Beint í efni

Staða pundsins

Staða pundsins
Höfundur
Bragi Ólafsson
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2019
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina

Árið 1976 er verð á hljómplötu á Íslandi tæpar þrjú þúsund krónur – mun hærra en til dæmis á Englandi. Þetta sama ár ákveða mæðginin Madda og Sigurvin – hálffertug ekkja og unglingur með nýtilkominn tónlistaráhuga – að ferðast til Englands og heimsækja gamlan vin hins látna eiginmanns Möddu og föður Sigurvins, mann sem býr á sveitabýli suður af London, með fólki á sama reki og hann; uppreinsnargjörnu listafólki og stjórnleysingjum.

Úr verður saga um móður og son, sem ekki gat hafist fyrr en faðirinn á heimilinu vék úr vegi þeirra. Hálf saga – eins og allar sögur.

Úr Stöðu pundsins

Þrjú hundruð og ein króna. Og sjötíu aurar. Yfirskrift færslu þessa gráa föstudags, þegar vill svo til að breska pundið hefur lækkað, á meðan verð á gulli hækkaði, eins og ég las í blaðinu, kallar á neðanmálsgrein. Svoleiðis notar maður samt ekki í dagbók, er það? En hvers vegna ekki? Því smærra sem letrið er, þeim mun líklegra er að það hafi frá einhverju spennandi að segja. Þegar ég vaknaði í morgun var ég ennþá að hugsa um orðin frá í gær, um "ástandið" og fjölskylduna. Og jafnvel þótt þau orð, í mínu eigin samhengi, geti seint talist spennandi, eru þau efniviður í langar greinar neðanmáls; ég sé fyrir mér þéttan vegg af smáu letri um hið staðna ástand fjölskyldunnar, ekki bara minnar eigin, heldur einnig þeirrar fjölskyldu sem ég tengist í gegnum eiginmann minn heitinn. Óreiða. Dísa og Binni. Íslensk alþýðuheimili. Vín í merkingunni spritt. Af hverju mega Íslendingar ekki drekka bjór í sínu eigin landi? Og nú er dagurinn liðinn. Og ég búin að færa inn það sem mig langaði að færa í dagbókina. Búin að rifja upp heimilislífið í íbúðinni þeirra Dísu og Binna við Dunhagann; hvernig það var áður en þau hættu allri áfengisneyslu, eða töldu sig hafa gert það, með þeirri nýstárlegu aðferð að halda áfram að drekka án þess að aðrir kæmu auga á það. Sem var aðdáunarvert, hefur mér alltaf fundist; og í raun synd að Eldri hafi ekki tekist að tileinka sér þá sömu aðferð. Því það sást aldrei á þeim Dísu og Binna. Og aldrei neitt vesen á þeim, þótt einhverjar sögur bærust með öðrum Íslendingum úr árlegum ferðum þeirra til sólarlanda - reyndar alltaf sama landsins - um að þau slettu óhóflega úr klaufunum. Og kannski svolítið rúmlega það. Það hafði gengið sú saga að maður sem sagt var frá í frétt í Mánudagsblaðinu, sem átti að hafa misþyrmt barþjóni á bar í "sólarlandinu", og notað til þess kjötlæri sem hékk yfir barnum, svokallaða fjallaskinku, hefði verið Binni, stjúpfaðir Eldri.

(25-26)

Bókin á Borgarbókasafninu

 

Fleira eftir sama höfund

[Þrjú ljóð]

Lesa meira

Dragsúgur

Lesa meira

Við hinir einkennisklæddu

Lesa meira

Hvíldardagar

Lesa meira

Ansjósur

Lesa meira

Nöfnin á útidyrahurðinni

Lesa meira

Ljóð og smásaga í Wortlaut Island

Lesa meira

Ljóð í Brushstrokes of Blue: The Young Poets of Iceland

Lesa meira

Isländisches Theater der Gegenwart

Lesa meira