Beint í efni

Hlustið þér á Mozart? Ævintýri fyrir rosknar vonsviknar konur og eldri menn

Hlustið þér á Mozart? Ævintýri fyrir rosknar vonsviknar konur og eldri menn
Höfundur
Auður Haralds
Útgefandi
Iðunn
Staður
Reykjavík
Ár
1982
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina

Einu sinni var ung stúlka, sem hét Lovísa. Hún hitti prins og kyssti hann. Lovísa og prinsinn giftust og lifðu hamingjusöm þar til prinsinn tók að breytast í frosk. Hann varð ekki grænn, hann kvakaði ekki um nætur, hann hoppaði ekki í garðinum. Lovísu hefði þótt það skemmtilegra. Hvað getur Lovísa gert? Getur hún haft froskalæri í forrétt? Eða getur hún fundið annan frosk í afleysingar? Hvar finnur hún þann frosk? Og hvers vegna lætur hún mömmu hírast í hálsbindaskápnum? Hvers vegna lét hún taka fósturbróður Haralds hárfagra af lífi? Af hverju myrti hún ekki tengdaföður sinn? Fær hún atvinnuleyfi í Rio de Janeiro? Eða fer hún að selja merki? Getur hún klippt táneglurnar á sér sjálf? Tekst Robert Redford að fá hana til að fara í andlitslyftingu? Eru bandarískir sendisveinar kynóðir? Er Lovísa vitskert? Er froskurinn kannski dulbúinn prins, þó hann dreymi bréfaklemmur í svart/hvítu? En, umfram allt, er einhver hér sem HLUSTAR Á MOZART?

Úr bókinni

"Góðan daginn, eigið þér til hurðardælur?"
   "Já, hvernig dælu vantar þig?"
   "Svona litla innaná í brúnu."
   "Hvað áttu við, góða?"
   "Litla hurðardælu til að hafa innaná, brúna að lit."
   "Þær eru alltaf hafðar innaná, annars færi nú fljótt illa fyrir þeim í veðrinu okkar, ha góðan?"
   "Ég á við að dælan þarf að vera innan á hurðinni, en hurðin sjálf opnast út. Hurðir opnast yfirleitt inn, alla vega þær hurðir sem ég hef hitt með dælu á."
   "Já, opnast hurðin út hjá þér? Hvar býrðu?"
   "Eigið þér þannig dælu?" spyr Lovísa ögn hvasst og afgreiðslumaðurinn í Brynju finnur næðinginn gegnum síðu nærfötin.
   "Jájá, þetta er bara stillingaratriði. Við erum með 60 og 85 kílóa dælu, hvort heldurðu að þú þurfir? Já, í hvaða átt opnast hurðin hjá þér? Ef að austan- eða norðanáttin tekur í hana þá getur vel verið að þú þurfir 125 kílóa dælu og þær eigum við ekki til. Við getum pantað fyrir þig og þú færð hana fyrir haustið."
   "Hún opnast í vestur," segir Lovísa þýðlega, "en þar sem þetta er hurð á fataskáp í svefnherberginu, þá geri ég ekki ráð fyrir að vindáttin hafi mikið að segja. Við búum í húsi og það er með veggjum til allra átta sem vernda þessa skápshurð fyrir náttúruöflunum."
   Afgreiðslumaðurinn heldur aftur af athugasemd um náttúruöfl í svefnherbergjum af ótta við að konan snúi sér alfarið til Ziemsen, en missir eðlislæga forvitni sína niður í tólið.
   "Hvað ætlarðu að gera við hurðardælu á skápshurð?"
   "Loka henni."
   "Hurðardælur eru yfirleitt notaðar þar sem mikill umgangur er, það er orkusparnaður að því. Ganga margir um þessa skápshurð?"
   Lovísa yfirvegar að segja: "Aðallega maðurinn minn, sem opnar hana en lokar henni aldrei og svo móðir mín, sem dó úr krabba fyrir nokkrum árum, hún hefur fast aðsetur í skápnum og er nokkuð þrasgjörn." En hún veit að þá vill afgreiðslumaðurinn vita hvernig þetta lýsir sér og síðan reynir hann að selja henni svikamiðil í stað hurðardælu. Svo hún segir:
   "Það er sko þannig að við maðurinn minn misstum báða handleggina og verðum alltaf að loka hurðinni með hökunni. Við vorum hvorugt með hökuskarð fram að þrítugu, en hún hafa myndast svo djúpir skorningar í okkur bæði að vegabréfin okkar eru ekki lengur gild. Og það er mjög bagalegt, því við vinnum við að selja lopapeysur og hesta erlendis."
   Þögn í Brynju. Afgreiðslumaðurinn andar í tólið, það finnst honum gróft og hann langar að vera dónalegur, en þorir það ekki. Kannski eru þau fötluð í alvörunni. Síðan segir hann hægt.
   "Ég held þú þurfir ekki nema 20 kílóa dælu og þær eru uppseldar hjá okkur. Reyndu Ziemsen."
   Þau kveðjast og allan daginn hugsar afgreiðslumaðurinn "Var þetta satt?" Það er ekki fyrr en í seinna kaffinu sem það leitar á hann, hvernig þau opna skápinn. 

(s. 69-71)

Fleira eftir sama höfund

hvað er drottinn að drolla?

Hvað er drottinn að drolla?

Miðaldra bókhaldari vaknar skyndilega upp sem gjafvaxta ungmey í Englandi á 14. öld. 
Lesa meira
litla rauðhærða stúlkan

Litla rauðhærða stúlkan

Hér er stutt saga af lítilli rauðhærðri stúlku sem skrifuð var af Auði Haralds í samstarfi við Vigdísi Hlíf Sigurðardóttur sem er höfundur myndefnis.
Lesa meira
læknamafían

Læknamafían : Lítil pen bók

Mér líður eins og perlumóður, ég á að halda áfram að safna steinum.
Lesa meira
hvunndagshetjan

Hvunndagshetjan : Þrjár öruggar aðferðir til að eignast óskilgetin börn

Ég var orðin einstæð móðir án þess að taka eftir því.
Lesa meira
ung, há, feig og ljóshærð

Ung, há, feig og ljóshærð

Uss, það er enginn vandi að skrifa ástarsögu.
Lesa meira
Elías

Elías

Hún hafði náð í sérstaklega harðgert gaddavírsgarn og búið til eins konar húfu. Húfan var hauspoki með tveim hnappagötum fyrir augun.
Lesa meira
elías, magga og ræningjarnir

Elías, Magga og ræningjarnir

Bankastjórinn kom og ætlaði að þakka henni fyrir að bjarga bankanum og Magga skammaði hann bara fyrir að hafa svona banka þar sem fólk þyrfti að nota byssu til að fá afgreiðslu.
Lesa meira
elías í kanada

Elías í Kanada

Á veggjunum í ganginum og eldhúsinu mjökuðstu sniglarnir mínir upp og niður og þreifuðu fyrir sér með fálmurunum. Alveg hafði ég steingleymt þeim þegar ég kom heim kvöldið áður. Um nóttina höfðu þeir svo skriðið upp úr bakpokanum og voru ennþá að leita að góðum steini til að búa á.
Lesa meira
elías á fullri ferð

Elías á fullri ferð

Fyrst skellur yfir þau gestaplága svo skæð, að mamma og pabbi eru að hugsa um að flýja að heiman. Elíasi tekst að hrekja gestapláguna burtu, að vísu með nokkuð grófum ráðum.
Lesa meira