Rán Flygenring myndskreytti.
Bókin er nr. 3 í bókaflokkinum um Bernskubrek Ævars vísindamanns.
um bókina
Þegar Ævar vísindamaður var alveg að verða tólf ára gerðist svolítið hræðilegt: kisinn hans, hann Einstein, hvarf sporlaust. Fljótlega kom í ljós að það var ekki bara Einstein sem var horfinn, heldur öll gæludýr á höfuðborgarsvæðinu!
Og til að gera vont verra brotlenti risastórt geimskip í miðri Öskjuhlíðinni, stútfullt af stórhættulegum geimverum! Eða var það ekki annars?
úr bókinni
Endirinn á síðasta kafla var svo hræðilegur að mér finnst að ég verði að byrja þennan kafla á einhverju fallegu. Þannig að í smástund skulum við sjá fyrir okkur krúttlegan hvolp. Hann er brúnn og hvítur, hann er að leika sér með bolta og það er geimvera að éta fæturna á Ævari!
Fyrirgefið, ég gat ekki haldið aftur af mér lengur. Höldum áfram.
Ævar lá á gólfinu.
Hann heyrði geimveruna smjatta og slafra. Hann fann ekki fyrir neinum sársauka (nema í rassinum sem hann hafði lent á þegar hann datt). Á röskutsstundu hafði Ævar ákveðið að ástæðan fyrir því að hann fyndi ekki fyrir sársauka væri auðvitað sú að geimveran væri löngu búin að éta af honum fæturna! Þess vegna fann hann ekki fyrir þeim.
"Ó, vei," hrópaði hann (sem var eitthvað sem Ævar hafði aldrei sagt upphátt áður en hafði einu sinni heyrt í leikriti).
Slafr! Slabb! Gleyp!
Hljóðin sem geimveran gaf frá sér voru hræðileg. Þau voru blaut og sveitt, nánast eins og einhver væri að háma í sig alltof-soðið spagettí. eða ís með dýfu. Eða slepjulegan sking...
Ævar hætti að veina. Hann hafði allt í einu fattað svolítið.
Hann settist upp eins hratt og hann gat.
Hann sá strax að hann var enn með tvo fætur!
Geimveran hafði ekki einu sinni reynt að narta í stórutána á honum! Þess í stað sat hún á gólfinu, hélt með tveimur mjóum höndum um skinkuna sem hafði runnið af höfðinu á Alexander og hámaði hana í sig í pínulitlum bitum. Hún lygndi aftur augunum og sæluhrollur liðaðist niður eftir bakinu á henni.
"Hvað gerðist eiginlega?" muldraði Embla ofan í gólfið, þar sem hún lá enn í grúfu við opnar útidyrnar. Ævar starði á geimveruna sem tók annan bita af skinkunni og tuggði af áfergju.
"Ég rann á skinkunni," sagði Ævar vandræðalegur. "Og hún sá hana og varð svöng."
(s. 117-118)