Myndir: Halldór Baldursson.
Af bókarkápu:
Daginn sem Lísa strýkur að heiman lendir hún í ótrúlegum ævintýrum. Hún uppgötvar nefnilega Þarnæstugötu og kynnist furðulegum íbúum hennar sem eru hver öðrum fjörugri og skemmtilegri - nema auðvitað galdrakarlinn skelfilegi sem býr þar líka og hefur illt í hyggju. En Lísa og félagar hennar hafa hreint ekki hugsað sér að láta galdrakarlinn og bandamenn hans komast upp með neitt múður!
Úr Lísu og galdrakarlinum í Þarnæstugötu:
Dúkku-Lísa þrammaði niður brekkuna sem varð stöðugt brattari. Úff, hvað það gat verið erfitt að ganga svona niður í móti. Hana var farið að verkja í hnén og tærnar voru orðnar aumar. Þegar hún var búin að labba niður og niður í óratíma birtist grár steinveggur öðrum megin við götuna. Hún gekk meðfram honum þar til hún kom að beygju. Þegar hún kom fyrir hornið á veggnum sá hún að gatan endaði þarna allt í einu. Þetta var skrítið. GATAN VAR BARA EKKI LENGRI!
Þarna við enda götunnar var bara himinhár steinveggur. Upp eftir honum teygði sig vafningsviður, en það er svona gróður sem festir sig á veggi og klifrar upp eftir þeim. Veggurinn himinhái náði svo langt upp í loftið að Dúkku-Lísa sá ekki hvar hann endaði, sama hvernig hún reigði höfuðið. Hún reigði það meira að segja svo mikið að hún var hrædd um að það myndi bara losna af hálsinum og detta niður á rass. Hún hafði aldrei á ævi sinni séð svona háan vegg.
Dúkku-Lísa leit í kringum sig og sá þá allt í einu gat alveg neðst á veggnum. Það var svolítið erfitt að sjá þetta gat því það var eiginlega falið á bak við gras og stóra fífla. Í fyrstu sýndist henni gatið bara vera pínulítið og alls ekki nógu stórt til að hún kæmist í gegn en þegar hún kom nær var eins og það stækkaði.
- Við skulum fara hér í gegn, sagði Lísa við Dúkku, og vita hvort við finnum ekki aðra götu sem endar ekki bara allt í einu eins og þessi. OG SVO TRÓÐ HÚN SÉR Í GEGNUM GATIÐ.
Hinum megin var fullt af gróðri, háu grasi, burknum, hríslum og arfa en þó mest af risastórri hvönn. Lísa skreið á fjórum fótum í gegnum þennan villigróður, því þetta var sko villigróður. Það var svo erfitt að hún var að hugsa um að snúa við en þegar hún leit til baka virtist gróðurinn svo þéttur að hún sá enga smugu á honum. Svo hún varð bara að halda áfram. Skyndilega opnaðist gróðurflækjan fyrir framan hana og hún var komin í gegn. OG HVAR VAR HÚN ÞÁ? Hún var stödd á götu sem hún hafði aldrei séð. Þegar hún leit í kringum sig sá hún gamalt og skakkt tréskilti sem var eins og ör í laginu.
Hún gekk að skiltinu. Það var mjög erfitt að lesa það sem á því stóð því sumir stafirnir voru skakkir og aðrir sáust varla, en hún var samt nokkurn veginn viss um að á skiltinu stæði: ÞARNÆSTAGATA