Bókin er nr. 2 í bókaflokkinum um bernskubrek Ævars vísindamanns.
Rán Flygenring myndskreytti.
um bókina
Þekkir þú einhvern sem vill helst hanga í tölvunni allan daginn? Þannig var Ævar vísindamaður þegar hann var ellefu ára. Það gekk meira að segja svo langt að hann skráði sig í sumarskóla til að þurfa ekki að vera úti í sólinni. En það reyndist vera stórhættuleg ákvörðun. Þetta var nefnilega enginn venjulegur skóli …
Fyrsta sagan um bernskubrek Ævars vísindamanns, Risaeðlur í Reykjavík, sló rækilega í gegn og hér halda ævintýrin áfram.
úr bókinni
Ævar opnaði og lokaði munninum nokkrum sinnum, en datt ekkert í hug að segja. Að lokum tók Sæþór af skarið.
"Hvernig veistu þetta allt?" Marla klappaði fartölvunni sinni.
HALLÓ
stóð allt í einu á skjánum. Marla brosti.
"Halló," sagði hún lágt. Strákarnir færðu sig nær. Þeir vissu ekki alveg hvort þeim ættu að heilsa eða ekki. Þeir höfðu aldrei talað við tölvu áður. Þeir ákváðu báðir að veifa skjánum og leið frekar fáránlega.
"Sko," sagði Marla. "Munið þið eftir skólasetningunni?" Strákarnir kinkuðu kolli. "Upphaflega hugmyndin að Tæknilega ögrandi leyniskólanum við Aðalstræti kom ekki frá Sæborgu, heldur Filippusi K. Diðrikssyni." Sæþór greip andann á lofti.
"Vísindamanninum sm dó! sagði hann fáránlega spenntur. Marla kinkaði hægt kolli.
"Já," sagði hún leið á svip. "Vísindamanninum sem dó." Hún leit undan í smástund og saug örsnöggt upp í nefið. Allt í einu fattaði Ævar hvaðan hann kannaðist við púkalega svipinn sem hann sá stundum á Mörlu. Hann hafði séð nákvæmlega sama svi á myndinni sem Sæborg hafði varpað upp á tjald á skólasetningunni af stofnanda skólans. "Hann var afi minn," bætti hún við.
"Ó..." sagði Steinþór lágt. "En hvað ... hvers vegna ..."
"Hvernig dó hann?" spurði Ævar varlega.
"Hann var svakalega klár," sagði Marla. "Átti ótal tölvur. Hann var alltaf að vinna í þeim og búa til eitthvað nýtt. Og einn daginn sagði hann mér að hann dreymdi að stofna skóla. Risastóran skóla þar sem krökkum væri kennt að forrita. Hann vildi kenna þeim að búa til hluti sem gætu gert framtíðina að betri stað. Hann var alltaf vandur að koma í mat á sunnudögum og spjalla við okkur." Hún leit upp. "En einn sunnudaginn komst hann ekki í heimsókn. Hann þurfti að vinna. Svo komst hann heldur ekki þann næsta og að lokum hættum við alveg búast við honum. Hann sagðist alltaf þurfa að vinna." Hún lækkaði róminn örlítið. "Hálfu ári seinna kallaði mamma á mig og sagði mér að það hefði orðið skammhlaup í einni af tölvunum hans. Að það hefði kviknað í og að afi væri ... Að hann hefði ... fuðrað upp."
(s. 113-115)