Um bókina
Sagnasveigur um tólf karlmenn og regnvotan maídag í lífi þeirra. Atvik dagsins og lífssögur þeirra vindast og bindast saman svo úr verður litríkur vefur umleikinn tónlist og trega.
Þetta eru ólíkir menn á ýmsum aldri. Þeir eru feður, synir og bræður, vinir, eiginmenn og elskhugar. Þeir eru hrjúfir og blíðir, einrænir og félagslyndir, skapandi og hugsandi og hummandi og reiknandi. Lífið hefur farið um þá höndum og mótað úr þeim menn.
Úr bókinni
Niðjar himnasmiðsins aka einir á óvissan áfangastað. Þeir þegja mest en þegar þeir spjalla þá er það um lit á þaki nágrannans eða veðrið í Austur-Landeyjum tiltekinn rigningardag fyrir fjórtán árum. Þeir halda einræður um sennilega skýringu á bilun í vél sem enginn hafði komið auga á eða orsakir verðbólgunnar - sem enginn hafði komið auga á - og þeir tala út frá tilfinningum sínum sem þeir kenna við brjóstvit og tala uns þeir hætta allt í einu. Þá þagna þeir, bíta á jaxlinn og brosa í kampinn og halda áfram ferð sinni á óvissan áfangastað, þegjandi. Þeir bera harm sinn í hljóði. Niðjar himnasmiðsins þegja um fornar ástir, hafnanir, högg og sársauka, villur og vegleysur ævinnar, barning á blindgötum. Þeir þegja um brostnar vonir og andvana þrár. Þeir þegja um hrundar borgir, brotin skip og rofnar brýr. Þeir þegja um það sem þeir álíta þarflaust að ræða því að engu verði um það breytt en standa í þeirri trú að á hinn bóginn sé ástæða til að ræða um staðsetningu Reykjavíkurflugvallar og jarðgöngin öll og litinn á þaki nágrannans. Þeir bera harm sinn í hljóði og hugsa sitt. Þeir hugsa um fráveitumál og mannanafnanefnd og hrista hausinn. Þeir eru reiðir yfir lúpínu og lekum krana, litnum á þaki nágrannans, hundi nágrannans og köttum nágrannans sem skíta í garða, bílastæðaskortinn í miðbænum, boðum sem þeim hafa ekki borist, kvótakerfinu, gáfaða vitlausa fólkinu, bensínverðinu, þingmönnunum, stjórnarskránni - þeirri nýju og þeirri gömlu - verðtryggingunni og vaxtaákvörðunum Seðlabankans, og auðvitað staðsetningu Reykjavíkurflugvallar. Þeir hrista hausinn reiðir og hugsa sitt, leggja rækt við reiði sína og bera harm sinn í hljóði. Þeir hlusta á hlaðvörp um Amundsen og Scott og Hillary og stórfenglegar erindisleysur mikilmenna og lesa Hrakninga og heiðavegi og Söguþætti landspóstanna og hugsa: þessir menn, þeir lifðu. Þeir ætla að sjá um þetta allt. Þeir ætla að annast sitt fólk, hugsa um sig og sína. Þeir hlusta á blús og lesa Einræður Starkaðar. Þeir fara í sjómann og tæma míníbarinn. Þeim líður stundum eins og þeir séu óvæntur hlutur á pokasvæði en þegar þeir horfa út á sjó sjá þeir stað sinn og stund og taka að spá í veður og gæftir eins og þeir séu trillukarl sem bíði þess að komast á skak en hafi skroppið frá til að sinna öðru. Kannski kemur lag í útvarpinu með almennilegri mússíkk og þá syngja niðjar himnasmiðsins með - um tilfinningar sínar - en þess á milli þegja þeir og bera harm sinn í hljóði en tjá hann með því að tala um allt hitt, og ætla að sjá um þetta allt. Og hugsa sitt á meðan þeir bíða af sér taktfastar lagleysur nútímans.
(s. 15-16)