2. útg. Mál og Menning
Úr Galdrabók Ellu Stínu:
Þriðji maðurinn
Tveir menn bjuggu í höfðinu á þriðja manninum. Hann þóttist vita hvað mennirnir hugsuðu og heyrði þá oft tala saman. Í höfði hans var vatn og mennirnir tveir sátu stundum sinn hvoru megin við vatnið á góðviðrisdögum og svo heyrðist skvamp þegar fiskur beit á og var dreginn á land. Þriðji maðurinn hló þá kampakátur og var kannski staddur í strætó og einhver ókunnugur leit á hann útundan sér. Hann beit á, sagði þriðji maðurinn til útskýringar. Þá var litið snöggt undan og horft út í hríðarkófið. En þriðji maðurinn brosti út að eyrum því að hann vissi sko hvað hann söng.
Innbrotsþjófurinn
Einu sinni var innbrotsþjófur sem alltaf var að brjótast inn og alltaf að vona að kona á rósóttum slopp myndi vakna upp og segja þegar hún sæi á honum angistarsvipinn: Ég veit að þú ert góður inn við beinið, greyið mitt. Og síðan myndi hún gefa honum mjólk að lepja úr skál.