Beint í efni

Móðurást: Draumþing

Móðurást: Draumþing
Höfundur
Kristín Ómarsdóttir
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2024
Flokkur
Skáldsögur,
 Ævisögur

Um bókina

Oddný Þorleifs- og Þuríðardóttir stendur á mörkum barns og konu, og rígheldur í bernskuna því hana óar við veröld fullorðnu kvennanna með striti sínu og áþján. En á fimmtánda sumri er henni boðið til Jónsmessugleði þar sem henni opinberast kynngimagnaður og seiðandi kvennaheimur sem dagsdaglega er hulinn bak við ægivald karlanna.

Kristín Ómarsdóttir heldur hér áfram að segja skáldaða sögu langömmu sinnar á ofanverðri nítjándu öld í Biskupstungum. Draumþing er annar hluti frásagnarinnar sem hófst með Móðurást:Oddnýju, en fyrir hana hlaut Kristín Fjöruverðlaunin 2024.

Úr bókinni

Frumstig og frumhvöt mennsku minnar ...

Einsog fyrir dularfullan galdur þetta fermingarvor, þarfnaðist ég mjög skyndilega og allt í einu, sem þegn dansks konungsveldis, að leika mér við þegn úr öðru ríki og byrjaði að elta tófur útum grund og móa þar til þær hurfu mér sjónum. Upplýsti svo föður minn, bræður og frændur um grenin og bræðurnir í fylgd sonanna lögðu af stað niður hólinn með riffla á öxl, sneru til baka upp hólinn með bráðirnar á hinni öxl. Ég elti tófurnar einsog bolta afþví hvað ég sá vel heiminn og sérhvert atriði hans.
   Að sjá vel er draumkenndara ástand en sjónleysi.
   Auðvitað hljóp líka stríðnispúki af satanískri tegund sem gekk fyrir öðru en góðvild og þráaðist við að fylgja prestlegum áróðri þótt viljinn stæði með guði.
   Ég dáði englalegt líferni og seldi kaldrifjuð og endurgjaldslaust upplýsingarnar um grenin.
   Þannig kaus ég að sanna fyrir sjálfri mér að heiminum mennsku frekar en að hlífa ylfingum og tófum. Þess vegna gæti ég heldur ekki verið al-galin.
   Hingað til hafði ég nefnilega haldið að lífsgangurinn í mér gengi skakkt eða þangað til hrekkirnir og óbein þátttaka mín í drápum sönnuðu mér að ég hagaði mér á pari við venjulegan meðalvitleysing.
   Til þess að falla í kramið sveifst ég einskis.
   Undirbjó barnið á þann hátt fullorðinsmótið?
   Í eltingaleikjunum við tófurnar gleymdi ég öllu nema tófuskottinu og fann hið innra kraft sem uppurðist ekki snarlega og jókst með því sem hvert sumrið öðru á eftir lengdi á mér bífurnar.

(s. 31-32)

Fleira eftir sama höfund

Við tilheyrum sama myrkrinu – af vináttu: Marilyn Monroe og Greta Garbo

Lesa meira

Children in the Reindeer Woods

Lesa meira

Hjartatrompet

Lesa meira

Margrét mikla

Lesa meira

Smásögur

Lesa meira

Afmælistertan

Lesa meira

Margar konur

Lesa meira