Beint í efni

Nærbuxnanjósnararnir

Nærbuxnanjósnararnir
Höfundur
Arndís Þórarinsdóttir
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2019
Flokkur
Barnabækur

Um bókina

Í Brókarenda snýst lífið enn um nærbuxur.

Í gömlu verksmiðjunni er líf og fjör alla daga undir styrkri stjórn ömmu Lenu en nú er hún í útlöndum og eitthvað dularfullt á seyði. Kona sem segist vera húsvörður lokar Gutta og Ólínu úti og þegar þau komast loksins inn sjá þau að ýmislegt er horfið, til dæmis kanínumamman Snæfríður og innrammaða blúndubrókin sem kóngurinn átti. Vinirnir þurfa greinilega að grípa til sinna ráða.

Úr bókinni

Gutti ímyndaði sér stundum að Árni skólastjóri hlyti hreinlega að sakna hennar! Það hafði verið mjög stór partur af starfinu hans að skamma Ólínu. Karlgreyinu hlaut eiginlega að vera farið að leiðast. 

   Fyrir nokkrum mánuðum hefði Gutti ekki trúað því að hann yrði einhvern tímann sérlegur hugmyndafræðingur risastórrar hverfismiðstöðvar sem var til húsa í gömlu Nærbuxnaverksmiðjunni í Brókarenda. En þeim Ólínu hafði tekist að bjarga verksmiðjunni. Þau stoppuðu það að verksmiðjan yrði rifin, breyttu henni í hverfismiðstöð þar sem alls konar starfsemi blómstraði, og þau voru núna orðin vinir að eilífu. 

   Það sagði Ólína að minnsta kosti. Og krakkarnir í skólanum töluðu alltaf um þau tvö í sömu andrá. Gutta hlýnaði alltaf svolítið inni í sér þegar hann heyrði það. Hann var alltaf vanur að vera bara Gutti. En nú voru þau Guttogólína, næstum eins og þau væru ofurhetjuteymi, og allir vissu hver þau voru. 

   Honum hefði samt þótt betra að hann væri ekki líka kallaður Nærbuxnakóngurinn - en maður ræður ekki öllu. 

   „Jæja, yðar hátign,“ sagði Ólína hin kátasta. „Hvað ættum við að bardúsa í dag? Eigum við að bjarga köttum niður úr tré? Leysa loftslagsvandamálin í eitt skiptið fyrir öll? Finna lækningu við hiksta? Skólabjallan er búin að hringja og allur heimurinn bíður okkar!“

   „Hm?“ sagði Gutti. „Ég var nú bara að hugsa um að fara heim. Það er svolítið mikið heimanám þessa vikuna og …“ 

   „Heimanám, smeimanám!“ sagði Ólína glaðhlakkalega. „Krakkar eiga að vera duglegir í skólanum svo þeir geti fengið góða vinnu þegar þeir eru búnir í skóla. Þeir eiga að fá góða vinnu svo þeir geti kannski gert eitthvað gagn úti í lífinu. Þetta gildir augljóslega ekki um okkur, Gutti minn, því við erum búin að þessu öllu saman! Við erum nú þegar búin að gera miklu meira gagn en flestir gera á heilli ævi! Við getum farið að hafa gaman! Eins og gamla fólkið sem er hætt að vinna. Hugsaðu þér: Við getum sleppt sextíu, sjötíu árum af leiðindum og byrjað strax á öllu þessu skemmtilega! Svo ég spyr aftur: Hvað eigum við að gera?“

(bls. 14-15). 

 

Fleira eftir sama höfund

kollhnís

Kollhnís

Kleinan lítur út eins og marglitur broddgöltur þegar kökuskrautið stendur út úr henni.
Lesa meira

Játningar mjólkurfernuskálds

Lesa meira

Blokkin á heimsenda

Lesa meira

Innræti

Lesa meira

Nærbuxnaverksmiðjan

Lesa meira

Nærbuxnavélmennið

Lesa meira

Lyginni líkast

Lesa meira

Heimur í hendi – Sitthvað á sveimi

Lesa meira

Gleraugun hans Góa

Lesa meira