Beint í efni

Glerfjallið

Glerfjallið
Höfundur
Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson
Útgefandi
Almenna bókafélagið
Staður
Reykjavík
Ár
1992
Flokkur
Barnabækur

Myndir : Rebekka Rán Baltasardóttir.

Um Glerfjallið:

Hvernig átti Halla að detta í hug að gamla spiladósin, sem Gúndína frænka gaf Frikka bróður hans, myndi leiða þau öll á vit ótrúlegra ævintýra. Hér segir frá kynlegum blákonum, musteri morgundrauganna og ógnvekjandi illfyglum. Hvert fór Frikki? Hvað eiga Halli og Gúndína að gera? Hvar er Glerfjallið?

Úr Glerfjallinu:

“Það er Frikki,” sagði ég. “Hann er horfinn.”
“Horfinn?” sagði Gúndína og vafði sænginni þéttar að sér. “Hvað ertu að segja? Hann hlýtur að vera...”
Hún var rokin af stað og var komin inn í herbergið okkar Frikka áður en ég gat snúið mér við. Ég flýtti mér á eftir henni. Gúndína stóð á miðju gólfi og leit rannsakandi yfir allt herbergið.
“Það vantar líka rúðuna í gluggann,” sagði ég hikandi.
Gúndína leit eldsnöggt á mig, einsog hún héldi að ég væri að gabba sig, en svo gekk hún út að glugganum. Ég fór þangað líka. Og nú sáum við að það var einsog rúðan hefði bráðnað því að það voru eftir leifar af henni allan hringinn.
“Var rúðan úr plasti?” spurði Gúndína.
Ég hristi hausinn, undrandi.
“Auðvitað ekki,” sagði ég. “Þetta var bara venjulega rúða úr gleri.”
Gúndína var á svipinn einsog rannsóknarlögregla. Hún strauk fagmannlega yfir það sem eftir var af glerinu og sagði að þetta væri víst örugglega gler. Síðan hóf hún skipulega leit að Frikka og á meðan notaði hún tímann til að yfirheyra mig.
“Í hverju var hann?” spurði hún.
“Náttfötum,” sagði ég og gat ekki ímyndað mér að Frikki hefði farið að klæða sig í eitthvað annað.
“En þetta?” spurði Gúndína og benti á hrúgu af fötum við endann á rúminu.
 “Hann var í þessum í gær,” sagði ég.
 Við leituðum inni í fataskápum og undir rúmum og Gúndína fór að kalla hástöfum á Frikka. Ég hélt hún myndi vekja alla í nágrenninu.
 “Hvenær sástu hann síðast?” spurði hún æst.
 “Í gærkvöldi. Áður en ég sofnaði,” sagði ég.
 “Hvað var hann þá að gera?”
 Ég hugsaði mig um og sá allt í einu Frikka fyrir mér þar sem hann sat og var að grúska eitthvað í spiladósinni.
 “Hann var að leika sér með spiladósina,” sagði ég. “Hann sat þarna í rúminu og vildi ekki fara að sofa um leið og ég.”
 Gúndína tók viðbragð og snerist í kringum sjálfa sig á miðju gólfinu.  
 “Spiladósin? Hvar er hún?”

(s. 27-28)

Fleira eftir sama höfund

Álagaeldur

Lesa meira

Draumkvæði

Lesa meira

Ferð undir fjögur augu

Lesa meira

Dvergasteinn

Lesa meira

Förunótt

Lesa meira

Jarðljóð

Lesa meira

Brúin yfir Dimmu

Lesa meira

Tummalinnan Valot

Lesa meira

Segðu mér og segðu ...

Lesa meira