Beint í efni

Skáld

Skáld
Höfundur
Einar Kárason
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2012
Flokkur
Skáldsögur


Þriðja skáldasagan í Sturlungasögu Einars, þær fyrri eru Óvinafagnaður og Ofsi.



Um Skáld:



Sumarið 1276 situr Sturla Þórðarson heima á Staðarhóli og hefur nýlokið við að skrá þann atburð er brúðkaupsgestir voru brenndir inni á Flugumýri. Þá gerir magnús lagabætir Noregskonungur honum boð um að koma umsvifalaust á sinn fund. Sturla leggur tregur af stað ásamt tveim öðrum íslenskum höfðingjum, Hrafni oddssyni og Þorvarði Þórarinssyni, en skip þeirra brotnar í óveðri við Færeyjar og þeir félagar þurfa að þreyja þar veturinn. Þessi langa dvöl  verður Sturlu tilefni til að rifja upp válega atburði undangenginna fjörutíu ára og sjá þá í nýju samhengi ...



Úr Skáldi:



Sumarið 1238



Eftir Apavatnsfund vissi landslýður að mikilla tíðinda var að vænta. Hvarvetna dreymdi fólk fyrirburði og draummenn sem kváðu vísur á borð við þessa, sem flaug um allt land:



Varist þér og varist þér,

vindur er í lofti.

Blóði mun rigna

á berar þjóðir.

Þá mun oddur og egg

arfi skipta.

Nú er hin skarpa

skálmöld komin.



Það var liðssafnaður og flokkadrættir; sameinaður her Haukdæla og Ásbirninga fór í Dali vestur en náði ekki Sturlu Sighvatssyni. Í ágúst í blóðviðri og hlýindum, eins og var allt þetta herfilega ár þegar stríðið hófst – endalaus árgæska til lands og sjávar – hélt Sturla aftur á móti með ógrinni liðs í Skagafjörð og mætti þar föður sínum og bræðrum sem komu ú Eyjafirði og höfðu einnig fjölmeni, þeir umkringdu Flugumýri, bæ Kolbeins unga, nú átti að ganga frá honum. En gripu í tómt, Kolbeinn ungi var farinn úr héraðinu með alla sína helstu menn.



Allir vita hvernig fór. Kolbeinn og félagar hfðu farið suður Kjöl og sameinast her Sunnlendinga undir forystu Gissurar Þorvaldssonar. Sturla og þeir feðgar hímdu í ráðaleysi og reiðileysi í meira en viku í hitamóðu sem lá yfir alndinu; það var ógn í lofti. Sturla Sighvatsson vildi helst hafa nafna sinn skáldið Sturlu Þórðarson sér við hlið, spurið hannráða, sagði honum drauma sína vonda; bar hann undir hugleiðingar sínar, eins og hvort hann héldi að Gissur og Kolbeinn myndu hlífa honum eða drepa ef þeir næðu tangarhaldi á honum. Skáldið hélt ekki að þeir tvímenningar myndu hlífa Sturlu Sighvatssyni ef þeir næðu honum, eins og mál höfðu nú þróast, en hann sagði fátt, kvaðst ekki vita, og þá sagði Sturla Sighvatsson, eins og við sjálfan sig, og var undarlega tómur til augnanna:



„Ég myndi allavega þyrma lífi þeirra.“



Svo kom óvinaherinn. Og þá varð Örlygsstaðabardagi, fjölmennasta orrusta sögunnar hér á landi; næstum þrjúþúsund manns voru á vígvellinum, en bardaginn varð samt aldrei binlínis harður, til þess var hann alltof ójafn; þót Sturlungar hafi verið búnir að bíða í meira en viku í Skagafirði voru þeir alls óviðbúnir og fóru háðuglega hrakför; foringjarnir Sturla og aldraður faðir hans Sighvatur voru kvistaðir niður; öll fylking riðlaðist, menn flúðu eða gáfust upp; margir helstu menn Sturlunga náðu að komast inn í Miklabæjarkirkju sem óvinirnir umkringdu; inni í kirkjunni ríkti skelfing og sumir snöktu því að til þeirra var h´ropað að utan að þeir yrðu allir höggnir. Það var heitast viða ð rjúfa kirkjuna, hún væri hvort sem er vanheilög meðan svona hyski hefðist þar við.



(78-80)


Fleira eftir sama höfund

Wyspa diabla

Lesa meira

Une affligeante histoire

Lesa meira

Fjendemøde

Lesa meira

Revontulet

Lesa meira

Pirunsaari

Lesa meira

Tyhmyreiden neuvot

Lesa meira

Kultasaari

Lesa meira

Luvattu maa

Lesa meira

Endurfundir

Lesa meira