Beint í efni

Sögumaður

Sögumaður
Höfundur
Bragi Ólafsson
Útgefandi
Mál og menning
Staður
Reykjavík
Ár
2015
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina:

Á rigningardegi í júní, þegar England og Costa Rica eigast við í heimsmeistarakeppninni í fótbolta í Brasilíu, er þrjátíu og fimm ára gamall maður staddur á pósthúsinu í miðbæ Reykjavíkur. Í tösku sinni er hann með umslag og í umslaginu er handrit að skáldsögu. Á meðan hann bíður eftir afgreiðslu kemur hann auga á mann sem hann kannast við frá því fyrir rúmum áratug, mann sem um tíma var kærasti stúlku sem hann elskaði sjálfur úr fjarlægð. Minningin um hatrið á þessum manni heltekur huga hans og verður til þess að hann yfirgefur pósthúsið áður en hann nær að koma frá sér umslaginu.

Sögumaður er saga um eltingarleik.

Úr bókinni:

Aron Cesar. Hann talar í símann á meðan hann réttir afgreiðslukonunni eitthvert bréf, eða lítinn pakka. En svo lágt stillir hann röddina að G. heyrir ekki eitt einasta orð af því sem hann segir. Hann sér samt að Aron segir eitthvað við konuna, og bendir um leið á pakkann. Varla er hann að láta hana vita hvað er í honum. Konan virðir hann fyrir sér, hálfólundarlega, á meðan hann borgar fyrir sendinguna með greiðslukorti. Hugsanlega var hann að upplýsa hana um hvað væri í pakkanum. Hvers vegna hefði hann annars átt að benda á hann, samtímis því að hann sagði eitthvað við konuna? En hafi hann verið að láta konuna vita um innihaldið, þá veit G. hvers vegna, hann er að ljúga til um það. Aron slekkur á símanum, og stingur kortinu í vasann. Þegar hann snýr sér við til að fara, og andlit hans blasir betur við G. en áður, þýtur í gegnum huga hins síðarnefnda heilt tímabil í lífi hans, þau ár sem einkenndust af ímyndaðri baráttu við þennan mann sem hann hefur hér fyrir framan sig. Þennan dreng, sem hann var þá. Og er eflaust enn. Og inn í þær myndir blandast vangaveltur um formið sem ég minntist á, hið stranga form sem ég hef í mínu lífi tileinkað mér á einn eða annan hátt. Reyndar er sá tími í lífi mínu, sem ég tengi þessum manni hér á pósthúsinu í minningunni, sá eini sem ekki hefur form. Og um leið og ég nefni það orð, þá veit ég að í samanburði við Aron Cesar er mitt eigið líkamlega form ekki eins vel skapað og hans. Eða við haldið. Ekki eins líklegt til að fanga athygli þeirra sem stöðugt eru með augun opin í því skyni að fá staðfestingu á að þeirra eðlilega lögun sé í raun og veru eðlileg. Þegar Aron leggur af stað út úr salnum rennur auk þess upp fyrir G. hvaðan hann hefur göngulag sitt. Þetta er göngulag pelíkanans sem hann sá í dýragarðinum í París.

(17-8)

Fleira eftir sama höfund

[Þrjú ljóð]

Lesa meira

Dragsúgur

Lesa meira

Við hinir einkennisklæddu

Lesa meira

Hvíldardagar

Lesa meira

Ansjósur

Lesa meira

Nöfnin á útidyrahurðinni

Lesa meira

Ljóð og smásaga í Wortlaut Island

Lesa meira

Ljóð í Brushstrokes of Blue: The Young Poets of Iceland

Lesa meira

Isländisches Theater der Gegenwart

Lesa meira