Bókin er nr. 1 í bókaflokkinum um bernskubrek Ævars vísindamanns.
Rán Flygenring myndskreytti.
um bókina
Áður en Ævar varð vísindamaður var hann bara venjulegur strákur … eða kannski ekki alveg venjulegur. Hann langaði til dæmis ekkert að eiga vini og talaði helst ekki við neinn nema köttinn sinn, hann Einstein. En á ellefu ára afmælisdaginn hans breyttist allt!
Risaeðlur í Reykjavík er æsispennandi saga fyrir lesendur á öllum aldri. Hér segir frá sjö bandóðum risaeðlum, stórhættulegum unglingi, gagnsemi skotbolta, strætóbílstjóra í lífshættu og heimsins bestu félögum.
Úr bókinni
"Neineineineinei..." sagði Ævar eins hratt og hann gat á meðan hann skimaði fram og til baka um hólfið. "Eðlan hlýtur að vera hérna einhvers staðar. Hún bara verður að vera hérna einhvers staðar. Hún..." Hann hætti í miðri setningu þegar hann sá hliðið að garðinum. Það vaggaði rólega í vindinum.
Það var opið!
Ævar leit yfir hópinn. "Gleymduð þið að loka hliðinu?" sagði hann ískaldri röddu. Krakkarnir litu á opið hliðið og svo hvert á annað.
"Jah, við vorum með svaka mikið af kjöti..." byrjaði Hildur.
"Var ekki grænmeti líka?" spurði Marek.
"Já, og grænmeti" sagði Andri. Ævar leit á þau með skelfingarsvip. "Ég hélt að þú ætlaðir að loka!" bætti Andri við og benti á Hildi. Hún varð eldrauð í framan.
"Nei, ég var með kjötið. Þið sögðust ætla að loka! Þið komuð á eftir mér! Ævar leit á krakkana.
"Ég vissi að ég hefði átt að gera þetta sjálfur," sagði hann svo. "Það virkar langbest þannig." Krakkarnir hættu strax að rífast og störðu á hann. Ævar starði á móti. "Hvað? Ég hefði allavega lokað hliðinu!"
Í smástund sagði enginn neitt. Svo byrjuðu allir að tala í einu. Krakkarnir voru mjög ósáttir.
(s. 123-124)