Æviágrip
Guðmundur Ólafsson fæddist í Ólafsfirði 14. desember 1951. Hann stundaði nám við Menntaskólann á Akureyri 1967-71 og útskrifaðist síðan sem íþróttakennari frá Íþróttakennaraskóla Íslands á Laugarvatni 1972. Hann kenndi við Barnaskóla Eskifjarðar veturinn 1972-73 og síðan við Barnaskóla Akureyrar 1973-74. Guðmundur fluttist til Kaupmannahafnar 1974 og innritaðist í dönsku við Kaupmannahafnarháskóla og vann jafnframt lagerstörf. Á árunum 1975–1977 stundaði hann nám í leikhúsfræðum við Hafnarháskóla. Þaðan fór hann í Leiklistarskóla Íslands og útskrifaðist 1981.
Upp frá því hefur Guðmundur unnið fyrir sér við leiklistartengd störf og síðan bættust ritstörfin við 1986. Nokkur hliðarspor hefur hann tekið á þessum tíma, meðal annars við dagskrárgerð á útvarpsstöðinni Bylgjunni. Guðmundur hefur leikið í fjölda leiksýninga, einkum hjá Leikfélagi Reykjavíkur, bæði í Iðnó og Borgarleikhúsi. Einnig hefur hann leikið hjá Alþýðuleikhúsinu og Þjóðleikhúsinu. Hann hefur og sést í nokkrum kvikmyndum og sjónvarpsþáttum af ýmsu tagi.
Emil og Skundi var fyrsta bók Guðmundar. Hún fékk Íslensku barnabókaverðlaunin 1986. Síðan hafa komið út tvær aðrar bækur um ævintýri Emils og Skunda auk þess sem kvikmyndin Skýjahöllin er byggð á sögunum. Nokkrar aðrar barna- og unglingasögur eftir Guðmund hafa litið dagsins ljós. Ein þeirra, Heljarstökk afturábak, fékk Íslensku barnabókaverðlaunin 1998. Guðmundur hefur einnig samið nokkur leikverk, handrit að sjónvarpsefni og unnið að leikgerðum. Að auki liggja eftir hann þýðingar og greinar og sögur eftir hann hafa birst í blöðum, tímaritum og safnritum.
Frá höfundi
Frá Guðmundi Ólafssyni
Alla tíð frá því að Inga í Koti kenndi mér að lesa sex ára gömlum hef ég lesið. Fyrst voru það hefðbundnar lestraræfingar eins og Litla gula hænan sem kenndi manni sósíalisma og hinar staglsömu setningar um Ása sem átti á og Ara sem átti ól eða var það Óli sem átti ólina. Seinna kynntist maður svo Bláu könnunni og hinni stórmerku og hrollvekjandi bók um Láka jarðálf sem var eins og stökkpallur eða kannski bara atrenna að óhugnaðinum í Dísu ljósálfi og Dverginum Rauðgrana. Sumar bækur þurfti maður ekki að lesa heldur voru þær lesnar fyrir mann, ýmist í skólanum, eins og Bláskjár sem var svo áhrifarík að maður trúði því á tímabili að maður væri sjálfur af göfugum aðalsættum, allavega sonur útgerðarmanns (þó var þetta áður en menn fóru að braska með fiskkvóta) eða þá að hlustað var á sögurnar í útvarpinu og má þar nefna Töfrahellinn sem Anna Snorradóttir las svo undur seiðmagnandi röddu. Þarna voru líka á vappi Kári litli og Lappi og Snjallir snáðar ásamt Högna vitasveini. Svo komu bækurnar um Árna í Hraunkoti og Rúnu og Gussa og Svarta-Pétur að ekki sé minnst á Enid Blyton; þar var nú aldeilis af nógu að taka: Fimmbækurnar, Ævintýrabækurnar, Dularfullubækurnar; allar um þessi vel gerðu ungmenni sem ALLTAF lentu í útistöðum við glæpamenn í sumarfríinu og höfðu líka ALLTAF betur að lokum.
Var ekki laust við að manni þætti glæpasamfélagið norður í ólafsfirði heldur fábrotið, að minnsta kosti ef miðað var við hið stórhættulega umhverfi sem Önnurnar og Finnarnir hennar Enidar lifðu í. Í besta falli heyrði maður af einhverjum sem höfðu verið staðnir að því að brugga áfengi, sem taldist varla til glæpa heldur var það flokkað undir eðlilega sjálfsbjargarviðleytni. Svo voru það bækurnar um Benna flugkappann knáa í Breska flughernum, sem hét áreiðanlega fullu nafni Benjamin Biggles og Biggles borið fram eins og það er skrifað. Bob Moran og Tom Swift komu líka inn á sjónarsviðið og hinar danskættuðu Jóa- og Kimbækur. Og af Skandinavísku lestrarborði voru það einnig bækurnar hennar Ann Cath Vestly um Pabbamömmubörnogbíloghúsiðískóginum ásamt Óla Alexanderfílíbommbommbomm og maður kynntist líka börnunum á Svörtutjörnum og erfiðri lífsbaráttu Sandhóla-Péturs og einhver átti nokkur blöð af Andrési Önd á dönsku. (En hvar var Astrid Lindgren?) Sunnar í álfunni klifruðu Heiða og Pétur í fögru og heilnæmu fjallalandslagi Alpanna og drukku geitamjólk og borðuðu geitaost sem allt læknaði, (þetta var fyrir daga mjólkurofnæmisins), milli þess sem þau jóðluðu af einskærri lífsgleði. Hér heima átti Hjalta litli afar bágt í erfiðum íslenskum raunveruleika en heldur var léttara yfir lambhrútnum Salómoni svarta og vini hans Bjarti. Og ekki má gleyma öllum skólaljóðunum um Sörla og heiðlóuna og Óla og Snata og gamla þulinn sem sat hjá græðI og hana systur mína sem sat úti í götu. (Ég er hræddur um að Herdísi Storgaard mundi ekki þykja það háttalag til eftirbreytni.) Og svo æjuðum við ögn og elskuðum vort land. Í Æskunni og Vorinu voru uppbyggjandi dæmisögur sem staðfestu það að maður ætti ekki að stela eða vera hyskinn og umfram allt ættu feður ekki að drekka brennivín því þá myndu börnin þeirra deyja eins og hann Villi litli. Og maður hélt áfram að þroskast og fylgdist spenntur með ástum og örlögum hjúkrunarkvenna, lækna, hreppstjórasona og vitavarða í sögum Ingibjargar Sigurðardóttur sem birtust alltaf fyrst í Heima er best.
Og áður en varði var maður farinn að feta sig út í heimslitteratúrinn og keypti smám saman hjá Steina Hólm öll heftin bæði af Manninum með stálhnefana og Basil fursta. Það voru dýrlegir tímar. Báðir börðust þeir gegn glæpum og spillingu en hvor á sinn hátt. Basil, þessi dularfulli og vel gefni maður sem notaði vitsmuni frekar en afl og svo hinn fagurskapti Stálhnefamaður, sem var vissulega skarpgáfaður en hafði auk þess mikla líkamlega burði sem hann notaði gegn óþjóðalýðnum. Svo fóru bækurnar um Zorro, sem hét réttu nafni Don Diego de la Vega, að koma út og enginn var fimari með sverðið og mamma saumaði svarta skikkju og við hana klæddist maður grænum stretsbuxum (sem vegna einhvers dularfulls misskilnings voru kallaðar startbuxur, sem er auðvitað miklu betra nafn) en það gekk erfiðlega að fá grímuna til að virka. Maður sá ekki nokkurn skapaðan hlut þegar hún var komin upp nema alveg beint fram; ekkert til hliðar eða upp og niður nema með því að hreyfa höfuðið og ef maður gerði það skekktist gríman og flækti málin enn frekar og er sennilegast að maður hafi frekar líkst hænu en baráttumanni réttlætis suður í Mexíkó. Gríman var því fljótt aflögð enda kom í ljós að allir þekktu mann þrátt fyrir hana. Prins Valíant var fjarskyldur ættingi Zorros og ekki má gleyma Bláu drengjabókunum og Rauðu telpnabókunum.
Tarzan apabróðir var skammt undan eftir að maður krækti í fyrstu bækurnar á bókamarkaði sem kom í bæinn eitt sumarið. Þar fann ég líka í kiljum bækurnar um uppáhaldið mitt, indjánann Léttfeta. Móhíkanann sem gat hlaupið dögum saman hratt og hljóðlaust sem vindurinn, sem var svo frábær sporrekjandi að jafnvel ein brotin trjágrein gat sagt honum langa sögu um þann sem hafði brotið hana. Og svo var hann líka göfugur og það sást ekki síst í augunum, þessum djúpu og fögru augum, þar sem einnig mátti lesa sársauka hins einmana manns sem var staddur á mörkum tveggja menningarheima. Já, Léttfeti var minn maður. Og það bættist í hópinn og enn var það Prentsmiðja Odds Björnssonar á Akureyri sem færði varninginn heim. Í þetta sinn bækur eftir Rafael Sabatini. Já, þær voru held ég tuttugu og ein og ég fékk þær allar í jólagjöf, innbundnar með rauðan kjöl og hétu flottum nöfnum eins og Víkingurinn, Drabbarinn, Launsonurinn, Sægammurinn og fjölluðu um ævintýralegt líf aðalsmanna úti í Evrópu, sennilega á sautjándu eða átjándu öld þegar heiður og riddaramennska skiptu máli. Og bæjarbókasafnið, þar sem var þessi undursamlega bókalykt sem ég hef aldrei fundið síðan, geymdi mikinn fjársjóð sem menn sögðu að Agnar frændi hefði lesið komplett.
Minnisstæð er saga Stefáns Zweig um Lögreglustjóra Napóleons og Anna Karenína, sem maður hélt að væri bara góður rússneskur reyfari en vissi ekki að tilheyrði heimsbókmenntunum. Ef maður hefði vitað það er vísast að hún hefði fengið að bíða betri tíma. Og afi átti bæði Hrakningar á heiðavegum og Sögu Snæbjarnar í Hergilsey og þær voru lesnar, bara af því að þær voru þarna í hillunum. Og svo var snökt svolítið yfir Solon Islandusi sem átti svo bágt alveg eins og lamaði drengurinn í Töfragarðinum þar sem var fugl sem hét því stórkostlega nafni glóbrystingur. Svo var manni allt í einu svipt úr dularfullum og sólríkum skrautgarði á ensku hefðarsetri upp á hrjóstrugar og kuldalegar íslenskar heiðar þar sem Halla hans Jóns Trausta hokraði á Heiðarbýlinu; og hún var einnig leikin í útvarpinu (einsog Hulin augu sem voru svo hrollvekjandi að maður fór ekki milli húsa eftir að skyggja tók meðan sú sería var í gangi). Svo var líka laumast til að lesa um hann Hjalta, sem hin stórláta og ríka kona Anna á Stóruborg tók sér sem ástmann. Laumast, sagði ég, vegna þess að manni þótti þarna rosalega djarf frá sagt þegar húsfreyjan smeygði sér undir sængina hjá hrollköldum smaladrengnum til að hlýja honum. Og svo komu Alastair MacLean og Desmond Bagley og allt í einu hafði Jack London laumað sér inn á bókalistann með ýmiskonar Alaskaævintýri og Hnefaleikarann; og það var ekki fyrr en löngu seinna sem maður vissi að hann hafði verið stórmerkilegur rithöfundur og kommúnisti. Og þegar hér var komið sögu var unglingurinn tilbúinn að leggja á bókmenntadjúpið og Fjallkirkja Gunnars Gunnarssonar var lesin. Svo kom pabbi heim af síldinni síðsumars 1967 og gaf mér Heimsljós Halldórs Kiljans Laxness sem hann hafði keypt á Seyðisfirði. Og maður las: Hann stendur ásamt tjaldi og sendlíngi í fjöruborðinu niðrundan bænum og horfir á ölduna sogast að og frá ?
Og það varð ekki aftur snúið.
Það er vegna allra þessara bóka og þúsunda annarra sem ég skrifa.
Guðmundur Ólafsson, 2002.
Um höfund
Um verk Guðmundar Ólafssonar
Guðmundur Ólafsson fæddist á Ólafsfirði 1951 og er auk rithöfundarstarfa þekktur leikari. Hann hefur gefið út eina smásögu og fimm barna- og unglingabækur. Þrjár bóka hans fjalla um Emil og hundinn Skunda sem kvikmynd Þorsteins Jónssonar Skýjahöllin byggir á. Fyrir fyrstu bók sína Emil og Skunda fékk hann Íslensku barnabókarverðlaunin 1986 og fyrir söguna Heljarstökk aftur á bak hreppti hann sömu verðlaun öðru sinni árið 1998. Í sögunni Klukkuþjófurinn klóki segir Guðmundur frá strákum í sjávarþorpi og í smásögunni „Faðir vor“ koma sömu persónur við sögu þótt efnistök séu gjörólík, en smásagan birtist í smásagnasafninu Vertu ekki með svona blá augu.
Emilsbækurnar og Klukkuþjófurinn eru sögur sem ætlaðar eru börnum en Heljarstökkið er dæmigerð unglingabók. Smásagan er í safni ætluðu unglingum en höfðar jafnt til fullorðinna.
Fyrst verður fjallað um Emilsbækurnar, síðan Heljarstökk aftur á bak, þá Klukkuþjófinn klóka og loks smásöguna „Faðir vor“. Ekki er tekið mið af útgáfuári bókanna við þessa röðun heldur sameiginlegum einkennum. Þótt verkin séu ólík innbyrðis er ekki um þróun að ræða heldur beitir Guðmundur mismunandi stílbrögðum til að ná fram mismunandi áhrifum og verk hans eru mjög jöfn að gæðum.
Emil, Skundi, Gústi, Gunna og afi
Fyrsta bókin Emil og Skundi kom út 1986, önnur Emil, Skundi og Gústi kom út 1990 og sú þriðja Emil og Skundi -Ævintýri með afa árið 1993. Seinni bækurnar eru sjálfstætt framhald þeirrar fyrstu. Hún gerist sumarið þegar Emil er 11 ára að verða 12, önnur veturinn eftir og sú þriðja sumarið þar á eftir. Sögurnar fjalla allar um afmarkað tímabil í lífi Emils, sú fyrsta gerist að mestu á einni viku, önnur á einu skólaári og sú þriðja að mestu á nokkrum dögum. Emil og Skundi fjallar um það hvernig Emil eignast hvolpinn Skunda. Emil, Skundi og Gústi fjallar um vináttu Emils og Gústa og leikritsuppsetningu sem þeir standa fyrir í skólanum. Emil og Skundi – Ævintýri með afa fjallar um ferð Emils, Gústa og Gunnu litlu systur Gústa til afa Emils á Ólafsfirði.
Sögurnar eru raunsæislegar, Emil er venjulegur drengur í Reykjavík og atburðir sögunnar gætu átt sér stað í raunveruleikanum, enda vísa sögurnar stundum í ævintýra- og hetjusögur af börnum eins og til að ítreka muninn:
Í bókum var svona lagað svo auðvelt. Þá fundu menn sér bara hlöðu og lögðust í grænt og hlýtt heyið. En hér var ekki hlýtt einsog í útlöndum. Og svo var hann þreyttur, svangur og kaldur(Emil og Skundi, s. 108)
Raunsæið er þó blandað ævintýramynstrinu. Gunna veiðir til dæmis stóran lax og Gústi fær mikla viðurkenningu fyrir leikritið. Og allar enda sögurnar vel, án lausra enda, sem vissulega gefur litlum lesendum kjark og trú á lífið.
Emil er ljóshærður og fíngerður strákur. Hann býr fyrst í Vesturbænum í Reykjavík en er fluttur í nýtt einbýlishús í Breiðholtinu í annarri bókinni. Hann er einkabarn í fyrstu tveimur sögunum en í þeirri þriðju eignast hann litla systur. Faðir Emils er járnsmiður og móðir hans vinnur í matvörubúð á daginn og sjoppu á kvöldin. Gústi er ári eldri en Emil, stór og rauðhærður. Hann býr hjá móður sinni ásamt Gunnu litlu systur sinni. Mamma hans vinnur á elliheimili og skúrar á kvöldin, þannig að Gústi þarf mjög oft að passa systur sína.
Öllum sögunum er skipt upp í stutta kafla þar sem atburðarás knýr áfram hnitmiðaða frásögn. Þannig eru til dæmis 22 kaflar í fyrstu bókinni og í flestum köflunum takast Emil og vinir hans á við einhverjar hindranir eða uppákomur sem heyra undir aðalspennuvaldinn. Sagt er frá í 3. persónu og þótt höfundurinn sjái inn í huga persóna eftir hentugleika heldur hann sig fyrst og fremst við Emil og hans upplifun á atburðum. Þegar mikið liggur við skiptir hann um svið, sýnir hvað er að gerast annars staðar á sama tíma, líkt og gert er í kvikmyndum. Frásögnin einkennist mjög af sviðsetningu og samtölum sem gerir fyrstu bókina tilvalda til kvikmyndunar. Samtölin lýsa á mjög raunsæjan hátt samskiptum fólks og höfundur hefur góða tilfinningu fyrir hversdagslegu málfari. Skopskyn höfundar gerir honum kleift að fjalla um viðkvæm mál í bland við spennandi atburðarás. Emil er klár strákur og oft fullorðinslegur og samtöl hans við fullorðna eru víða skemmtileg:
-Má bjóða hans hátign kaffi?-Já takk. Kannski pínulítið tár, sagði Emil einsog hann hafði svo oft heyrt Jósa segja.
(Emil og Skundi, bls. 37)
Gunna, systir Gústa, er sérstaklega fyndin, talar mikið og lætur aldrei kveða sig í kútinn:
„Gúðti, kúðti!b Þa er þíminn. Bleþþþ og takk fyðið þpjallið.“(Emil og Skundi, s. 62)
Hundurinn Skundi er einnig fjörugur og návist hans lífgar upp á bækurnar. Að auki er hann vitur og tryggur vinur líkt og þekkist úr eldri dýrasögum.
Skýr ádeila á samfélagið birtist í sögunum, foreldrar Emils eru að bugast vegna húsbyggingar og þurfa að vinna mikla aukavinnu og móðir Gústa vinnur myrkranna á milli til að framfæra fjölskyldunni. Fullorðna fólkið í sögunni er því oft þreytt, ergilegt og jafnvel ósanngjarnt eins og pabbi Emils sem svíkur loforð og bannar honum að fá hundinn. Í því tilfelli ákveður Emil að strjúka til afa síns á Ólafsfirði en Emil leitar einnig eftir samvistum við gamlan smið, Jósa, og sérkennilega hundakonu sem eins og afinn hafa tíma til að spjalla við hann.
Þar sem sagan er sögð frá sjónarhóli barna varpar hún fram spurningum um hvers vegna samfélagið sé svona, af hverju foreldrar geti ekki verið meira heima, af hverju þurfi að byggja stór hús og svo framvegis. Foreldrarnir reyna að útskýra hlutina eftir bestu getu þannig að bæði sjónarmiðin koma fram. Eins er sýnt að foreldrar gera mistök sem þeir sjá eftir og biðja fyrirgefningar á. Þeir hlusta stundum ekki á börnin sín og gleyma því sem skiptir mestu máli, nefnilega sínum nánustu. En foreldrar Emils svo og móðir Gústa og Gunnu láta sér annt um börnin sín, þau eru þrúguð af samviskubiti og reyna eins og þau geta að vera góðir foreldrar.
Almennt má segja að andi góðvildar sé ríkjandi í bókunum. Emil og Gústi eru báðir mjög duglegir og góðir drengir og þeir eru sérstaklega góðir við Gunnu sem reyndar er mjög meðfærileg. Báðir ná markmiðum sínum með dugnaði, Emil safnar sjálfur fyrir Skunda með blaðasölu og aðstoð við gamla trésmiðinn, Gústi leggur hart að sér og skrifar leikrit sem síðan er sett upp í skólanum við góðan orðstír.
Emil og Gústi eru líka á þeim aldri, 11 til 14 ára, að þeir eru farnir að skilja betur að lífið er ekki einfalt. Sögurnar lýsa hvernig þeir bregðast við ákveðnum vanda og spurningum sem upp koma. Í fyrstu bókinni bregst Emil við vaxandi spennu og óhamingju foreldra sinna, í næstu kemur í ljós að Gústi býr yfir leyndarmáli, pabbi hans er einn af rónum bæjarins, og í þeirri síðustu lenda krakkarnir í því að þurfa að koma afa Emils til hjálpar þegar hann fær einhvers konar hjartaáfall í útilegu með þeim í eyðifirði þar sem aðstæður eru erfiðar. Strákarnir sigrast á erfiðleikunum og læra ákveðin sannindi. Emil lærir í fyrstu bókinni að foreldrar hans elska hann og hann má ekki gera þau hrædd með því að stinga af. Eins er það ítrekað að það kostar vinnu og ábyrgð að eiga gæludýr. Í annarri bókinni er fjallað um gildi vináttu, mamma Emils fræðir hann um að vinir hjálpi með því að vera til staðar og hlusta, ekki sé hægt að leysa öll mál. Sömuleiðis útskýrir Gústi fyrir Emil að pabba hans sé ekki sjálfrátt og hann geti bara beðið og vonað að ástandið breytist, eins að fjölskyldan sameinist ekki úr þessu. Í þriðju bókinni tekst Emil á við það að afi hans sem honum þykir vænt um hafi næstum dáið og að börn komi ekki endilega í heiminn á réttum tíma, líkt og systir hans, og ástæðan sé ekki skortur á ást heldur peningum.
Heljarstökk aftur á bak
Heljarstökk aftur á bak er unglingasaga, fjallar um Jón Guðmundsson og fyrsta veturinn hans í MR. Við skráningu sér Jón stúlku og verður heltekinn af ást. Sagan lýsir síðan ástsýki Jóns, tilfinningasveiflum og aðraganda fyrsta kossins sem sagan, í anda rauðu ástarsagnanna, endar á:
Oft hafði hann í draumum sínum ímyndað sér hvernig það væri að kyssa þessa guðdómlegu stúlku en þær ímyndanir voru sem hjóm í samanburði við raunveruleikann. Hann lokaði augunum og sá stjörnur falla að himnum ofan og heyrði fegurstu klukkur klingja og gott ef ekki var stödd lítil strengjasveit einhvers staðar í nágrenninu!(Heljarstökk aftur á bak, s. 17)
Meðfram ástarsögunni er fjölskyldulífi Jóns lýst, skólalífinu og vinum hans. Sagan er farsakenndari en Emilsbækurnar og meira er um lýsingar þótt samtöl skipi enn stóran sess. Jón er eins og Emil mjög venjulegur drengur, jafnvel ofurvenjulegur, og líkt og margir unglingar passar hann sig vel á því að skera sig ekki úr fjöldanum. Farsaeinkennin koma í veg fyrir að sagan taki sig hátíðlega, sumar persónur eru of ýktar til að vera klisjukenndar. Jón, aðalpersónan, er í forgrunni og lýsingar á draumum hans, dagdraumum sem martröðum gefa innsýn í hugarheim hans en höfundurinn beitir einnig slíkum lýsingum í Emilsbókunum á skemmtilegan hátt. Dagdraumarnir snúast að sjálfsögðu um frægð og frama en í martröðunum renna atburðir úr hversdagslífinu saman og birtast í afskræmdri mynd.
Sagan er þroskasaga Jóns. Erfitt er að byrja í nýjum skóla, honum gengur erfiðlega í stærðfræði en með hjálp vinar síns nær hann að stórbæta sig. Heima hjálpar hann systur sinni sem á erfitt og á skemmtikvöldi í skólanum hættir hann að skammast sín fyrir foreldra sína og hreppir annað sætið í karókíkeppni. Jón glímir því við ýmis mál og stendur uppi sterkari á eftir.
Sagan gerist í nútímanum í Reykjavík og tekur lítillega á málefnum svo sem drykkju unglinga, hjásofelsi og anorexíu. Afstaða höfundarins kemur skýrt fram því persónur eiga ekki í mikilli innri baráttu vegna þessara mála. Jón drekkur ekki í byrjun og þó hann verði óvart drukkinn einu sinni er ljóst að hann verður það ekki aftur. Systir hans horast niður en sem betur fer virðist það aðeins vera anorexía á byrjunarstigi. Mynd sögunnar af lífi 16 ára unglings er því frekar einföld og átakalítil. Sagan er fyndin, rómantísk og endar vel sem er ágætis tilbreyting frá unglingasögum um lífsreynt fólk og undirheimalíf. Þetta er vel skrifuð, en nokkuð formúlukennd saga sem hefur það framyfir margar afþreyingarsögur að búa yfir meðvitund, hún miðlar tilfinningum sem allir kannast við en að öðru leyti reynir hún ekki að vera raunsæ.
Klukkuþjófurinn klóki
Í Klukkuþjófnum klóka taka ærslin völdin. Hún fjallar um strákahóp í sjávarþorpi og mest um tvo frændur sem búa í sama húsi. Frændurnir eru svo samrýmdir að þeir vakna á sama augnabliki og gera allt eins. Sagan gerist í sumarfríi á þeim tíma þegar mæður voru heimavinnandi og menn drukku Valash, Jollí-Kóla og Cream-Sóda. Hún byrjar við skólaslit og endar að hausti. Á æsilegan hátt er sagt frá glæstri kofabyggð og uppskeruhátíð krakkanna, síðan eru kofarnir brenndir og við tekur leit að sökudólgnum, honum er refsað fyrir brotið og önnur brot, strákarnir kasta frosnum tertum í barnaafmæli og sýna leikrit þar sem afmælisbarnið er rotað.
Frásagnarhátturinn er í 3. persónu og mikið er um útúrdúra og höfundarinnskot. Atburðarrásin er ekki heil eins og í hinum sögunum heldur eru það persónurnar og sumarfríið sem mynda ramma. Sagan fjallar um sérheim strákanna, fullorðnir koma ekki við sögu og ekki kemur til greina að blanda þeim í til dæmis kofamálin. Sagan er nostalgísk, birtir þrá eftir horfnum tíma og miðlar vel andrúmslofti þessa tímabils, smábæjarstemmningu og tísku, til dæmis eru strákarnir spariklæddir með bindi við skólaslitin og í afmælinu, þeir leika Roy Rogers og Dale á hátíðinni og Kobbi, einn strákanna, lætur sig hafa það að arka um í alltof stórum Zorróstígvélum.
Ólíkt hinum sögum Guðmundar er Klukkuþjófurinn er ríkulega myndskreyttur af Gretari Reynissyni og mynda texti og myndir skemmtilega heild. Myndirnar eru svarthvítar skopmyndir sem komið er fyrir hér og þar og alls staðar, jafnvel á hvolfi. Höfundur notar mikið hástafaletur til að magna áhrif orðanna þegar mikið liggur við og stundum hljóðritar hann orð til þess að koma framburði betur til skila:
- GÓÐILÆKNIRGETURÐULÆKNAÐÍMÉRTANNPÍNUNA.(Klukkuþjófurinn klóki, s. 122)
Um miðbik bókarinnar þegar spennan nær hámarki og drengirnir taka sig saman um að refsa aðalvillingi bæjarins sem brenndi kofana eru blaðsíðurnar svartar og letrið og myndirnar hvítar. Strákarnir láta til skarar skríða seint um kvöld þegar allir eru enn að vinna í frystihúsinu. Svartar síðurnar tákna myrkrið og draugalegt andrúmsloft kvöldsins, tunglið veður í skýjum og strákarnir sjá varla úr augunum:
Ekki var laust við að beygur læddist að ýmsum, þegar í hugann komu sögur um sjórekin lík og hauslausa drauga, sem reikuðu friðlausir um. Kolsvartur sjórinn glefsaði ólundarlega í fjörugrjótið.- Djöfuls myrkur! Tautaði Svenni.
(Klukkuþjófurinn klóki, s. 88)
Myrkrið er fullmikið fyrir íslenskt sumarkvöld en spennan er aðalatriðið, ekki veruleikatengingin. Villingnum er refsað og hann hefur hægt um sig í smá tíma en síðan tekur hann upp fyrri hegðun, sagan endar án umskipta, skemmtilegt sumar er liðið. Boðskapurinn er kunnuglegur: Strákar eru og verða strákar!
Faðir vor
Smásagan „Faðir vor“ tengist Klukkuþjófinum að því leyti að sömu persónur koma fyrir í báðum, sögusvið beggja er það sama, lítið sjávarþorp, og sögutíminn hinn sami. Höfundur staðsetur sögur þessar greinilega í umhverfi og tíma eigin bernsku en hann er fæddur 1951 og ólst upp á Ólafsfirði. Aðalpersóna smásögunnar er 11 ára strákur sem ekki er nefndur á nafn en vinir hans þrír, Nasi, Himmi og Svenni eru líka persónur í Klukkuþjófinum. Lengra nær samanburðurinn ekki því smásagan er alvarleg og fjallar um viðbrögð drengsins við dauða Svenna vinar síns. Sagt er frá í þriðju persónu en frásögnin er mjög nálæg því megnið af henni er miðlað gegnum drenginn, hvernig hann upplifir atburðinn.
Sagan samanstendur af fimm senum, sú fyrsta lýsir því þegar tveir úr hópnum hittast aftur eftir dauðsfallið, hvernig heimur þeirra er skyndilega breyttur og ekkert skiptir lengur máli. Önnur sena lýsir því þegar strákurinn fréttir dauðsfall vinar síns á heimleið úr ferðalagi, þriðja sena segir frá skylduheimsókn vinanna til prestsins, fjórða lýsir jarðaförinni og fimmta með hvaða hætti drengurinn kveður vin sinn og fer aftur að leika sér.
Við dauða vinarins fyllist drengurinn reiði út í Guð og presturinn sem er hátt yfir drenginn hafinn reynir ekki að setja sig í hans spor og vitnar í Biblíuna og svarar með hefðbundnum frösum. Það er til siðs að vinir skili kveðju og þess vegna hitta þeir prestinn, ekki til sáluhjálpar. Reiðin gagnvart Guði er óttablandin, drengurinn óttast að Guð refsi sér en tekur áhættuna þar sem hann efast um tilvist Guðs yfirhöfuð.
Sagan er mjög sterk, laustengdar senurnar mynda heild þar sem margt er sagt með fáum orðum. Spennan milli yfirborðs og hugsana er mikil, á yfirborðinu gerist lítið, jarðaförin er hefðbundin, en hugsanir drengsins eru á fleygiferð og fyrir honum er dauðinn óhugsandi og óásættanlegur.
Lokasenan þar sem drengurinn „gefur“ vini sínum gjöfina sem hann var búinn að kaupa handa honum, lítinn járnfugl, með því að kasta honum í ána er táknræn, í sögunni heldur hann utan um fuglinn í vasa sínum en þarna sleppir hann honum, minnist vinar síns á leynistaðnum þeirra beggja og „samþykkir“ á sinn hátt að hann komi ekki aftur, án þess þó að vera búinn að sættast við Guð enda sakleysi barnatrúarinnar óafturkræft.
Að lokum
Ef draga á saman í stuttu máli helstu höfundareinkenni Guðmundar Ólafssonar má segja að hann veiti lesendum góða innsýn í hugarheim barna og unglinga, sérstaklega stráka. Eðlileg samtöl og ljóslifandi sviðsetningar einkenna verk hans, auk kímnigáfunnar sem er eðlileg og snýst meira um hversu skemmtileg börn eru heldur en brandara og einstaka uppákomur. Verk hans eru því mjög skemmtileg lesning fyrir alla og að auki holl fullorðnum.
Inga Ósk Ásgeirsdóttir
Verðlaun
1998 – Íslensku barnabókaverðlaunin: Heljarstökk afturábak
1989 – Leikritasamkeppni Leikfélags Reykjavíkur – 2. verðlaun fyrir leikritið 1932
1986 – Íslensku barnabókaverðlaunin: Emil og Skundi
Fader vår
Lesa meiraLísa og galdrakarlinn í Þarnæstugötu
Lesa meiraEmil og Skundi - allar sögurnar
Lesa meiraHeljarstökk afturábak
Lesa meiraEmil og Skundi - Ævintýri með afa
Lesa meiraEmil, Skundi og Gústi
Lesa meiraKlukkuþjófurinn klóki
Lesa meiraEmil og Skundi
Lesa meira