Beint í efni

Heljarstökk afturábak

Heljarstökk afturábak
Höfundur
Guðmundur Ólafsson
Útgefandi
Vaka-Helgafell
Staður
Reykjavík
Ár
1998
Flokkur
Barnabækur

Úr Heljarstökk afturábak:

Hann hafði beðið í röðinni sem var að skrá sig í Menntaskólann við Hamrahlíð þegar hún birtist. Hún gekk inn í salinn og stillti sér upp í röð þeirra sem ætluðu að sækja um inngöngu í MR. Það var einmitt þá sem sturlunin náði tökum á honum. Það var engu líkara en hann fengi bylmingshögg í hausinn og allar gráu heilafrumurnar misstu samstundis vitið. Hann hafði aldrei séð svona fallega stelpu, aldrei.

Hún var í meðallagi há, svolítið búttuð og með það alfallegasta rauða hár sem hann hafði augum barið. Það hrundi niður axlir hennar eins og foss; eldfoss. Hann gat ekki haft af henni augun. Hún stóð í röðinni beint á móti honum og skoðaði einhvern bækling en skyndilega leit hún upp og horfði stórum, grænum augum beint á hann. Hann eldroðnaði og leit undan, skammaðist sín fyrir að hafa verið staðinn að verki að glápa á hana. Eftir litla stund vogaði hann sér samt að gjóa augunum á hana aftur og sá að hún brosti með sjálfri sér þar sem hún stóð og horfði beint fram fyrir sig.

Án þess að gera sér grein fyrir því hvað hann ætlaðist fyrir gekk hann úr röðinni og út úr Miðbæjarskólanum þar sem skráningin fór fram. Úti skein sólin á heiðbláum himni og hellti geislum sínum yfir Jón Guðmundsson sem var búinn að tapa glórunni. Hann gekk með dynjandi hjartslátt niður að Tjörn þar sem krían gargaði lífsglöð og kát.

- Vá, hvað hún var falleg! hugsaði hann og settist á tjarnarbakkann. Hann horfði á endurnar synda makindalega fram og til baka en sá bara fyrir hugskotssjónum sínum græn augu sem horfðu á hann undan rauðu hári. Þegar hann hafði setið drykklanga stund stóð hann á fætur og fór aftur inn í skólann. Hún var auðvitað á bak og burt og aðeins fáeinar hræður eftir. Hann gekk beina leið að borðinu og skráði sig í Menntaskólann í Reykjavík!

(s. 11-12)

Fleira eftir sama höfund

Klukkuþjófurinn klóki

Lesa meira

Lísa og galdrakarlinn í Þarnæstugötu

Lesa meira

Fader vår

Lesa meira

Emil og Skundi

Lesa meira

Emil og Skundi - allar sögurnar

Lesa meira

Emil og Skundi - Ævintýri með afa

Lesa meira

Emil, Skundi og Gústi

Lesa meira