, bón, hreyfingu – sem liggur í ákveðnum farvegi er hefur takmark (Arendth, Hannah: Love and Saint Augustine. Ritstj.: Scott, Joanna Vecchiarelli; Stark, Judith Chelius. Chicago/London 1996).
Í Vængjahurðinni er ástin ljóð og ljóðið ást, og með hverju ljóði eru fleiri skref tekin til að nálgast takmarkið. Þar segir meðal annars:
Þetta ljóð er bæn, til að segja þér að þú ert lífið,
af því ég botna ekkert í þér en langar alltaf í þig.
Í þessu tilliti er jafnframt hægt að taka undir orð Juliu Kristevu sem segir ástina hafa tekið við af trúarbrögðunum á 20. öldinni. Þetta er kreppa nútímamannsins að hennar mati því í því felst eilífur skortur og ástleysi, þar sem takmarkinu verður aldrei náð heldur er það ávallt í fjarlægð í ástarþránni. (Kristeva, Julia: Histories d´amour. París 1986)
Að horfast í augu til að deila einmanaleikanum,
hafa ekki um það orð. Annars deilist hann ekki.(Vængjahurðin, s. 44)
Í riti Roland Barthes Orðræða ástarinnar fjallar hann meðal annars um þá orðræðu sem býr hið innra og sjálfsveran stendur fyrst og fremst ein með í sínu skóglendi einsemdar. Trú og erótík eiga það sameiginlegt að lifa sínu glæstasta lífi í einangrun frá öllu utanaðkomandi. (Barthes, Roland: A Lover´s Discourse. Fragments. (Fragments d´un discours amoureux, 1977) 2002).
Einmanaleikinn í bland við þrána er það sem einkennir þessar þrjár ljóðabækur Elísabetar, hverja á sína vísu. Leit að viðfangi á mörkum innri og ytri heims, að sætta sjálfið og þá togstreitu sem sjálfsveran glímir við í ólíkindalegum heimi innra lífs:
Leyfðu mér að vera fljótandi.Leyfðu mér að falla.
Leyfðu mér,
ég get ekki lifað lengur svona.
Ég veit ekkert hver ég er.
Ég er brjáluð kona.
Ég vil bara fá að syngja.Syngja
uns brjóst mitt rifnar,
og allt fyrir utan
titrar af söng,
sem ég skynja
á þessum landamærum.(Sjáðu, sjáðu mig. Það er eina leiðin til að elska mig, s. 24-5)
Rúm eru hættuleg, frá árinu 1991, er önnur bók Elísabetar, og hefur að geyma safn hættulegra smásagna. Þar er barnið á ferð í vafasömum heimi, þar sem sammannlegur ótti dvelur í bland við sakleysi sem einnig má finna í fyrstu ljóðabókinni. Hver man ekki eftir því að hræðast eitthvað undir rúmi? Þessi tilfinning býr jafnvel ávallt með okkur, að eitthvað lúri í skúmaskoti, undir rúmi eða inni í haus og hjarta. Hér birtist fín brú milli einlægni og íróníu, en þessi sýn á heiminn er mikilvægt einkenni á skáldskap skáldkonunnar og er sér í lagi að finna í smá- og örsögum hennar, en síður í ljóðunum. Litlu sögurnar eru upphafið að seinni tíma örsögum þar sem dregin er upp tragikómísk mynd af tilverunni. Hér birtist sterk fortíðarþrá og framleiðsla minninga. Fjölskyldan. Pabbi, mamma, börn og afinn sem segir sögur sem byrja allar á „einu sinni var.“ Ellu Stínu örsögurnar byrja oftar en ekki í þessum sama dæmisagnastíl. Stíleinkennin í örsögunum gefa skáldskaparröddinni fjarstæðukennt rými þar sem háði er beitt með alvarlegum undirtón. Lesandi veit oftar en ekki hvort hann á að gráta eða hlæja. Galdrabók Ellu Stínu kom fyrst út 1993 og helst hún í hönd við Lúðrasveit Ellu Stínu sem birtist þrem árum síðar. Segja má að tragikómískur dæmisagna- og boðskaparstíll sé eitt helsta sérkenni á skáldskap Elísabetar, þar sem fáránleiki tilverunnar lifnar við. Fótboltasögur frá árinu 2001 er einnig bók í sama formi en efnistökin eru þar ólík og nokkuð einsleitari þar sem þemað er fótboltaíþróttin og gamansöm tækling á þeim myndhverfingum sem fótbolti getur af sér. Í örsögunum má finna þörf til að einfalda flókin heim líkt og barn myndi gera. Það velur sér kannski hafið og heimtar bát, eins og litla prakkaralega stúlkan með bláu augun gerir í Lúðrasveitinni. En hafið er oft nálægt tilfinninga-skáldskapnum og kallast á við sjóinn inni í manneskjunum. Ævintýri og óhugnaði er jafnvel blandað saman. Draugasaga breytist í ævintýri með demöntum og skrítnum fiskum eins og gerist í ljóðinu „Haf dans“ úr fyrstu ljóðabók Elísabetar. Þar tekst óhugnaður draugasögunnar á við ævintýralegan blæ, og líkin á hafsbotni eru demantsskreytt.
Furðu og ólíkinda „barnasagan“ Aðalheiður og borðið blíða kemur út árið 1998, en ári síðar tekur alvarlegur og harmrænn undirtónn völdin í skáldsögunni Laufey. Hér er verulegur háski og jafnvel hryllingur á ferð í sögunni um hana Laufeyju sem býr í braggahverfi í Reykjavík. Þau þemu sem kenna má við ástarþrá, sorg og einsemd manneskjunnar eru enn á ferð en birtast í öðru formi í skáldsögunni. Heimurinn er illgjarn og ekki gerður fyrir alla. Tvíradda frásögnin segir frá þeim Laufeyju og Þ. Lesandi fylgist með hugsunum þessara tveggja persóna á víxl og veit að eitthvað hræðilegt á líklegast eftir að gerast. Persónurnar eiga erfitt uppdráttar og hugurinn afvegaleiðir þau bæði, þótt á ólíkum forsendum sé. Stílbrögð sögunnar kallast á við smá- og örsögur höfundar, þar sem háð og einlægni blandast saman, en sagan Laufey býr þó frekar yfir sorglegum óhugnaði en ævintýri. Frásögninni er pússlað saman úr stuttum smásagnakenndum brotum úr hugskoti persónanna. Það fer því vel á að úr sögunni var unnin leikgerð, einþáttungur Laufeyjar.
Glíman við leikritaformið hefur orðið skáldkonunni töm. Eldhestur á ís frá 1990 var fyrsta leikverk hennar sem sett var á svið. Leikhópurinn kallaði sig Eldhest og fékk húsaskjól á vegum Leikfélags Reykjavíkur. Þar vann leikritahöfundur náið með leikstjóra og leikhópi, sem er að verða æ algengara í dag. Síðan hefur Elísabet skrifað leikrit, leikþætti, einþáttunga og útvarpsverk fyrir ýmsa hópa. Það nýjasta er The Secret-Face (Blinda kindin) sem unnið var í samstarfi við leikhóp og sýnt árið 2004 í Iðnó. Verkið er skrifað og var leikið á ensku, og því líklegast hugsað til útflutnings að einhverju leyti, sem og að fleiri en Íslendingar hérlendist geti notið þess. Í The Secret Face berst konan við ólíkar raddir sjálfsins og reynir að jarðsetja þráhyggjur sínar og finna út hvað er raunverulegt og hvað ímyndun – eða öfugt. Hér sameinast ást, sorg og einmanaleiki, í fáránleika tilverunnar sem er jú líklegast búin til úr tilfinningum, svo úr verður sprenghlægilegt leikhús í ætt við absúrdisma.
Skáldskapur Elísabetar Kristínar Jökulsdóttur er persónulegur og öll framleiðsla hans vísar í einkaheim sjálfsverunnar. Ljóða- og leikritagerðin kallast um margt á við skáldskap Nínu Bjarkar Árnadóttur (1941-2000). Persónugerving tilfinninga eins og til dæmis sorgar og ástar er algeng í ljóðrænu þessara tveggja íslensku skáldkvenna þar sem hættuleg átök eiga sér stað í innra lífi. Með örsagnastíl sínum stígur Elísabet síðan skref inn í einlægan fáránleika þar sem sveiflast er á mörkum gráturs og hláturs. Óhætt er að segja að hún sé tilfinningaskáld sem segir: „þetta er ég.“ Eftirfarandi örsaga er gott dæmi um þetta:
Stelpa með tilfinningar
Einu sinni var stelpa sem var alltaf með tilfinningar. Hún var beinlínis að springa úr tilfinningum, sendi þær í allar áttir og notaði þær mest til að verða skotin í strákum og svoleiðis fuðraði hún upp í ást og losta. Stelpan var að brenna upp eins og áramótabrenna og vantaði stjórn, auðmýkt og öryggi til að veita þessum tilfinningum í farveg. Andinn var að tærast úr höfði hennar og hjarta og þannig á sig komin fetaði hún eftir einstigi í átt til felufjallanna. Forsjónin sendi henni þá tvo engla með skilaboð, englarnir liðsinntu stelpunni og leiddu hana í sannleikann. Þegar hún steig upp úr hafinu logaði jörðin og hún skildi að guð hafði skapað heiminn úr tilfinningum og að tilfinningar eru eldsneyti fyrir hugmyndir. Hana dreymdi um að skapa heim í leikhúsi og skíra verkið börn eiga heim því börn voru alltaf að segja henni afhverju himinninn væri blár, hvað væri straumur og draumur, eitthvað um rafmagn og ávexti og biðja hana um að muna töfrana.(Galdrabók Ellu Stínu, s. 62)
„Stelpa með tilfinningar“ lokasagan í Galdrabók Ellu Stínu, sýnir vel persónulega afstöðu höfundar og súmmar upp meginefniviðinn: stelpa, flæðandi tilfinningar, haus, hjarta, hræðsla, öryggis- og sannleiksleit, leikhúsheimur, börn og töfrar – að skapa sinn heim. Ég er að skrifa um myndina af mér segir Elísabet, og minnir þar á finnsku skáldkonuna Edith Södergran (1892-1923) sem sagðist vera að skapa sjálfa sig í skrifum sínum, að ljóð hennar væru vegurinn til hennar sjálfrar. Skáldskapur íslensku skáldkonunnar er samofinn sjálfsverunni. Með tilfinningar að vopni vefur symbólísk skáldskaparröddin sig áfram í einkaheimi.
© Soffía Bjarnadóttir, 2005.
Ástin er opnun : Um skáldskap Elísabetar Kristínar Jökulsdóttur
Elísabet Kristín Jökulsdóttir er höfundur smárra bóka fremur en stórra skáldsagna með miklu magni af blaðsíðum og breiðum sögulegum lýsingum. Hún er fremur skáld augnabliksins en heilla æviskeiða því hún dvelur meira við það sem stendur okkur nær og býr innra með okkur, rennur í blóðinu, slær í hjartanu, finnst við snertingu og ertir hugann. Verk hennar fóðra hversdagslega skynjun okkar og upplifun og eru tilfinningalega snertanleg en ekki fjarlæg og óhöndlanleg. Hinar einstöku og smáu lýsingar hennar ná alltaf almennri og djúpri skírskotun í huga lesandans og þó hún dvelji við sitt eigið líf verður það henni að endalausri uppsprettu.
Hugsýn hennar er margbrotin og það er eins og allt verði henni að skáldskap. Hún er bjartsýnt skáld og bersögult sem með samræðu, vangaveltum, hugmyndum, sköpun og skáldlegri sýn VEFUR efnivið sínum og tilfinningum saman. Efnið sækir hún að stóru leyti í áföll, sterkar tilfinningar, minningar, maníu, ofbeldi, ást, galdra, fantasíur, bernsku og dauða en það sem eftir situr í huga lesandans er alltaf hið jákvæða, sköpunin og lífsorkan. Það veður oft á henni í stílnum eins og hún segir í Dauðanum í veiðafæraskúrnum, með vísun til ELEGÍU dótturinnar um móður sína Jóhönnu; „enda þurftum við að vaða yfir ár og fórum ekki alltaf vaðið.”
Í þessu ljósi er Elísabet eins og talandi eða mælandi skáld fremur en RITAÐ skáld og yfirlesið - performer í daglegu lífi - kona sem kemur til dyranna eins og hún er klædd og segir orð og setningar sem slíta í sundur hversdagslega, viðurkennda og skynsama, bælda og hulda orðræðu. Að því leyti eru hún hefðarbrjótur í tungutaki (efni) og líka í útgáfu verka sinna (formi) því að fáir íslenskir höfundar hafa fylgt sjálfum sér jafn vel eftir í skipulögðu kaosi og Elísabet Jökulsdóttir. Hefðbundin og torsótt leið rithöfunda er að hengja verk sín á snaga forlaga og dvelja í viðurkenndu skjóli, fá ritstýringu og reglulegan árafjölda á milli útgefinna verka, jafnstórra verka sem vaxa og verða stærri, frá ljóði til smásögu til skáldsögu.
Myndsýn Elísabetar er sérlega skapandi og gæti kallast spontant eins og þegar hún segir í nóvellunni Síðan þessi kona varð trúuð (2005): „Blokk er svo sorgleg, að búa saman en búa samt ekki saman. Þú verður að skilja á milli sagði ég eins og skurðlæknir” (61). Og í Heilræði lásasmiðsins má lesa þessa lýsingu: „Heilinn í mér taldi karlmenn skyldulesningu. Venjulega þegar ég hafði fengið áhuga á karlmanni fyllti hann útí heilabúið eins og nýlenduherra” (57). Elísabet er í þessum skilningi tónlistarmaður orða sem talar pólífónískt tungumál og slær nótur jafnt sem feilnótur því hana varðar ekki um hina miklu heild í stóra samhenginu sem stundum er kennd við epík með upphafi, miðju og endi. Hún leikur sér miklu meir við lýrík og dramatík og minningar og gerir það á persónulegan hátt þannig að hún nær að miðla til lesandans þessum almennu og djúpu gildum, viðhorfum í gegnum ótal smáverk í stóra samhenginu.
Í þessari umfjöllun verður athyglinni beint að skáldverkum Elísabetar sem komu út eftir árið 2005. Fjórar skáldsögur liggja eftir hana frá þessum tíma: Síðan þessi kona var trúuð hefur hún verið til vandræða í húsinu (2005) Heilræði lásasmiðsins (2007) Heimsóknartíminn (2010) og loks verðlaunasagan Aprílsólarkuldi (2020).
Sjúkdómar mínir leggjast á hugsanir
Síðan þessi kona var trúuð hefur hún verið til vandræða í húsinu (2005) er 107 blaðsíðna nóvella og byggir fyrst og fremst á samtölum og samskiptum tveggja persóna. Í raun etur hún saman eða stillir upp persónugerðum andstæðum, annars vegar heilbrigðri afstöðu afgreiðslumanns í byggingarvöruverslun sem lýtur þeirri kröfu að hafa vinnu OG svo hinu geðveika sem birtist í líki konu sem kemur að utan og er að gera upp húsið sitt til að koma reiðu á óreiðuna.
Segja má að hús konunnar sé hlutgerving hennar. Mjög áhugaverð samlíking og reyndar má segja að hús eða rými í verkum Elísabetar eigi sér hliðstæðu eða myndhvörf í hugum kvenna. Konur í verkum hennar búa í húsum eða herbergjum og eru oft lokaðar þar inni. Hér er nauðsynlegt að nefna verk eins og Kattahirðir í Trékyllisvík, Dauðinn í veiðafæraskúrnum, Anna á Eyrabakka og Heilræði lásasmiðsins. Þessi tengsl milli kvenna og húsa er áhugavert að skoða nánar. Í þessari sögu er hún (konan) og húsið eitt og hið sama. Þar má ekki skilja á milli. Hið kaotíska hús endurspeglar innra líf konunnar. Kona sem „málar stofuna svarta” (64) og hún blandar (eins og málningu) lífi sínu inn í líf afgreiðslumannsins: „Nú skil ég allt, sagði hún, ég er búin að blanda þér inn í mín mál” (67). „Ég er alltaf að blanda öllum í mín mál” (68).
Málning og litir skipta þess vegna talsverðu máli í þessari sögu. Hegðun konunnar og það sem hún segir er dálítið á skjön við þær reglur sem gilda í byggingavöruverslun, konan er brjáluð í þeim skilningi en hefur þau áhrif á afgreiðslumanninn að hann sogast inn í hugsanir hennar og orðræðu. Það sem er áhugavert er að sagan er sögð frá sjónarhorni hins unga afgreiðslumanns en ekki frá sjónarhorni hinnar klikkuðu konu sem færir öll sín vandamál yfir á afgreiðslumanninn og gerir hann að persónu eða þátttakanda í sínu kaótíska lífi. Þetta sjónarhorn virkar truflandi á hefðbundinn og röklegan lestur og er í góðum ryþma við það sem verið er að lýsa.
Í þessu skáldverki birtist framar öllu dramatíska sýnin á höfundinum Elísabetu Jökulsdóttur. Hér er hún ekki endilega að SEGJA sögu, frekar að SÝNA hana með samtölum og samskiptum tveggja persóna í ólíkum aðstæðum. Þetta er hrátt verk sem við nærlestur eykst að gæðum og gamani því húmor Elísabetar sem höfundar liggur hér alls staðar á milli línanna. Hún er orðasmiður, rammgöldrótt og pólitísk eins sjá má af eftirfarandi: „Daginn eftir fór ég til konunnar, hún tók á móti mér í kjól [. . .] Aðspurð sagðist hún hafa stolið fánanum af Eddunni, gömlu strandferðaskipi frá þeim dögum þegar þjóðin átti skip. Svo hafði hún fengið þá hugmynd að grafa fánastöngina. Það væri einhver galdur í því en formæður hennar hefðu grafið ýmislegt í jörð sem væri að koma uppá yfirborðið” (105).
Sagan endar á því að afgreiðslumaðurinn færir sig úr stað og gerist þjónn eða afgreiðslumaður konunnar á hennar heimili, hún eldar fyrir hann mat og með erótískum samræðum þeirra uppfyllir hann drauma hennar um að komast til stjarnanna: „Og ég hef verið hér síðan að hjálpa henni að fara út með ruslið, vaska upp, sópa gólfin og svona ýmislegt annað BÆNAHALD. Eina sem ég er smeykur um að mér finnist það bera í sér að það öðlist einhvern æðri tilgang með tímanum” (107).
Trúin á umbreytinguna er oft háð kynlífi
Næsta skáldsaga Elísabetar Heilræði lásasmiðsins (2007) er í fullri lengd (219 blaðsíður) og myndi þess vegna ekki kallast nóvella. Hér beitir hún sama bragði og í fyrri sögunni og lætur atburðarásina hverfast um tvær persónur. En það sem greinir sögurnar að er að samtalsformið (dramatíkin) er að mestu leyti horfin en tiltölulega hefðbundið frásagnarform í fyrstu persónu tekið við. Þá er Heilræði lásasmiðsins (heit) og berorð ástarsaga karls og konu sem hefst á samförum í Central Park á Manhattan í New York. Þetta myndi kallast In medias res. Hvít kona með svörtum manni og sviðsetningin er frábær og Freudísk: „Það var í runnunum hjá Nál Kleópötru, nálin vísaði beint á eina stjörnuna á himni, Metropolitansafnið gróf rætur sínar enn lengra ofaní jörðina og framliðnir indjánar stóðu heiðursvörð. [. . .] Hann var svartur og ég var hvít, ég hafði aldrei nokkurntíma á ævinni hugsað um það að ég væri hvít. Svo elskuðumst við í garðinum. Einu sinni og aftur. Það var einsog galdrabæn” (7).
Konan í verkinu er að undirbúa frumsýningu á eigin leikriti í New York. Upphafið markar síðan sögu þeirra tveggja áhugaverða slóð sem varir í nokkra mánuði. Algea kemur til Íslands, peningalaus hattagerðamaður og trommuleikari, flytur inn til Elísabetar og sefur hjá henni af unaði og krafti á hverri einustu nóttu nema þær sem hann liggur í sófanum að horfa á sjónvarpið. Óhætt er að segja að textinn sé bersögull enda er kveikja þessarar sögu kynlíf í garði (Edensgarði) og því má lesa hana eins og sköpunarsögu, biblíulegar samfarir við göldróttar aðstæður og um leið á hún sér hliðstæðu í fæðingu í fjárhúsi þar sem öll gistiheimili eru upptekin.
Tveir heimar kallast eða takast á í þessari sögu: heimur raunveruleikans og heimur ímyndunar og eins og segir á blaðsíðu 81 unnu þessir heimar „stundum saman þegar um skáldskapinn var að ræða.” Lásasmiðurinn opnar síðan hliðið milli ímyndunar og raunveruleika, opnar unaðinn og opnar fyrir víðsýni, opnar heima sem geta verið innri heimar manneskju og ytri heimar, fjarlæg lönd og menningarheimar og jafnvel ómenningarheimar. Meðvitund og undirmeðvitund skipta hér líka máli og í myndrænum skilningi: svart og hvítt, veiki partur sögumanns og sá sterki en segja má að tvíhyggjan sem hugmynd sé sterkur drifkraftur í sköpunarverki Elísabetar. Trúin á umbreytinguna er oft háð kynlífi og framandi heimum. „Lokaða herbergið er goðsögn, sagði hann, falleg goðsögn, skrifaðu um það [. . .] Það eru allir með eitthvað svona lokað inní sér” (55).
Frásögnin er eins og samræða hennar og uppgjör við karlmennskuna. Kannski má sjá Heilræði lásasmiðsins líka sem óð til karlmannsins og þeirra gilda sem slá á fordóma. Hvít miðaldra kona og svartur karl. Það er eitthvað tabú við þetta en Elísabet kærir sig kollótta og stillir þessum andstæðum upp í forgrunni sögu sinnar. Hún upphefur oft það sem er bannað og bælt og ræðir það opinskátt: ástina, fordóma, kynlífið, dauðann, geðveikina, maníuna, ofbeldið, bælinguna, söknuðinn, rofið, töfrana, bersöglina, leyndarmálin og fortíðina sem hún gerir skýra grein fyrir í þessu skáldverki: „Fortíðin gerði árásir. Þú ert ekki nógu sæt, ekki nógu vel vaxin, þú ert leiðinleg, þú kannt ekkert á karlmenn, það er þér að kenna að hann er hættur að sofa hjá þér og liggur í sófanum. [. . .] Ég hafði farið í meðferð, verið edrú, unnið sporin, verið hjá geðlæknum og guðveithvað. Hvað þurfti tilað fortíðin héldist kyrr í gröf sinni. Var eitthvert leyndarmál sem kitlaði hana svo að hún reis uppúr gröfinni aftur og aftur. Kannski kom hún alltaf þegar ástin kom. Af því að ástin er opnun” (180).
Hér má segja að liggi einn af meginþráðunum í höfundarverki Elísabetar. Drifkraftur sem opnar á það sem er lokað með bersögli og afhjúpar leyndarmál sem hún segir að „séu hættuleg” (180) og til stuðnings máli sínu vísar hún til orða rithöfundarins Clarissu Pinkola sem fullyrðir að leyndarmál séu nátengd skömminni, forboðinni ást, afbrýðisemi, höfnun, ofbeldi, óviðurkenndum ástríðum og svo framvegis. Clarissa segir „að leyndarmál haldi okkur frá þeim sem gætu elskað okkur og vitnar í Jung sem heldur því fram að varðveisla leyndarmálanna haldi okkur frá undirmeðvitundinni. [ . . . ] Pinkola segir að þegar leyndarmál ráði ríkjum í sál konunnar sé alltaf að finna svæði sem hún kallar dauða svæðið, tilfinningalaust svæði sem bregst ekki við tilfinningalífi hennar eða annarra” (180).
Mikið ertu töfrandi í þessum kjól
Verðlaunasagan Aprílsólarkuldi frá árinu 2020 er fjórskipt 143 síðna skáldsaga. Vel byggt verk í jöfnum hlutum og sérlega fallega unnin bók til útgáfu. Ólíkt mörgum öðrum verkum Elísabetar hylur hún sig á bakvið persónuna Védísi (hennar annað sjálf) sem er í forgrunni sögunnar og drífur hana áfram. Með því myndar Elísabet skýrari og skáldlegri fjarlægð frá sjálfri sér en augljóst er samt sem áður af textatengslum við fyrri verk hennar að umfjöllunarefnið er hún sjálf, veikindi hennar og harmur. Kannski má segja að Aprílsólarkuldi sé nokkurskonar syntesa af öllu því sem hún hefur skrifað áður. Upphafsorð sögunnar „Dáinn. Dáinn” eru eins og hróp, angistarhróp, eins og „Vei, Vei” í fyrsta íslenska nútímaljóðinu Sorg eftir Jóhann Sigurjónsson eða upphafið í erfiljóði Jónasar Hallgrímssonar um Tómas Sæmundsson: „Dáinn, horfinn harmafregn”. Þetta er ákall til sögunnar sem fylgir í kjölfarið og úr því ákalli vex þessi áhugaverða frásögn og nær talsverðri stígandi, risi og virkilega eftirminnilegum og vel skrifuðum lokakafla.
Fyrsti kaflinn segir frá föðurmissinum og því rofi sem dauðinn skapar í lífi Védísar: „Pabbar kenna manni að rata leiðina svo maður geti seinna fundið nýja leið og pabbar eru þeir sem segja: Mikið ertu töfrandi í þessum kjól, það er ég viss um að strákarnir verða skotnir í þér” (24). Þetta stef um dauða föðurins er oft slegið í fyrri verkum Elísabetar og þetta fallega hugtak APRÍLSÓLARKULDI verður til við greftrun hans, fæðist í náttúrulegum skilningi eða rís upp (í kristilegum skilningi) þegar Védís horfir á „kistuna síga djúpt ofaní jörðina, það var aprílsólarkuldi og hún var enn að reyna að átta sig á því að hugsanlega væri hann ofaní kistunni” (24). Faðirinn farinn og hún vegalaus.
Annar kaflinn er lýsing á sambandi hennar og Kjartans, funheit ástarsaga þar sem Védís er þó þolandi fremur en gerandi, verður til í því rofi sem dauði föðurins skapar og lýsir leit hennar að staðfestu og því að spegla sig í öðrum (yfirgefin af föðurnum) og finna tilgang í lífinu. Hún er ástfangin á myndrænan og óstjórnlegan hátt: „Sorgin sem hafði frosið í taugum hennar af því að hún grét aldrei, fór eins og logheitur straumur um líkamann. Hún fann ekkert annað en ástina. Hún var ofurseld þessum tilfinningum, svo fullkomlega á valdi þeirra einsog foss sem fellur. Því náttúran birtir okkur hvarvetna myndir af líðan manneskjunnar. [ . . . ] Ef hægt væri að lýsa ást hennar með einu orði, má segja að ástin hafi verið opnun. Hún varð opin” (39-40). En um leið og ástin er opnun vísar Kjartan henni leiðina inn í heim áfengis og annarra vímuefna. Hér er opnun í tvennskonar skilningi: tilfinningaopnun og opnun skynfæra og um leið afar andstæðukennd opnun því önnur er skapandi og heilög en hin eyðandi og djöfulleg. Þau dvelja fyrst um sinn í húsi móður Védísar en það kemur að því að þau þurfi að fara en minnið um HÚSIÐ er mjög áhugaverður þáttur í verkum Elísabetar eins og áður hefur komið fram. Hún bæði persónugerir hús eða hlutgerir persónur sem hús. Í þessu verki er húsið rautt og það fyllist af fólki, dópistum og fyllibyttum sem eiga sér hvergi höfði að halla ekki ósvipað húsi organistans í Atómstöð Halldórs Laxness.
Í þriðja kafla stígur Védís inn fyrir þröskuld hinna klepptæku og gerist starfsmaður á Kleppi. Kjartan er á vertíð í Vestmannaeyjum og hún losnar úr fangelsi áfengis og vímuefna. Hún nýtir fjarlægðina frá Kjartani til að rifja upp sögur úr bernskunni, nær að yfirvega og „leggjast á bekkinn” eins og hún lætur persónur sínar gera svo eftirminnilega í Fótboltasögum frá árinu 2001. Ef hægt er að segja að annar kaflinn sér draumórakenndur og ástsjúkur þá gæti þriðji kaflinn kallast praktískur eða hversdagslegur en þó skynjar lesandinn að þarna er Védís á hraðri leið inn í maníuna sem brýst fram af krafti í síðasta kaflanum. Talsverð áhersla er lögð á að lýsa lækningaaðferðum og er athyglinni sérstaklega beint að geðlækninum Þorvaldi sem Védísi finnst líkjast pabba sínum „heillandi maður og fannst hún gæti orðið skotin í honum” (78) óhræddur að segja það sem honum finnst og reynir að draga sjúklingana út úr pilluheiminum og inn í veruleika vinnu og starfa. Um örlög Þorvaldar dregur Védís að lokum upp mjög áhugaverða útleggingu á stöðu geðlæknisaðferða: „Löngu seinna eftir að þessari sögu lýkur lokaðist hann inní uppreisn sinni, því kannski gerðist það með hann einsog marga fleiri góða uppreisnarmenn að það vantar menn sem geta verið þeim samferða. Svona eru uppreisnarmenn útilokaðir jafnvel þó að allir viti að það eru þeir sem hreyfa söguna” (79).
Fjórði kafli sögunnar sem er hennar aðalkafli og RIS er lýsing á manísku ferðalagi eða ráfi Védísar inn í og um hið heilbrigða samfélag - af jaðrinum. Hér koma upp hugarfarsleg tengsl við verk kvenna eins og „The Yellow Wallpaper“ (1892) eftir Charlotte Perkins Gilman um geðveika konu sem er sett í hvíldarmeðferð því konur eiga ekki að hugsa eða skrifa. En nú má ef til vill segja að séu aðrir tímar því með hegðun sinni, framkomu og hugsunarhætti Védísar í lokakaflanum má kannski fullyrða að Elísabet skrifi sig út úr sjálfri sér og maníunni. Minnir þessi lýsing á frásögur annarra íslenskra skáldkvenna eins og Ástu Sigurðardóttur í „Sunnudagskvöldi til mánudagsmorguns“ og Svövu Jakobsdóttur í „Konu með spegil“. Frásögn Elísabetar rís hæst í þessum fjórða hluta en endar eins og Guð úr vélinni þegar Jóhanna móðir hennar stöðvar ráfið og ranghugmyndirnar sem kvikna hver af annarri en mynda í raun áhugaverða röð röklegra atvika - tekur af henni ráðin og lætur loka hana inni á Kleppi.
Aprílsólarkuldi er sjálfsævisögulegt verk. Sagan er vel skrifuð og lýsir vel annars konar hegðun, geðveiki og hvernig leiðin inn í maníuna á sér upphaf í dauða föðurins, fær stuðning og fóðrun í neyslu vímuefna, þaðan í brjálaða oftúlkun á heiminum og endar svo með sjálfræðissviptingu móður á dóttur. Segja má að þetta verk kallist á við þá opnun, svo notað sé orðalag Elísabetar, sem er að verða í samfélaginu um málefni geðveikra. Hér nægir að nefna bókina og leikhúsverkið Vertu úlfur eftir Héðin Unnsteinsson og kvikmyndina Þriðji póllinn, um ferðalag Högna Egilssonar og Önnu Töru Edwards um Nepal.
Það er nauðsynlegt að geta hlustað á sitt eigið hjarta
Þegar kemur að því að skoða önnur útgefin verk Elísabetar en skáldsögur eftir árið 2005 má með einföldun flokka þau í ljóð, minningar eða memoir, fantasíur og ævintýri (fyrir börn) og eina afar smávaxna og innihaldsríka bók sem kallast Bænahús Ellu Stínu og með hliðsjón af heiti hennar kallast hún á við fyrri verk hennar Galdrabók Ellu Stínu frá 1993 og Lúðrasveit Ellu Stínu frá 1997. Bænahúsið hefur hins vegar allt annað innihald. Hún er þakkagjörðabók og trúarleg í þeim skilningi að í henni eru bænir og þakkir, sjálfshjálparbók sem kallast á við Litlu hvítu bók 12 spora kerfisins og síðast en ekki síst er hún umbreytingabók (hvað svo sem það er) full af jákvæðni og lítillæti og húmorískri afstöðu til lífsins. Hugtakið umbreytingabók vex út úr fyrstu málsgrein hennar þar sem Elísabet lýsir því þegar hún kemur gangandi heim að húsi sínu þennan tiltekna dag og það hafði umbreyst í bænahús en það sem vekur undrun og kærleika í huga lesandans var eins og Elísabet orðar það „það hafði verið bænahús allan tímann, þetta var bara dagurinn þegar ég sá það” (7).
Bænahúsið er í sérlega litlu broti. Einum áttunda af A4. Það er eins og Elísabet sé að „smætta skrif sín” á skáldlegan hátt og jafnvel heimspekilegan, skrifa sig inn í form heilunarbóka eða handbóka, bóka sem leiða þann áfram sem á í erfiðleikum í lífi sínu, handleiðslubóka og umbrotið skiptir hér miklu máli, bók sem fer vel í vasa og hægt að grípa til hvenær sem er. Textinn markast af hennar eigin húsi og þeirri ummyndun sem á sér stað þegar það breytist í bænahús. En það sem er svo magnað er að bænin er í öllum okkar daglegu verkum: að vaska upp, sópa, ryksuga eða skipta á rúmunum, allt eru þetta bænir því „bænir eru líka framkvæmd til að halda lífinu gangandi” (7). Bókin skiptist í fimm hluta: Bænahúsið, Kærleikssambandið, Bænir, Þakkargjörð og predikun og Andleg vakning. Þetta er heilunarrit. Samtal við guð eða eintal sálar með ávarpi til að opna á hugsanir og orða þær, hleypa þeim út, gefa bældum tilfinningum útrás, gefa þeim vængi, lyfta þeim upp og máta þær með guði: „því þá heyrist bara í þessu hungraða hjarta sem er líka samanherpt af sorg og reiði, þetta er svo gamalt guð, eins og gamall hnefi sem getur ekki opnast, og kannski er gullmoli í honum, minn eigin gullmoli, Elísabet” (45).
Ísbjörnin á Hótel Victoría (2006) er í umbroti bæklingur frekar en bók. Á baksíðu skilgreinir höfundur verkið sem MINNINGABÓK og segir þar frá því að henni hefði aldrei tekist að gráta dauða föður síns þótt sextán ár væru liðin frá láti hans en með hjálp tvíburasona hennar sem þá voru tíu ára tekst henni að breyta hinum þurra gráti í minningar.
Bæklingurinn er samsafn þrjátíu og fjögurra örsagna eða leiftursagna sem allar hverfast um samskipti við föðurinn og samlíðun sögumanns með honum. Föðurlegar frásagnir (barns) af samskiptum dóttur og föður sem draga má lærdóm af. Hann miðlar af reynslu sinni og þekkingu og hún meðtekur það sem hann gerir og segir. Sögur af samskiptum sem þroska og mennta, alls ekki föðurlegar áminningar. Allar sagðar í fyrstu persónu og enginn milliliður milli veruleikans sem þær segja frá og lesandans. Það sem pabbi segir og gerir, því pabbi miðlar fróðleik, talar af reynslu og útskýrir fyrir barni. Þetta eru augnabliksmyndir, hugmyndir, leiftur frá liðnum tíma, minningar þar sem sögumaður lætur hverja og eina hverfast um eitthvað eitt efni eða kjarna: álfana, leikhúsið, dúfnagildrur, hnetur og hunang, furðuverur, rökkrið, jörðina og stjörnurnar svo nokkuð sé nefnt.
Algengasta upphaf hverrar frásagnar er orðið pabbi eins og í sögunni „Dramatík og furðuverur“ þar sem segir: „Pabbi sýndi mér og Illuga ýmislegt úr bókum. Hann sagði okkur frá indjánum, risaeðlum, furðuskepnum á sjó og landi sem hétu undarlegum nöfnum” (17). Ævintýralega orðasambandið „Einu sinni” er líka algengt eins og í frásögninni „Karlsvagninn og Pólstjarnan“ þar sem segir: „Einu sinni útá svölum á Lindarbraut sýndi pabbi okkur Illuga Karlsvagninn. Það tók heillangan tíma því við vorum svo lítil og höfðum vanist því að sjá himinhvolfið sem glitrandi óreiðu” (23). Fyrir vikið eru þessar frásagnir trúverðugar eða raunsannar, sjálfsævisögulegar og mynda milliliðalaust samband milli þess sem segir frá og þess sem les. Hins vegar gera þær ráð fyrir bakgrunnsþekkingu lesandans á atriðum úr lífi Elísabetar.
Heiti bæklingsins er sótt í eina frásögnina sem tengist Grikklandsdvöl fjölskyldunnar á sjöunda áratug síðustu aldar (þegar hún var barn) og þau eru stödd á hóteli á Rhodos og sögumaður verður í fyrsta skipti vitni að þrumuveðri og hugarfarslega tengist það ótta barnsins við ísbirni úr sögunum um Nonna og Manna sem hún las á sama tíma. Þetta veldur henni miklum ugg og hún heldur að ísbjörn búi undir rúminu sínu, svo að hún pissar undir en pabbi hennar læknar óttann með því að segja að ísbirnir þyldu ekki hitann í Grikklandi, þeir myndu bráðna. Niðurstaða þessarar sögu er áhugaverðust og húmorísk þegar sögumaður segir: „Það var einsog ég fengi eldingu í hausinn og síðan hef ég aldrei verið í vandræðum með rök” (9).
Kattahirðir í Trékyllisvík (2011) er tvískipt verk milli frásagnar (ævisögu á tveimur tímaplönum) í fyrri hluta og ljóða um svipað eða sama efni í seinni hluta verksins. Raunsætt endurlit og lýsing á ferð sögumanns til Trékyllisvíkur með það skemmtilega hlutverk í farteskinu að passa ketti og hús á meðan húsráðendur (bróðir sögumanns og kona hans) bregða sér bæjarleið í merkilegum erindagjörðum. Það er kveikjan að bókinni en síðan kviknar á fleiri þráðum atburðanna og minninganna þegar komið er á staðinn: um dvöl hennar sem ungrar stúlku í sveit á þessar slóðir og samskipti hennar við heimafólk og fjölskyldu sína. Frásögnin kallast mjög á við verk Hrafns Jökulssonar frá árinu 2007 Þar sem vegurinn endar en báðar þessar bækur segja að nokkru leyti frá því sama.
Kattahirðir er hefðbundin endurminningabók til að byrja með en breytist svo í ljóðabók í seinni hlutanum. Efni beggja hlutanna er það sama sem gæti kallast mannlíf og minningar í Árneshreppi á Ströndum: Litla Ávík, Stóra Ávík, Kistuvogur, Finnbogastaðafjall, Seljanes og Drangar svo nokkur örnefni séu nefnd. Áhugaverð og skemmtileg bók aflestrar og klassísk í þeim skilningi að þegar sögumaður kemur aftur á þessar kærkomnu heimaslóðir kveikir það á einhverju nýju. OPNUN tilfinninga þar sem engu er leynt er eitt öflugasta mótífið í verkum Elísabetar. Hér birtist það á skýran og einlægan hátt:
Ég sat við eldhúsborðin í hreppnum og hlustaði. Eða ég reyndi að hlusta og þá datt mér í hug að ég hefði verið send hingað á sínum tíma tilað hlusta á hjartað. Það hafði verið lokað en hafið og æðarfuglinn höfðu opnað það, með sínum hjartslætti og þá komst ég að því að allt hefur hjartslátt, lífið er einn hjartsláttur, og það er nauðsynlegt að geta hlustað á sitt eigið hjarta ef maður situr við borð með manneskju og vill heyra í henni hjartað. (25)
Dauðinn í veiðafæraskúrnum (2017) er minningabók og ELEGÍA í frjálsu formi. Hér er kveikjan dauði móðurinnar Jóhönnu Kristjónsdóttur, frásögn sett fram eða skrifuð í 26 númeruðum hlutum, mislöngum eins og frásagnarljóð með eftirmála sem er hnýtt aftan við frásögnina eins og rúsínu í (pylsu)endanum. Verkið hefur að undirtitli Frúin á neðri hæðinni leysir frá skjóðunni eins og um sakamálasögu væri að ræða. Sögusviðið er hús Jóhönnu og Elísabetar við Drafnarstíg í Reykjavík: „Miðstöð heimsmálanna og leyndarmálanna” eins og Jökull Elísabetarson segir í tilvitnun í byrjun bókar. Hér skiptir HÚSIÐ máli og er persónugert í Jóhönnu og persónan Jóhanna hlutgerð í því.
Tími verksins skiptir líka máli og er nákvæmlega afmarkaður með upphafi og endi. Frásögnin er tímasett frá 8. til 11. maí og bókin útgefin árið 2017 - en með ótímasettum hugleiðingum fyrir framan og aftan atburðarásina sem dauðinn stýrir. Þess vegna er tímanálgunin í verkinu almenn og afstæð og getur náð yfir þúsund ár. Nándin í þessum texta er mjög sterk. Dauðinn kemur í heimsókn og tekur móður sögumanns og ljóðmælandinn mætir aðeins of seint og það vekur óþægilegar og sérstakar tilfinningar með lesandanum um augnablik og eilífð:
Hún dó í hádeginu.
Hádeginu?
Dóttir hennar sagði kvöldinu áður:
Ég kem í hádeginu.
En þá sagði hún:
Ekki í hádeginu.
Svo dó hún í hádeginu.
Hádeginu.
Dóttir hennar kom kortér yfir eitt.
Og var hún þá farin?
Já, þá var hún farin, hafði verið að kveðja.
Heit í hnakkanum, köld á höndunum.
Útlimir kólna víst fyrst.
Blessunin.
Blessunin hún Jóhanna.
Sólin í hádegisstað og fullt tungl.
Lokadagur vertíðar.
Það er eins og einhver hafi skrifað þetta. (8)
Helsta stílbragð þessa einstaka verks er klifun sem skapar textanum sérstakt flæði og dýpt og undirstrikar svo vel væntumþykju og eftirsjá, býr til takt sem minnir á hjartslátt eða gangvirki klukku og undirstrikar innilegt samband móður og dóttur. Auk þessa eru tveir ljóðmælendur eða sögumenn til staðar í verkinu sem til gamans mætti kalla Elísabetu fyrstu og Elísabetu aðra. Þær ræðast við, önnur úr djúpinu og hin í hversdeginum eins og dæmið hér að ofan sýnir. Það gefur verkinu dramatíska eiginleika og afbyggir þá bælingu og feimni um tilfinningar sem fylgir dauðanum og hefðbundinni jarðarfararstemningu.
Alvörukona og stjarna sem lifir í kosmosinu
Enginn dans við Ufsaklett (2014) er ljóðabók sem hefur ekki eins ákveðna sjálfsævisögulega tengingu og Dauðinn í veiðafæraskúrnum því hér er engin persóna kölluð sínu eigin nafni heldur notast við ÉG-ljóðmælanda sem fjallar um samskiptin sín í blíðu og stríðu við HANN. Hin númeraða framsetning ljóðanna í Dauðanum er horfin en heiti komin í staðinn eins og í Kattahirðinum. Þetta er þrískipt, heildstæð og skemmtilega myndskreytt ljóðabók en nafnið kemur fyrst fram í Heilræði lásasmiðsins þar sem sögumaður (Elísabet) getur ekki sofnað um miðja nótt og vinur hennar Algea situr í stofunni og horfir á „not a decent movie” en í stað þess að setjast hjá honum ákveður hún að fara í göngutúr um miðja nótt: „Hann var hneykslaður á göngutúrnum en ég gekk útað Ufsakletti sem stendur við sjóinn skammt frá heimili mínu. Ufsaklettur var vinur minn, ég hafði dansað í kringum hann í maníu, kveikt ljós í honum um áramót, dúklagt hann með vinkonu minni, klappað honum blíðlega og kennt tvíburunum að hann væri ævintýraklettur” (84-85).
Dansinn á sér ekki lengur stað, þessi tengsl og snerting við sköpunina og lífið, náttúruna og ævintýrin eru horfin og ástin er orðin ein taugahrúga eins og segir í titli verksins. Ljóðahlutarnir eru þrír og bera nöfnin tilhugalíf, sambúðin og skilnaðurinn eins og atburðarás í sambúð tveggja einstaklinga gæti gert. Ljóðin eru mislöng en svipuð að byggingu nema tvö lykilljóð sem kallast „Alvörukonan“ í byrjun bókar og „Alvörukona II“ í lok bókar sem eru prósaljóð. Að vera mæld út með sjóninni, vera til sýnis fyrir aðrar skiptir hér talsverðu máli:
Hann sagði að ég væri alvörukona og ég féll í trans á staðnum, loksins var einhver sem sá mig einsog ég var, að ég var ekki eins og konurnar sem þurftu háhælaskó, þrönga mittisjakka, púður, meik og augnskugga, sléttujárn og brjóstin svellandi upp úr brjóstahaldaranum, eða stoppaðar upp með sílikonpúðum [ . . . ] en áður en ég vissi af var hann búinn að gefa mér háhælaskó, púður, meik, varalit, augnskugga, klæða mig í nælonsokka og korselett. (11)
Umsnúningurinn á sér stað og ofbeldi og kúgun taka ástina í þjónustu sína. Þessi ljóð segja áhrifamikla og lifandi sögu af skaðlegum samskiptum tveggja einstaklinga, ástarsögu þeirra þar sem óstjórn tilfinninga ríkir, kúgun og ofbeldi en samt ríkir alltaf svipuð stemning í ljóðunum, enginn munur á því fyrsta og því síðasta því frjáls afstaða til viðfangsefnisins og fordómaleysi, yfirvegun og bersögli, þroski og húmor hafa svo mikil áhrif á innihaldið. Hér er hvergi að finna reiði eða hatur þrátt fyrir allt sem hefur gengið á. „Barnið í bókinni“ birtist undir lok verksins sem tengir nútíðina við fortíðina og dauða föðurins sem áður er vikið að:
Ævintýrið var tekið í burt
frá barninu
og barnið þurfti að fara inn í
fullorðinsheiminn
og þá sá enginn að þetta var
barn.
En lok bókarinnar sækir kraft sinn í töfra þar sem sögukonan hrærir endalaust í pottum nema þegar hún leggur sig en þá hreyfist sleifin af sjálfri sér og með taktföstum hætti bera hljómur trommunnar og ljóðin hana út úr eldinum og endir bókarinnar er hápunktur hennar og um leið tilvísun í stílbragð Íslendingasagna: „er svo kyrrt um hríð.”
Stjarna á himni - Lítil sál sem aldrei komst til jarðar (2018) er lítil og nett en mjög áhugaverð ljóðabók um fósturlát. Hún hefst á tilvitnun í HKL: „Grátur er lífsmerki” sem segir að sorg og vanlíðan sé óhjákvæmilegur fylgifiskur þess að lifa. Ennfremur segir í ljóðinu Að rata:
Þegar ég er svona ráðvillt
er best að horfa í ljósið
og skrifa
og vita hvort penninn
ratar.
Þetta er áhugaverð leiðbeining til þeirra sem eru villtir í margvíslegum skilningi og um leið hvatinn að sköpun Elísabetar. Ljóðin fjalla um þá sorg og líka þá sátt sem fylgir slíkum missi, sorgin er eign hvers fyrir sig sem er áhugaverð afstaða og sem slík er ekki hægt að taka yfir sorg frá öðrum. Allir eiga SÍNA sorg og þurfa að glíma við hana. Ljóðið „Hegðun“ er áhugavert í því ljósi:
Þér er sama hvernig mér líður
sagði mamma þegar ég var lítil
og kannski er það þess vegna sem ég æði
inní sársauka annarrra á skítugum
skónum og byrja að taka til.
En það þarf ekki að taka til
heldur leyfa fólki að syrgja.
Stjarna á himni er speglun þeirrar sálar sem aldrei komst til jarðar og varð að efnislegum veruleika. Hún heldur áfram að lifa í kosmosinu, agnarlítið ljós í víðáttu miklu myrkri, alheimi, eitthvað sem tindrar, óefnislegt fyrirbæri sem er æðra, ljós sem aldrei varð að efnislegum veruleika, holdi sem hreyfði sig, anda sem hugsaði og talaði eða að fræjum sem spruttu upp sem blóm.
Barnið sem opnaði huga skáldsins
Músin sem flaug á skottinu (2013) er saga fyrir börn og fagnaðarverk í stóru broti eins og litabók, tileinkuð ömmustelpum Elísabetar sem hún segir að hafi gefið henni lífið upp á nýtt. Þetta er Einu sinni saga, samtal draums og veruleika, samtal bælingar og frelsis, einsemdar og vinskapar, samtal músar sem býr í þröngri holu ofan í jörðinni og fugls sem flýgur um loftin blá. Þetta er manngerð mús því hún notar skóflu og sefur á kodda en í draumunum er henni sagt hvað hún geti gert til að leysa vandamál sín. Hún getur orðið að fugli í draumi þó hún sé mús í veruleika og þess vegna er mikilvægt að láta ekkert standa í vegi fyrir því að raungera drauma sína. Þetta er leikandi texti, leikur með orð og orðasambönd sem er eitt af einkennum Elísabetar sem skálds sem hún fylgir svo vel eftir í næstu sögu sinni um Önnu á Eyrarbakka þar sem hún bókstaflega setur eyra á bakka og í gegnum það eyra opnast ný veröld, dyr inn í annan heim.
Anna á Eyrarbakka (2015) hefur að undirtitli Upphaflega barnasaga og er kveikjan að frásögninni ferð og dvöl kvíðafulls rithöfundar í skáldahús á Eyrarbakka. Barn sem er kannski ekki af þessum heimi knýr dyra hjá skáldinu og opnar hug þess - beinir sjónum skáldsins annað og spyr það undarlegra spurninga sem dregur athyglina frá upphaflegu markmiði dvalarinnar í húsi sem er vissulega á afskekktum stað utan höfuðborgar og nálægt úthafsöldu Norður Atlandshafsins. Hún sér skarfinn í hundraða tali á gömlu steinbryggjunni og tengir hann við minningu að vestan og við ómæli tímans. Stúlkan dregur hins vegar skáldið inn í aðra atburðarás sem er hrollvekjandi og leikur sér með endurtekningar eins og í talmáli eða í ryþma. Hér er um heillandi flæðitexta að ræða í formi fantasíu sem býr til tengingu við aðra heima í gegnum eyra, lifandi og afskorið sem er borið fram á bakka: Myndhverfð og óvænt útgáfa af Eyrarbakka.
Hér er höfðað til heyrnar því sögumaður heyrir skvaldur í Singapúr, hvernig vagga Mesapótamíu ruggaði ofurhægt sögulega í gegnum eyrað á bakkanum - en síðan brýtur hún upp þennan skilning á veröldinni með orðaleik og breytir Mongolíu í mongólíta sem þarf að skera eyrað af og stúlkan sker það af. Sögumaður nýtir sér eyrað eins og gátt inn í aðra heima því fantasían þarf alltaf að hafa dyr eða lykla að öðrum heimi. Hér er það gert í gegnum eyra sem hlustar á þjáningar heimsins, stríðshörmungar, flóttamannavanda og drukknun barna í Miðjarðarhafi. Við þurfum að hlusta, kunna að hlusta á aðra, hlusta á þjáningar þeirra, örvæntingu, ímyndanir og djöfulsskap. Eyrað er ein af leiðunum ásamt öðrum skynsviðum inn í heilann og til hjartans.
Niðurlag
Elísabet Jökulsdóttir er höfundur sem flakkar á milli forma. Hún er síleitandi og skrifandi um svipað efni en finnur því alltaf nýtt eða endurnýjanlegt form. Umfjöllunarefnið og lífsreynsla hennar sækir stíft á hug hennar sem hún finnur útrás og skáldlega sköpun á ótrúlega fjölbreyttan hátt, hversdagslegan og djúpan í senn og í mismunandi persónum og á ólíkum sviðum.
Allt verður Elísabetu að skáldskap eða skulum við segja list. Listsköpun hennar býr í því hreinlega að bjóða góðan daginn og segja að þetta líði hjá, komast heil og sterkari í gegnum lífið og lækna þá sjúkdóma og örvun sem glímt er við, alkahólisma og geðveiki, hugaróra og sköpun. Segja má að þáttur í sköpun hennar og skrifum sé eins og SKRIFTUN eða játun og leitun að sátt við sjálfa sig, umhverfi sitt, fjölskyldu sína og guð. Verk hennar Bænahúsið ber þess sterkust merki en sú bók er í raun persónuleg og trúarleg handbók til betra og æðra lífs. Hún þarf hreinlega að rétta sig af til að lifa og hún réttir sig meðal annars af með því að skrifa. Finna má þennan þráð í flestum verka hennar: gagnvart móðurinni í Dauðanum í veiðafæraskúrnum, gagnvart föðurnum í Ísbjörninn á Hótel Viktoría, gagnvart fordómum, kynlífi og ást í Heilræði lásasmiðsins og svo mætti áfram telja.
Eins og áður hefur komið fram er Elísabet ekki ritstýrt skáld. Að því leyti lýtur hún ekki kröfum markaðarins nema þess sem hún hefur búið til sjálf með persónulegum, sýnilegum, talandi og skapandi tengslum við lesendur sína: með sjálfsölu bóka sinna. Þess vegna hefur hún skapað sér FRELSI til að gefa út bækur sem forlögin myndu líklega hafna. Hún lætur slag standa og verkin hennar eru eins og persóna hennar, margbrotin, fjölbreytt, mótsagnakennd, þau eru augnablik fremur en rökleg og mótuð framvinda sem lagar sig að kröfum, straumum og stefnum. Í verkum Elísabetar verður hið handahófskennda að heild þegar á allt er litið. Höfundar þurfa nefnilega að fylgja sjálfum sér og sköpun sinni af einlægni og trúmennsku og það gerir hún svo sannarlega þrátt fyrir erfiðleika og andstöðu og hefur haldið áfram að skrifa og skapa af því að það er köllun og örugglega leið til frelsis og lækninga.
Jón Özur Snorrason, apríl 2021
Greinar
Um einstök verk
Ástin ein taugahrúga: enginn dans við ufsaklett
Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir: „Lásar, lyklar og lokuð herbergi“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar, 76. árg., 3. tbl. 2015, s. 134-138
Eldhestur á ís
Hrund Ólafsdóttir: „Eldhestur á ís“ (ritdómur)
Vera, 9. árg., 4. tbl. 1990, s. 39
Galdrabók Ellu Stínu
Guðbjörn Sigurmundsson: „Tilfinningar eru eldsneyti fyrir hugmyndir“
Tímarit Máls og menningar, 55. árg., 1. tbl. 1994, s. 104-7.
Laufey
Sigríður Albertsdóttir: „Óhugnaður og braggablús“
Tímarit Máls og menningar, 61. árg., 2. tbl. 2000, s. 109-112
Sigríður Lára Sigurjónsdóttir: „Hrollvekja úr braggahverfi“
Vera, 18. árg., 6. tbl. 1999, s. 57-8.
Lúðrasveit Ellu Stínu
Ragnheiður Jónsdóttir: „Lúðrasveit Ellu Stínu“ (ritdómur)
Vera, 15. árg., 6. tbl. 1996, s. 37-38
Skilaboð til Dimmu
Sólveig Jónasdóttir: „Skáldkonur Íslands“
Vera, 15. árg., 4. tbl. 1996, s. 40-41
Verðlaun
2020 - Íslensku bókmenntaverðlaunin: Aprílsólarkuldi (eitthvað alveg sérstakt) - frásögn um ást og geðveiki og huggun
2018 - Rithöfundasjóður Ríkisútvarpsins
2015 - Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna: Ástin ein taugahrúga. Enginn dans við Ufsaklett
Tilnefningar
2021 - Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna: Aprílsólarkuldi (eitthvað alveg sérstakt) - frásögn um ást og geðveiki og huggun
2016 - Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs: Ástin ein taugahrúga. Enginn dans við Ufsaklett
2014 - Menningarverðlaun DV í bókmenntum: Ástin ein taugahrúga. Enginn dans við Ufsaklett
Saknaðarilmur
Lesa meiraÞegar fullorðin dóttir missir móður sína skríða áföllin upp úr gröfum sínum og veröldin fyllist af saknaðarilmi.Aprílsólarkuldi
Lesa meiraDauðinn í veiðarfæraskúrnum
Lesa meiraNæturvörðurinn
Lesa meiraAnna á Eyrarbakka: upphaflega barnasaga
Lesa meiraÁstin ein taugahrúga: enginn dans við Ufsaklett
Lesa meiraHeilræði lásasmiðsins
Lesa meiraÍsbjörninn á Hótel Viktoría
Lesa meiraSíðan þessi kona varð trúuð hefur hún verið til vandræða í húsinu
Lesa meira