Um bókina
Oddný Þorleifsdóttir, fædd 1863, elst upp í Bræðratungu, í hópi duglegra og glaðsinna systkina. Lífsbaráttan er hörð. „Móðurfólk mitt hélt ekki dagbækur sem ég veit af, það afmáði ummerki, gekk svo snyrtilega um að það skildi ekki eftir sig efniskennd spor. Að skrifa söguna eru því drottinssvik við móðurfólk mitt, einnig skuld við það og þökk.“
Úr bókinni
Og aðeins meira um rautt
Þannig lauk kvöldræðum. Ferða- og vinnulúið lognaðist fólk útaf en lengi heyrðist mamma mín hugsa sinn gang.
Rauði liturinn hefði uppurðst af paléttunni í portrettið af mömmu á rauðum upphlut, bláu pilsi með rauðan tóbaksklút í hendi.
Hún stendur í túni fyrir framan Heklugos, kinnar, varir, klórför, bit, útbrot, blöðrur ... stroka yfir klórför, bit, útbrot, blöðrur, frunsur, sár, marbletti, kúlur, blóðhlaupin augu ... málverk fegra, blóð er fallegt.
Svo splundrast úr túpunni í Heklugosið.
Þá var mamma fjórtán ára gömul.
Og sólarlagið fær líka sinn skammt af rauðum. Listamaðurinn þyrfti ekki að iðrast þess að bera túpuna á bakinu alla leið úr Reykjavík.
- Rautt og fegurðin eru eitt, hvíslaði Auðbjörg og stakk orðum á blað: eitt orð, tvö orð, mörg ... það varð aldrei hægt að telja þau, ég reyndi, svo hratt skrifaði hún og nýtti sér ljósbjartar nætur til að semja bréf til Rússlands, til Ameríku, til nýju viðskiptavinanna sem höfðu pantað af henni ástarbréf.
Marga ljósa nótt sofnaði ég við skrjáfið í pennastönginni sem færðist niður eftir hverri blaðsíðu á fætur annarri. Í fjarska iðuðu fljótin Hvítá og Tungufljót.
Þegar hún braut bréfsefnið saman var ég sofnuð.
Breyti dagstefin einhverju um næturdraumana gæti mig hafa dreymt næstu nótt eldrauða ísjaka sem flutu úr Gullfoss niður Hvítá og til hafs.
(s. 21-22)