Beint í efni

Guðmundur Ólafsson

Æviágrip

Guðmundur Ólafsson fæddist í Ólafsfirði 14. desember 1951. Hann stundaði nám við Menntaskólann á Akureyri 1967-71 og útskrifaðist síðan sem íþróttakennari frá Íþróttakennaraskóla Íslands á Laugarvatni 1972. Hann kenndi við Barnaskóla Eskifjarðar veturinn 1972-73 og síðan við Barnaskóla Akureyrar 1973-74. Guðmundur fluttist til Kaupmannahafnar 1974 og innritaðist í dönsku við Kaupmannahafnarháskóla og vann jafnframt lagerstörf. Á árunum 1975–1977 stundaði hann nám í leikhúsfræðum við Hafnarháskóla. Þaðan fór hann í Leiklistarskóla Íslands og útskrifaðist 1981.

Upp frá því hefur Guðmundur unnið fyrir sér við leiklistartengd störf og síðan bættust ritstörfin við 1986. Nokkur hliðarspor hefur hann tekið á þessum tíma, meðal annars við dagskrárgerð á útvarpsstöðinni Bylgjunni. Guðmundur hefur leikið í fjölda leiksýninga, einkum hjá Leikfélagi Reykjavíkur, bæði í Iðnó og Borgarleikhúsi. Einnig hefur hann leikið hjá Alþýðuleikhúsinu og Þjóðleikhúsinu. Hann hefur og sést í nokkrum kvikmyndum og sjónvarpsþáttum af ýmsu tagi.

Emil og Skundi var fyrsta bók Guðmundar. Hún fékk Íslensku barnabókaverðlaunin 1986. Síðan hafa komið út tvær aðrar bækur um ævintýri Emils og Skunda auk þess sem kvikmyndin Skýjahöllin er byggð á sögunum. Nokkrar aðrar barna- og unglingasögur eftir Guðmund hafa litið dagsins ljós. Ein þeirra, Heljarstökk afturábak, fékk Íslensku barnabókaverðlaunin 1998. Guðmundur hefur einnig samið nokkur leikverk, handrit að sjónvarpsefni og unnið að leikgerðum. Að auki liggja eftir hann þýðingar og greinar og sögur eftir hann hafa birst í blöðum, tímaritum og safnritum.