Um bókina
Tilfinningarök er þriðja ljóðabók Þórdísar Gísladóttur sem hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar árið 2010 fyrir Leyndarmál annarra og var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir Velúr árið 2014.
Í þessari bók er ljósi varpað á líf fólks sem lesandinn telur sig ef til vill kannast við. Ef rýnt er í skuggana milli línanna kunna að leynast þar forvitnilegri atburðir en yfirborðið gefur til kynna.
Úr bókinni
XI
Þó að fólk haldi annað þá býr hún ekki ein. Í leiguíbúðinni býr líka draugur sem skríður upp í hjá henni á kvöldin. Hann leggst ekki þétt upp við hana, hann heldur sig við rúmstokkinn hinum megin. Í fyrstu varð hún óttaslegin þegar hún varð vör við hann, en nú er hún óhrædd. Það er jafnvel róandi að hafa hann þarna. Hann er fremur óræður í útliti en hún er ekki frá því að hann líkist Jerry Seinfeld. Hann er klæddur ljósum, vel gyrtum gallabuxum eins og sjónvarpsstjarnan og hár hans er örlítið liðað. Hún veit ekki hvað hún gerir ef hann reynir að snerta hana.