Um bókina
Bókin fjallar um stelpur í 8. bekk sem þurfa að endurskoða öll sín áform þegar óvæntur heimsfaraldur mætir til landsins. Þó að þær Vigdís Fríða, Geirlaug og Rebekka þurfi að húka heima í sóttkví er alveg óþarfi að láta sér leiðast! Það má alltaf finna sér óvænt verkefni, eins og að reka sjoppu eða njósna um dularfulla nágranna sem virðast hafa eitthvað óhreint í pokahorninu. Bókin er sjálfstætt framhald af Hingað og ekki lengra!
Úr bókinni
AAAAH! Það greindust 14 smit innanlands í dag og TÓMAS TRISTAN ER EINN AF ÞEIM SMITUÐU! ÞAÐ ÞÝÐIR AÐ ÉG ER KOMIN Í SÓTTKVÍ! Ég er í svo miklu uppnámi að ég get ekki skrifað meira.
Seinna: Úff, ókei, nú er ég aðeins búin að róa mig niður. Og ég ætla ekki að ljúga, ég er búin að gráta svolítið. Ein. Inni í herbergi. Alein. Því ég er komin í sóttkví. Það þýðir að ég þarf að vera hérna inni í heila viku! Alein! Fyrir nokrum dögum hafði enginn sem ég þekki, og ekki ég heldur, heyrt þetta orð SÓTTKVÍ, en nú eru allir alltaf að segja þetta. Ég má ekkert fara fram, nema rétt bara til að pissa, og þá þarf ég að vera með grímu og spritta allt sem ég snerti, eins og hurðarhúninn og kranann og takkann á klósettinu sem maður ýtir á til að sturta niður. Og ég má ekki nota sama handklæði og hinir í fjölskyldunni þegar ég er búin að þvo mér um hendurnar! Ég má ekki einu sinni fara fram til að fá mér að borða, þau verða að skilja eftir disk fyrir framan dyrnar mínar, bara eins og ég sé í fangelsi eða eitthvað.
En ég er að skrifa allt í belg og biðu. Afsakið það, framtíðarlesendur sem muið finna þessa dagbók á Þjóðminjasafninu, því núna er hún kannski virkilega orðin áhugaverð. Ætli hún geti heitið Saga úr sóttkví? Ég þarf aðeins að leggja höfuðið í bleyti hvað titilinn varðar.
En alla vega. Síminn hennar mömmu hringdi sem sagt áðan. Á línunni var einhver úr einhverju sem heitir smitrakninarteymi, sem er annað orð sem enginn þekkti fyrir nokkrum dögum en sem allir þekkja núna, og hann sagði mömmu að ég hefði verið í samskiptum við aðila sem hefði smitast af Covid-19. Og hann útskýrði fyrir henni að það þýddi að ég þyrfti tafarlaust að fara í sóttkví og svo þurfti hann líka að útskýra fyrir mömmu hvernig sóttkví virkar (sem er það sem ég var að telja upp hérna fyrir ofan). Ég varð mjög hissa og svolítið hrædd þegar mamma sagði mér þetta og ég fékk tár í augun, og ég sé alveg að mömmu og pabba (sem voru líka hissa og hrædd) langaði bæði að knúsa mig, en þessi sem hringdi var nýbúinn að segja að það mætti ekki, svo við vinkuðum bara hvert öðru og svo fór ég inn í herbergi.
(s.48-50)